Áhrif reikninets á veðurspár
Myndrænar hitaspár á vef Veðurstofunnar, svokallaðar veðurþáttaspár, eru hreinar tölvuspár. Ef grannt er skoðað sést að þeim er skipt upp í þrjá flokka: A, B og C (sjá merkingu neðan við spákortin).
A-spárnar eru reiknaðar í 3 km neti og tímaskref kortanna er ein klukkustund. Þær spár ná frá 7 klst. til 54 klst. fram í tímann og eru reiknaðar fjórum sinnum á sólarhring. Dæmi um slíka spá er að finna á mynd 1.
B-spárnar eru reiknaðar í 9 km neti og birtar fyrir spátímana 57 til 72 klst. eftir spátíma, með 3 klst. tímaskrefi. Vegna þess að netið er þrisvar sinnum grófara en í A-spánum eru spákortin mun grófari eins og sjá með því að bera saman kortið á mynd 1 saman við kortið á mynd 2 hér fyrir neðan.
C-spárnar eru einnig reiknaðar í 9 km neti en eingöngu tvisvar á sólarhring þar sem spátími nær upp að 168 klst., eða 7 sólarhringum. B-spárnar eru aftur á móti reiknaðar fjórum sinnum á sólarhring.
Á meðfylgjandi myndum / kortum er tekið dæmi úr Skagafirði. Það sýnir vel mismuninn á A-, B- og C-spám. Veðurstofunni barst einnig fyrirspurn frá glöggum Skagfirðingi sem benti á að oft væri spáð kaldari tungu en raunin væri um austanverðan Skagafjörð, rétt norðan við botn fjarðarins.
Ef borin eru saman kortin hér að ofan, fyrsta úr A-spá (mynd 1) og seinni úr B-spá (mynd 2 og 3), sést skýrt að á fínni upplausnarkortinu (A-spá, mynd 1) er hlýrra meðfram allri austurströnd Skagafjarðar en úti á firðinum sjálfum. Þá nær kalt loft af firðinum inn á land að austanverðu, rétt norður af botni, í grófari upplausninni (B-spá, mynd 2 og 3). Þessi kalda tunga, nokkurs konar stígvél með tána í austur, er nokkuð algeng á B- og C-kortunum, einkum yfir daginn þegar hitamunur er mestur milli lands og hafs. Ástæðuna má rekja beint til upplausnarinnar. Það landslag sem notað er við veðurspáreikninga verður að vera af sama grófleika og notaður eru við reikningana sjálfa. Því meiri sem upplausnin er því líkara er líkanalandslagið raunverulegu landslagi.
Landslagið er sérstaklega mikilvægt fyrir vind og með meiri upplausn nást staðbundnin vindasvið betur, en upplausnin er líka mikilvægt fyrir hita.
Myndir 4a og 4b hér að ofan sýna landslag Íslands, líkt og líkanið sér það, í þessum tveimur upplausnum, 3 km neti og 9 km neti. Í fínna netinu eru fjöll mun betur uppleyst meðan landslagið smyrst út í grófari upplausninni. Á Tröllaskaga er t.d. ekki að sjá neina dali í grófari upplausninni og mun minna láglendi í Skagafirði. Þessi breyting í landslaginu hefur áhrif á útreikningana og verður til þess að oft er reiknaður hiti of lágur rétt norðan fjarðarbotns, austanmegin.
Sjá einnig Leiðbeiningar með veðurþáttaspám.