Vindur býr til snjórúllur
Pistill Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings frá 1956
Stöku sinnum sést fjöldi snjórúlla, sem vindur hefur búið til, á dreif um sléttar snævi þaktar grundir, jafnvel hundruð rúlla á einum túnbletti. Ekki er kunnugt um sérstakt nafn á fyrirbrigðinu en kalla má það vindsnúnar snjórúllur eða snjóbolta eða eitthvað í þá áttina. Þetta er ekki beinlínis algengt en þó nógu algengt til þess að rúllur af þessu tagi hafa sést á Veðurstofutúninu. Fyrir miðjan desember 2008 birtist mynd í Morgunblaðinu af mikilli rúlludreif í Hafnarfirði og nokkru síðar bárust Veðurstofunni myndir sem Sólrún Harðardóttir tók á Hólum í Hjaltadal 26. febrúar 2009.Rúllurnar mynduðust hins vegar tveimur dögum áður. Vindurinn hafði fengið smáaðstoð í halla.
Stærstu rúllur eða kúlur af þessu tagi, sem getið er um í gögnum Veðurstofunnar, eru þær sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lýsir í pistli í tímaritinu Veðrinu (1957). Hann sá þær í Selskarði (nærri Næfurholti á Rangárvöllum) 5. febrúar 1956 eftir ofsaveður sem þá gerði og fer lýsing hans hér á eftir. Skýringin sem hann gefur á myndun kúlanna er vafalítið rétt. Minni kúlur virðast nokkuð algengar, algengari en Guðmundur heldur, en jafnstórar og þær sem hann lýsir eru mjög fágætar.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur:
Snjókúlur eftir rok í Selskarði
Aðfaranótt sunnudagsins 5. febrúar 1956 gisti ég í Næfurholti á Rangárvöllum. Þá gerði ofsarok á austan með iðulausum skafrenningi og nokkurri snjókomu, en einnig var talsverður lausasnjór fyrir. Þetta veður hélzt fram eftir sunnudeginum, svo varla var fært út úr húsdyrum, enda óstætt með öllu á bersvæði. Slíkt er raunar ekkert einsdæmi í austanveðrum undir Bjólfelli, og ekki þurftu heimamenn þar lengra að minnast enn meira roks en til fárviðrisins sem gekk yfir land allt 1. febrúar. Undir hádegi brá til þíðviðris, svo að blotaði í snjónum og hætti að skafa, og þá eða litlu síðar fór heldur að draga úr veðurhæðinni. Um kl. 2 e.h. áræddi ég loks út og skrapp þá sem leið liggur um Selskarð austur að Loddavötnum. Þá var enn illstætt og rigningarhraglandi.
Á þessari göngu sá ég þau kynlegu ummerki eftir ofviðrið, sem teikningin á að sýna. Það voru snjókúlur, sem höfðu bersýnilega oltið undan veðrinu, hlaðið utan á sig og stækkað, unz þær urðu storminum ofviða og staðnæmdust. Austur frá hverri kúlu sást greinilega slóðin, sem hún hafði oltið um leið og hún safnaði utan á sig snjónum. Sú slóð var í engu frábrugðin þeirri, sem verður eftir, þegar krakkar velta snjóboltum, nema fótspor sáust engin. Kúlurnar voru af mörgum stærðum, margar sem mannshöfuð, en hinar stærstu allt að 1 metri að þvermáli eða á stærð við heybagga. Þær lágu á víð og dreif alls staðar á leið minni heiman frá bæ og austur úr Selskarði, en voru langstærstar í skarðinu, enda var hvassast þar. - Það skal tekið fram, að teikning mín af snjókúlunum er ekki nákvæm. Hún er gerð eftir minni, þegar ég var aftur kominn í húsaskjól. Úti í þessu veðri varð hvorki við komið myndavél né upp tekið blað og blýantur.
Aðeins einu sinni áður hafði ég séð snjókúlur, sem stormur hafði myndað og velt á jafnsléttu. Það var einnig þarna í Selskarðinu veturinn 1947 eða '48. En þá voru boltarnir bæði miklu færri og smærri en að þessu sinni og ég veitti þeim litla athygli. Ekki hef ég í annan tíma haft spurnir af þessu fyrirbæri, og vissulega er það mjög sjaldgæft. Þegar ég kom á vettvang sást enginn snjór velta og skilyrði fyrir myndun snjóbolta voru bersýnilega ekki lengur til. Samt var enn ofsarok og nógur votur snjór, sem hnoðaðist vel. - Hverju var þá áfátt?
Það er tilgáta mín, að snjórinn hafi verið orðinn um of gegnvotur. Ég tel sennilegt, að kúlurnar myndist aðeins, meðan er að byrja að blota í snjónum og þunnur (10-20 cm) votur börkur liggur ofan á þurrum snjó, sem enn er frost í. Þá er næg samloðun í berkinum, til að hann geti fletzt af og hnoðazt saman í bolta. En þegar blotinn nær dýpra niður í fönnina eða til botns í henni, verður samloðun hennar í heild of mikil til þess að stormurinn geti flett ofan af henni efsta laginu. (Veðrið 2. árg. 1. hefti bls. 12-13.)
Þjóðlegur fróðleikur
Óli Hilmar Briem lætur þess getið í bréfi til Veðurstofunnar 24. mars 2010 að fyrirbrigðið hafi sums staðar verið kallað Skotta, nafnið þá líklega dregið af „halanum“ sem þessar rúllur mynda. Hann nefndi einnig að í þjóðtrúnni hafi skottur þótt ills viti veðurfarslega og spá frekari stórviðrum.
Nýlegar ljósmyndir
Vindurinn myndaði snjórúllur við Reykjaneshöllina í Keflavík og á velli Knattspyrnufélags Keflavíkur. Veðurstofan fékk sendar þessar myndir í ársbyrjun 2013. Á annarri þeirra er hol snjórúlla; vindurinn veltir upp eins konar renningi sem horft er í gegnum. Fleiri ljósmyndir bárust frá Kleifarvatni í mars 2016.