Greinar
kort af flóðbylgju
Kort sem sýnir ferðatíma bylgjunnar frá jarðskjálftanum í Japan, 11. mars 2011.

Sjávarskafl (tsunami)

Halldór Björnsson 11.3.2011

Árið 1963 sammæltust vísindamenn um að nota orðið tsunami yfir langar bylgjur á yfirborði sjávar sem magnast uppi við landsteina og verða oft að hamfarabylgjum. Orðið tsunami er japanskt að uppruna og bein þýðing þess er bylgja í höfn - sem er reyndar mjög fjarri því að gefa greinargóða lýsingu á fyrirbærinu. Jón Eyþórsson notaði orðið sjávarskafl til að lýsa þessu fyrirbæri og verður hér notast við þá nafngift. Orðið skjálftaflóðbylgja (e. seismic sea wave) hefur einnig verið notað en það orð lýsir vel uppruna flestra sjávarskafla.

Sjávarskaflar eru furðanlega algengir. Að meðaltali verða 57 slíkar flóðbylgjur á hverjum áratug, en þó fæstar mjög stórar. Á síðasta áratug 20. aldar er talið að um 4000 manns hafi farist í rúmlega 80 flóðbylgjum.

Oftast má rekja sjávarskafla til jarðskjálfta, til dæmis á flekamótum þar sem flekar rekast saman (sniðgengi eða samgengi). Dæmi um slíkt er sjávarskaflinn í Bengalflóa 26. desember 2004. Hann orsakaðist af mjög öflugum jarðskjálfta (9 á Richterkvarða) nærri Súmötru. Líklegt er að að minnsta kosti 240 þúsund manns hafi farist í þessum hamförum (jarðskjálftanum og flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið) og allt að 800 þúsund hafi misst heimili sín.

Nýlegasta dæmið er svo sjávarskaflinn í Japan 11. mars 2011 sem orsakaðist af mjög öflugum jarðskjálfta. Kort af ferðatíma skaflsins má skoða á vef BBC.

Sjávarskaflar eru algengastir í Kyrrahafi, enda mikil jarðskjálftavirkni umhverfis það. Tæplega 90% sjávarskafla í Kyrrahafi verða af völdum jarðskjálfta. Sjávarskaflarnir verða þó ekki alltaf stórir. Þeir stærstu ferðast þvert yfir Kyrrahafið og valda eyðileggingu á svæði sem liggur þúsundum kílómetra frá upptökum. Til dæmis fylgdi stórum jarðskjálfta í Chile árið 1960 sjávarskafl sem olli verulegu manntjóni við Hiloflóa á Hawaii og eignatjóni í Japan. Bylgjan frá jarðskjálftanum í Japan 11. mars 2011 barst þannig um Kyrrahafið, til Indonesíu, Hawaii og vesturstrandar Norður Ameríku, en olli sem betur fer litlu tjóni.

Bylgjurnar sjálfar hafa mjög mikla öldulengd (tugir til hundruða km) en að sama skapi mjög lítið útslag (oft um metra) og verður þeirra því ekki vart á hafi úti. Það er ekki fyrr en þær koma upp að landi sem þær hækka og segja má að þá fyrst verði sjávarskaflsins vart.

Útbreiðsluhraði yfirborðsbylgna ræðst af öldulengd og dýpt sjávar. Ef öldulengdin er lítil er hún ráðandi í útbreiðsluhraðanum en ef hún er nægilega löng verður dýpt sjávar ráðandi.

Meðaldýpt hafsins er um 4 km en við slíka dýpt ferðast sjávarskafl með rúmlega 710 km hraða á klukkustund. Á stórum hluta Kyrrahafsins er 6 km dýpi og þar ná grunnvatnsbylgjur um 870 km hraða á klukkustund. Þó dýpið sé ekki nema 1 km nær sjávarskaflinn samt 350 km hraða á klukkustund. Það er algengur misskilningur að sjávarskafl myndi alltaf krappa flóðbylgju sem skellur á ströndinni eins og risavaxin alda. Þó slíkt geti að vísu gerst er hitt algengara að yfirborð sjávar einfaldlega stígi mjög skyndilega. Það fer eftir strandlínu og lögun sjávarbotnsins hvernig skaflinn skellur á landi. Í flóum og fjörðum getur hæð bylgjunnar magnast verulega.

Þetta er að megninu til útdráttur úr grein sem birtist á Vísindavefnum 8. apríl 2005, vorið eftir hamfarirnar á annan dag jóla í Banda Aceh í Indónesíu. Þar má finna fleiri greinar um efnið.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica