Greinar
Ský
Ský yfir Mývatnssveit.

Skúraský

Trausti Jónsson 21.11.2007

Skúraský (klakkur - cumulonimbus) yfir Mývatnssveit að sumarlagi fyrir nokkrum árum.

Skúraský (éljaský) myndast í óstöðugu lofti, gjarnan að degi til á sumrin, þegar sól hitar yfirborð landsins. Loft er að jafnaði óstöðugt þegar kalt er í háloftunum.

Uppstreymið sem bjó til þetta myndarlega ský á myndinni hefur greinilega verið mikið því það hefur rekist upp undir veðrahvörfin og breiðst þar út til hliðanna í svokölluðum steðja (incus). Það er hann sem er mest áberandi á myndinni og er í þessu tilviki myndaður þegar uppstreymið lendir inni í hliðarvindi sem leitast við að skera ofan af því. Algengt er að vindhraða- og stefnubreytingar (vindsniði) séu miklar við veðrahvörfin. Steðjinn getur lifað lengur en upphaflegi klakkurinn, en breytist þá í netjuský - af klakkauppruna (altocumulus cumulogenitus).

Hér á landi (og reyndar víðast hvar) myndast skúraúrkoma ekki nema í ískristallaskýjum. Úrkomuböndin sem sjást hangandi neðan í skýinu á mynd 1 eru því snjór sem væntanlega hefur gufað upp eða bráðnað áður en hann komst alveg til jarðar. Úrkomubönd sem liggja undir skýjum og ná ekki ná til jarðar eru á alþjóðamáli veðurfræða kölluð virga.

Á myndinni sést nokkuð nákvæmlega í hvaða hæð vindsniðinn er mestur, því þar er eins og úrkomuböndin lendi í vinkilbeygju.

Önnur ský á myndinni: Þau til vinstri við aðalskýið (ber við bláan himin) eru trúlega leifar af eldri klökkum (netjuský), þau sem liggja neðar sýnast flest vera flákaský (stratocumulus). Uppruni slíkra skýja getur verið nokkuð mismunandi en annaðhvort forsögu eða fleiri myndir til þarf til að greina hann með einhverri vissu í þessu tilviki.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica
Á þessum vef eru vafrakökur notaðar við nafnlausar notkunarmælingar, en engin virkni tengist markaðssetningu. Sjá nánar