Greinar
fellibylurinn Ellen 20. september 1973
Fellibylurinn Ellen, 20.9. 1973

Fellibyljir 1

Þýðingar á fáeinum hugtökum

Trausti Jónsson 21.7.2008

Fellibyljir eru krappar lægðir sem myndast yfir heitum höfum hitabeltisins og á jöðrum þess. Þeir valda árlega gríðarlegu tjóni þar sem þá ber yfir, bæði vegna fárviðris og flóða. Flestir þeir sem farast drukkna. Hin síðustu ár hafa fellibyljir verið venju fremur í fréttum vegna hins mikla tjóns sem þeir hafa valdið í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Af öðrum löndum fer gjarnan minni sögum þó afleiðingar séu oft tiltölulega meiri hvað manntjón og röskun á högum almennings varðar.

Um orðanotkun

Í þýðingum fjölmiðla á erlendum fréttaskeytum og skýringum gætir oft misskilings þegar fjallað er um veðurfræðileg fyrirbrigði. Oft er þó ekki hægt að kenna hérlendum blaða- eða fréttamönnum eingöngu um heldur eru erlendu fréttirnar stundum harla ónákvæmar og jafnvel villandi. Hér að neðan er listi um helstu hugtök sem við sögu koma, enskar útgáfur heita þeirra og íslenskar þýðingar.

Í fjölmiðlum og í umræðum meðal manna er fellibyljum, fárviðrum, hvirfilbyljum og skýstrokkum oft ruglað saman.

Tropical hurricane:

Fellibylur, sérstök gerð lægða sem einungis myndast í hitabeltinu og við jaðra þess. Oft er orðinu tropical sleppt og getur þá verið vafamál hvort um eiginlegan fellibyl er að ræða eða þá fárviðri sem tengist lægð á norðlægari breiddargráðum. Fellibyljir eru gjarnan 200 til 1000 km í þvermál. Lægðir þessar nefnast typhoon á vestanverðu Kyrrahafi en cyclone sunnan miðbaugs, þannig að orðið hurricane á oftast við Atlantshaf eða austanvert Kyrrahaf.

Cyclone:

Sést notað um allar tegundir lægða, gjarnan þó hinar öflugu. Orðið er einnig sérstaklega notað um hitabeltisstorma og fellibylji á Indlandshafi (bæði sunnan og norðan miðbaugs) og sunnan miðbaugs í Kyrrahafi.

Depression:

Lægð, almennasta orðið yfir lágþrýstisvæði, ásamt orðinu low. Svæði nefnist lægð ef það er umlukið af að minnsta kosti einni lokaðri þrýstilínu.

Dust devil:

Sandstrókur. Oftast myndaður af kröftugu, staðbundnu hitauppstreymi en er mjög lítill um sig, gjarnan 1-10 m í þvermál. Oft kallaður hvirfilbylur meðal manna. Slíkir litlir hvirfilbyljir eru algengir hérlendis en valda mjög sjaldan teljandi tjóni. Dust devil sést einnig notað um öllu stærri stróka sem í útliti minna á eiginlega skýstrokka og alloft sjást hérlendis, sem mjóir og háir rykstrókar. Myndunarferli þeirra er nokkuð á reiki.

Easterly wave:

Austanbylgja. Nafn á sérstakri tegund lægðardrags sem berst til vesturs (að austan) í suðurjaðri staðvindabeltanna (norðurjaðri á suðurhveli). Flokkast einnig sem hitabeltisgarður, en að jafnaði fylgir heldur reglubundnara þrýstisvið austanbylgjunni en minni görðum.

Hurricane:

Fárviðri, enska nafnið á 12 vindstigum. Oft notað eitt og sér í stað Tropical Hurricane. Oft þarf að grípa til samhengis til að átta megi sig á því hvora merkinguna ber að leggja í orðið í það og það skiptið. Sé um hitabeltisóveður að ræða á orðið oftast við þau sem gerir á Atlantshafi eða austanverðu Kyrrahafi.

Low:

Lágþrýstisvæði sem umlukið er af að minnsta kosti einni lokaðri þrýstilínu. Hitabeltislægð er lágþrýstisvæði þess eðlis að hringrásin er sammiðja frá yfirborði og upp undir veðrahvörf. Auk þess er loft í ákveðinni hæð í hringrásinni hlýrra en loft í sömu hæð allt um kring neðan 10 til 12 kílómetra hæðar. Hitadreifingu er mjög öðruvísi farið í lægðum á norðurslóðum.

Tornado:

Skýstrokkur. Aftaka vindsveipur aðeins tugi eða hundruð metra í þvermál. Sárasjaldgæfir hérlendis en algengir í Bandaríkjunum og víðar. Stundum kallaður hvirfilbylur en heldur ætti að forðast það orð í þessu samhengi.

Tropical cyclone:

Almennt heiti yfir öflugar hitabeltislægðir. Getur verið verið hvort sem er hitabeltisstormur eða fellibylur.

Tropical depression:

Hitabeltislægð. Einkum notað um hitabeltislægðir sem ekki hafa náð styrk hitabeltisstorms eða fellibyls.

Tropical disturbance:

Almennt heiti á veðurkerfum í hitabeltinu sem eru álíka að umfangi og fellibyljir eða minni. Oftast er um að ræða kerfi sem ná ekki að mynda lokaðar þrýstilínur, gjarnan skúra- eða vindgarða af ýmsu tagi. Orðið sést þó einnig notað um hitabeltislægðir og fellibylji, en heldur ætti að varast slíka notkun. Við veljum því íslenska heitið hitabeltisgarður.

Tropical storm:

Amennt heiti á hitabeltisstormum, þarf ekki að vera fellibylur, þó langoftast sömu ættar en kraftminni.

Typhoon:

Fellibylur á vestanverðu Kyrrahafi norðan miðbaugs.

Wind shear eða shear:

Vindsniði. Breyting á vindhraða eða vindátt með hæð. Mikill vindsniði er mjög óhagstæður fellibyljum því hann aflagar sammiðja hringrás þeirra og tætir í sundur. Þegar tölur eru nefndar er oftast átt við sniða milli 850 hPa og 200 hPa flatanna. Sniði yfir 10 til 15 m/s er talinn óhagstæður fellibyljum.

Framhald

Meira má fræðast um fellibylji í næstu fróðleiksgrein.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica