Greinar
Sólskinsstundamælir
Sólskinsstundamælir á Sigurðarstöðum á Melrakkasléttu.

Þurrkar 4

Landið í heild 1924 til 2008

Trausti Jónsson 19.8.2009

Úrkomugagnasafn Veðurstofunnar er langt í frá einsleitt. Fyrir 1920 voru mælistaðir mjög fáir og 1924 eru þeir aðeins 12, fimmtán árum síðar voru þeir orðnir 40. Sú tala hélst óbreytt á stríðsárunum, en síðan varð ákveðin fjölgun og 1961 var úrkoma mæld á 78 stöðvum. Fjöldinn náði hámarki 1971 til 1973, en síðan hefur mönnuðum stöðvum fækkað lítillega.

Úrkomumælingar hafa ætíð verið gisnari norðaustanlands heldur en annars staðar á landinu og allra gisnastar á hálendinu. Ástandið á hálendinu hefur þó heldur lagast á síðustu árum með fjölgun sjálfvirkra stöðva. Ekkert er fjallað um sjálfvirku mælingarnar hér.

Meðalúrkoma á landinu

Ein leið til að finna þurrasta og votasta árið er að reikna meðalúrkomu á landinu með því einu að leggja saman ársúrkomu allra stöðva og deila með fjöldanum. Þessi aðferð væri mjög góð ef ekki kæmi til áðurnefnt misvægi landshluta og að auki er hún næm fyrir skipulögðum breytingum á stöðvakerfinu. Ekki verður fjallað um það frekar hér.

En samkvæmt þessum einfalda reikningi er árið 1960 það þurrasta á landinu frá og með 1924. Meðalúrkoma stöðvanna var þá um 770 mm eða um 72% af meðaltalinu 1971-2000, rétt á eftir fylgir 1955 með 785 mm.

Mest varð meðalúrkoman 1992, 1323 mm, 24% umfram meðalúrkomu. Næstvotasta árið var 2007 með 1313 mm. Taka verður fram að sú tala er ekki endanleg þar sem að endanlegu uppgjöri ársins er ekki lokið, en minnisstæðar eru haustrigningarnar það ár. Það er eftirtektarvert að fimm af tíu votustu árum 1924 til 2008 komu á tímabilinu 2002 til 2008. Þriðja votasta árið samkvæmt þessum mælikvarða var 1926.

Aðrar matsaðferðir

Hægt er að nota talningu úrkomudaga til að meta þurrka. Hér er það gert þannig að talinn er fjöldi úrkomumælidaga (stöðvafjöldi sinnum dagafjöldi í árinu) og jafnframt talinn fjöldi úrkomudaga, hér dagur sem úrkoma er mælanleg (0,1 mm eða meiri).

Þetta hefur þann ókost að á stöðvum þar sem snjókomudagar eru stór hluti heildarfjölda er hætt við að dagur þar sem nokkur snjókorn hafa fallið er talinn alveg þurr, vegna þess að enginn dropi er í mælinum. Þetta ætti þó að jafnast út sé stöðvadreifingin svipuð til lengri tíma. Flestir athugunarmenn eru mjög samviskusamir og tilkynna einn dropa í mælinum sem 0,1 mm eins og á að gera. En fyrir tíma síma og símskeyta var heldur meiri misbrestur á þessu heldur en nú er.

Landshlutar

Lítið samband er milli úrkomu norðaustanlands og í öðrum landshlutum, þurrkar geta verið þar þó þeir séu ekki annars staðar. Mun betra samband er á milli þurrka, annars vegar sunnanlands og hins vegar vestanlands. Hér er gerð tilraun til að meta þurrustu ár í þremur landshlutum auk landsins í heild. Vesturland er skilgreint sem svæðið frá Reykjavík norður og austur um til og með Húnavatnssýslu, Norðausturland er talið þaðan austur um og suður að Stöðvarfirði, en Suðurland þar á milli.

Úrkomudagarýr ár

Úrkomudagarýrasta árið, og þar með e.t.v. það þurrasta frá 1924 á landinu í heild, er 1941. Það er einnig þurrasta árið norðaustanlands. Á landinu voru 42% allra daga úrkomudagar en aðeins 29% daga á Norðausturlandi. Árið 1965 er það þurrasta vestanlands (44% daga úrkomudagar) en 1952 á Suðurlandi (43% daga úrkomudagar). Næstþurrast á landinu var árið 1928 og síðan 1965, norðanlands var næstþurrast 1948, vestanlands næstþurrast 1985 og síðan 1960. Sunnanlands var næstþurrast 1965 og síðan 1931.

Tafla 1
Þurrustu mánuðir eftir landsvæðum og landið allt

landið n-land v-land s-land
jan 1936 1963 1936 1936
feb 1977 1932 1977 1947
mar 1937 1929 1937 1962
apr 1941 1941 2008 1953
maí 1931 1933 1931 1958
jún 1991 1982 1991 1991
júl 1939 1944 1939 1939
ágú 1960 1948 1943 1960
sep 1983 1931 1935 1957
okt 1960 1939 1968 1966
nóv 1951 1942 1951 1947
des 1965 1927 1978 1976
ár 1941 1941 1965 1952



Úrkomutíðustu árin

Úrkomutíðasta árið á landinu var 1972, 60% daga voru úrkomudagar. Að meðaltali (1971-2000) voru 54% allra daga úrkomudagar. Árið 1972 var einnig hið úrkomutíðasta á bæði Suður- og Vesturlandi, 1971 var úrkomutíðasta árið á Norðausturlandi.

Tafla 2
Votustu mánuðir eftir landsvæðum og landið allt

landið na-land v-land s-land
jan 1989 1994 2006 1933
feb 1959 1990 1959 1959
mar 2007 1967 1953 1976
apr 2002 1953 1971 2002
maí 1971 2004 1991 1970
jún 1969 1972 2006 1969
júl 1972 1993 1955 1935
ágú 1969 1959 1976 1969
sep 2007 2007 1969 1996
okt 1969 1995 2007 1963
nóv 1978 1972 1993 1993
des 1975 1966 1953 1924
ár 1972 1971 1972 1972







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica