Greinar
tveir regnbogar rísa upp frá sama stað
Speglaðir regnbogar við sólarlag.

Speglaðir regnbogar

Hróbjartur Þorsteinsson 10.9.2010

Regnbogar myndast þegar sólarljós leitar inn í regndropa og speglast á bakhlið dropanna. Breytilegur brotstuðull vatns fyrir mismunandi bylgjulengdir ljóss veldur tvístrun bogans í mismunandi liti. Einfaldir regnbogar mynda heilan hring með u.þ.b. 42° radíus beint undan sólu frá sjónarhorni áhorfanda. Miðja venjulegs regnboga er því fyrir neðan sjóndeildarhring.

Sjaldgæft er að sjá heilan hring regnboga vegna þess að þá þarf mikið magn regndropa fyrir neðan sjóndeildarhring. Helst er að sjá slíka fulla boga úr mikilli hæð, t.d. ofan af hæstu skýjakljúfum, úr flugvélum eða af háum og bröttum fjallshlíðum.

Oft sést einnig annar ytri regnbogi með u.þ.b. 50° radíus en í öfugri litaröð við þann innri. Ytri regnbogar útskýrast af fleiri en einni innri speglun í regndopunum.

Það kemur því spánskt fyrir sjónir þegar sést til tveggja regnboga í eins litaröð, sem þar að auki virðast skarast við sjóndeildarhringinn eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Regnbogar sem skarast hafa mismunandi miðpunkta sem hægt að útskýra með tilvist tveggja ljósgjafa. Algengasta ástæðan er sú, að sólarljósið speglast af sléttu yfirborði vatns og myndar þannig speglaðan ljósgjafa fyrir neðan sjóndeildarhringinn.

Þegar ljósmyndin var tekin var dúnalogn og spegilslétt haf rétt hjá. Hærri regnboginn á myndinni er því speglaður regnbogi og hefur miðdepil í sólarhæð yfir sjóndeildarhringnum. Regnbogar og speglaðir regnbogar skarast við sjóndeildarhringinn því ljósgjafarnir (og því miðdeplarnir) eru jafn hátt og lágt yfir sjóndeildarhringnum.

Frekari útskýringar og myndir af regnbogum er að finna á vefsetrinu Atmospheric Optics.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica