Hver er munurinn á hita- og kuldaskilum?
Hvoru megin er kuldinn eða hitinn?
Skil myndast þar sem loft af mismunandi uppruna mætist, til þæginda er talað um að tveir loftmassar takist á. Skil eru sjaldnast alveg kyrrstæð heldur hörfar annar loftmassinn oftast fyrir hinum sem þá sækir fram. Skilum fylgir að jafnaði einhver úrkoma. Hitaskil eru þar sem hlýtt loft sækir að, þegar þau fara yfir athugunarstað hlýnar á staðnum. Í kuldaskilum sækir kalt loft fram á við og því er kaldara loft á eftir skilunum en á undan þeim. Fari hitaskil yfir er oftast von á kuldaskilum fljótlega í kjölfarið. En oft er síðan löng bið eftir næstu hitaskilum, margir dagar eða jafnvel vika eða meir.
Skil hallast
Nokkur munur er á hita- og kuldaskilum. Hitaskilin hallast fram fyrir sig en það þýðir að þegar þau nálgast gætir þeirra fyrst í háloftunum þar sem sjá má ýmist klósiga eða bliku sækja upp himinhvelfinguna. Stundum má sjá fyrstu merki þess að hitaskil nálgist meir en sólarhring áður en þau fara yfir og úrkoma samfara þeim er oft tiltölulega langvinn. Hér á landi er oftast suðaustanátt á undan hitaskilum, en þegar þau fara yfir snýst vindur til suðurs eða suðvesturs.
Kuldaskilin hallast aftur fyrir sig, þegar þau fara yfir við jörð er enn hlýtt í háloftunum. Þá snýst vindur gjarnan úr suðri í suðvestur eða vestur og fljótlega birtir til og kólnar. Oftar en ekki stendur úrkoma samfara kuldaskilum fremur stutt og hún er þá ákafari en úrkoma hitaskilanna. Hér á landi er oftast stutt á milli hita- og kuldaskila og sjaldnast nær að létta til á milli þeirra. Kuldaskilin gera því mun minni boð á undan sér en hitaskilin. Illa sést til þeirra háu skýja sem þeim fylgja fyrr en þau sjást fjarlægjast eftir að skilin eru farin hjá.