Greinar

Hjáský

Ský sem fylgja öðrum skýjum

Trausti Jónsson 16.4.2010

Miklum skúraklökkum eða öðrum stórum skýjum fylgja stundum lítil ský, annarrar gerðar. Fáein afbrigði hafa fengið nöfn, sem þá er skeytt aftan við nafn meginskýjategundarinnar.

Í skilgreiningakerfi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar eru eftirfarandi hjáskýjagerðir:

arcus bogi
incus steðji
mamma júgur, separ, keppir
pannus tætla, ræma, hrafnar
pileus hetta
praecipitatio með úrkomu (fall)
tuba strokkur
velum segl, faldur
virga slæður (stafur)


Bogi (arcus). Óformlega er greint á milli tveggja undirflokka: Annars vegar hilluskýja, og hins vegar pylsuskýja. Hilluský fylgja miklu niðurstreymi, á jaðri mjög stórra þrumuklakka, en eru annars sjaldséð. Pylsuský sjást helst í jaðri straumstökka í lofthjúpnum. Bogar eru sjaldséðir hér á landi.

Steðji (incus). Þegar stórir élja- eða skúraklakkar rekast á veðrahvörfin komast þeir ekki ofar, en vindur dreifir efsta hluta skýsins fram eða afturfyrir það. Algengt hér á landi.

Júgur, separ, kekkir. Myndast til hliðar við mikið uppstreymi, sjá fróðleikspistil.

Hrafnar, tætlur, ræmur (pannus). Myndast ýmist þegar vindur tætir rifrildi úr þokuskýjum í hvassviðri eða þegar úrkoma í hvassviðri fellur niður í kaldara loft.

Hetta (pileus). Þegar stórir élja- eða skúraklakkar lyftast af miklu afli upp undir veðrahvörfin þrýstast þau upp. Sé rakt loft í þessu þvingaða uppstreymi þéttist rakinn og myndar hvíta slæðu sem leggst ofan á skýið. Bil er langoftast á milli klakks og hettu.

Úrkoma (praecipitato) úr skýjum er stöku sinnum talin sem hjáský. Þetta er sárasjaldan notað, helst þá ef úrkoma fellur úr skýjum sem eru að breytast, úr skýjategund sem úrkoma fellur ekki úr, yfir í úrkomuskýjategund.

Tuba (strokkur). Trektlaga skýjaform sem hangir niður úr öðru skýjalagi. Skýstrokkur (veikur eða sterkur) getur verið í myndun.

Segl, faldur (velum). Nokkurn veginn lárétt þunnt skýjalag sem liggur að miklu uppstreymi en tekur ekki þátt í því. Sést oft með skúraklökkum og stöku sinnum með gosmekki úr eldgosi.

Slæður, stafur (virga). Notað um úrkomuslæður sem oft má sjá neðan úr skýjum en ná ekki til jarðar.

Skýjaheiti (pdf 0,1 Mb)





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica