Greinar
skýjafar
Skýjafar yfir Þríhyrningi 18. febrúar 2011.

Jaðarlagið

Er í góðu sambandi við yfirborð jarðar

Trausti Jónsson 29.4.2010

Jaðarlagið er skilgreint sem sá hluti veðrahvolfsins sem er undir svo nánum áhrifum frá yfirborði jarðar að fréttir af breytingum þar geti borist á klukkustund eða minna í gegnum allt lagið. Bæði afl- og varmafræðilegur breytileiki yfirborðs kemur við sögu, t.d. núningur, rakaskipti, mengunarlosun og landslagsáhrif af ýmsu tagi. Jaðarlagið er mjög misþykkt, gjarnan á bilinu fáein hundruð metra upp í 2 til 3 kílómetra.

Dægursveifla vinda, varma og vatnsbúskapar er mun meiri í jaðarlaginu heldur en í þeim hlutum veðrahvolfsins sem ofar eru. Hiti í veðrahvolfinu fellur að meðaltali um 0,65°C/100m, en við nánari athugun kemur í ljós að heildarhitafallinu er langoftast nokkuð misskipt. Mjög oft má greina a.m.k. þrjú hæðarbil með mjög mismunandi hitafalli,

(i) neðst er lag þar sem hiti fellur nærri því eins og þurrinnræna hitafallið (1°C/100 m hækkun)

(ii) lag með hitahvörfum (eða mjög stígandi mættishita)

(iii) lag ofan við, þar sem hiti fellur nærri meðaltali veðrahvolfsins

Myndafyrirsögn
línurit
Endurgerð myndar sem birtist í riti R. Stull og sýnir núningsáhrif dreifast um jaðarlagið, en trauðla ofar. Stull, R.B. (1999). Meteorology For Scientists And Engineers, Brooks/Cole 528 s.

Neðst er jaðarlagið. Það er vel blandað af kviku* og bólgnar út á daginn (vegna vermikviku) en er fyrirferðarminna að nóttu. Hvassviðri auka einnig þykkt þess og afmarkast efra borðið þá af aflkvikuhitahvörfum. Vindsniði er mestur niður undir jörð þar sem núningsáhrifa gætir (sjá Hrýfi).

Núningsáhrifin minnka ört upp á við, en upplýsingar um núninginn neðar berast þó upp í gegnum allt jaðarlagið með afl- eða vermikviku. Við efri brún þess eru líka oft vindhvörf þar sem vindhraði breytist ört með hæð. Vindur getur verið bæði meiri (eins og hér er sýnt) eða minni ofan jaðarlagsins heldur en niðri í því. Við sérstakar aðstæður geta myndast bylgjur við við jaðarlagsmörkin og sjást þeirra alloft merki í skýjamyndunum af ýmsu tagi.

* Kvika er hér í veðurfræðilegri merkingu orðsins, þýðing á alþjóðaheitinu turbulence, sem nær yfir tilviljanakenndar og síbreytilegar sveiflur í hreyfingu lofts eða vökva. Þessar sveiflur eiga sér stað í öllum þremur stefnuþáttum hreyfingar og er útilokað að segja fyrir um hvernig hreyfingar einstakra agna eða agnaþyrpinga hreyfast. Oft má þó greina hreyfinguna á tölfræðilegan hátt þannig að gagn sé að.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica