Greinar

Hæsti loftþrýstingur á Íslandi

Íslensk veðurmet 4

Trausti Jónsson 4.10.2007

Hæsti loftþrýstingur: Reykjavík 3. janúar 1841, 1058,0 hPa.

Metið 1841

Jón Þorsteinsson landlæknir fylgdist náið með loftvog í kringum metið og hæsta gildið skráði hann sérstaklega að kvöldi 3. janúar. Yfirleitt athugaði hann aðeins að morgni.

Í janúar 1841 stóð loftvogin hæst kl. 21 að kvöldi þess 3. Jón tekur fram í athugasemdum að þetta sé hærra en hann hafi áður séð. Rétt er að líta á endanlega tölu með nokkurri varúð. Ekki er vitað nákvæmlega hversu hátt yfir sjó loftvog Jóns var en talið er að 14 m eða svo sé ekki langt frá sanni. Hús Jóns stóð við Ránargötu í Reykjavík. Svo heppilega vill til að hiti var ekki fjarri frostmarki á loftvoginni þannig að hitaleiðrétting er varla stór.

Þyngdarleiðréttingum var ekki beitt á þessum tíma. Nokkur óvissa er um nákvæmni loftvoga hér á landi fyrir 1873 (en þá byrjaði danska verðurstofan að fylgjast með tækjunum). Áætlað er að óvissa á athugunartíma Jóns í Reykjavík (1820 til 1854) hafi verið allt að 2 hPa. Í flestum tilvikum hefur þó verið unnt að bera saman loftvogir á tveimur eða fleiri stöðvum og alltaf reynt að leiðrétta eins og best hefur þótt. Í þrýstiröðinni áðurnefndu eru öll gildi í Reykjavík hækkuð um 1,8 hPa til að betra samræmis gæti við þrýstiathuganir í Stykkishólmi. Sé þessari leiðréttingu bætt við hækkar sjálft metið upp fyrir 1060 hPa.

Stikaleiðréttingar af þessu tagi eru ætið umdeilanlegar og ákveðið var að sýna íhaldssemi og taka hana ekki með í ákvörðun metsins. Leiðréttingarnar eru allar fremur til hækkunar en hitt og því má vera ljóst að þetta met frá 1841 er það langt fyrir ofan næsta gildi að útilokað má telja annað en að einmitt þennan dag hafi loftþrýstingur orðið hæstur á Íslandi síðastliðin rúm 180 ár. Hvort hann var í raun 1056 eða 1060 hPa er ekki höfuðatriði þó auðvitað svæfu menn betur ef vissa væri fyrir hendi.

Að morgni þess 4. janúar var norðan kaldi í Reykjavík og léttskýjað. Þrýstingur hefur því væntanlega verið enn hærri norður og vestur undan, kannski 1060 hPa? Mikil hæð hafði dagana á undan verið suður og suðaustur undan með suðvestanátt og talsverðri rigningu í Reykjavík. Um leið og hæðin gaf sig í suðri kom lægðardrag úr norðvestri yfir Grænland. Það olli talsverðri snjókomu þann 2. janúar. Lægðardragið fór til suðausturs, vindur snerist í norðan storm og þrýstihámarkið fylgdi síðan á eftir með hægara veðri. Þrýstingur féll dagana á eftir og hæðin varð því ekkert sérlega langlíf.

Háþrýstingur á Íslandi

Þrýstingur hér á landi fer sárasjaldan yfir 1050 hPa, en það hefur samt gerst nokkrum sinnum frá því að mælingar hófust. Á 20. öldinni var það að minnsta kosti í fjórum tilvikum, þá oft á nokkrum stöðvum í einu. Þrýstingur fór í 1054,2 hPa í Stykkishólmi 16. desember 1917. Þetta var talið Íslandsmet allt þar til menn fóru fyrir nokkrum árum að gefa athugunum Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík meiri gaum, en athuganir Jóns á árunum 1838 til 1854 voru lengi týndar.

Íslandskort 1962.
Islandslkort1962
Mynd 1. Veðurkort af Íslandi 26. febrúar 1962, kl. 9 f.h. Hæðarmiðjan yfir nær miðju landinu. Eins og sjá má er giskað á að þrýstingur hafi þar farið upp fyrir 1052 hPa, hafi svo verið náðu mælingar því ekki. Mjög kalt var inn til landsins, 16 stiga frost í Möðrudal, en 4 stiga hiti var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.  © Veðurstofa Íslands.

Í hæðinni miklu í febrúarlok 1962 fór þrýstingur hæst í 1051,7 hPa á Akureyri þann 26. kl. 9 og jafnhátt kvöldið áður á Dalatanga kl. 21.

Hinn 17. janúar 1977 fór þrýstingur á Galtarvita í 1051,1 hPa. Þrýstingur fór einnig yfir 1050 hPa á nokkrum stöðvum 14. og 15. apríl 1991.

Á 19. öld könnumst við við fimm tilvik. Hugsanlegt er að þau hafi verið fleiri, en ekki hefur verið farið ítarlega yfir allar þrýstiathuganir aldarinnar. Þekkt tilvik eru (auk Íslandsmetsins sem fjallað var um að ofan):

  • 23. desember 1836 (Reykjavík, 1050,9 hPa)  
  • 11. desember 1846 (Reykjavík, 1051,7 hPa)
  • 6. mars 1883 (Stykkishólmur, 1050,7 hPa)
  • 26. febrúar 1890 (Stykkishólmur, 1050,0 hPa)

Þeir sem sjá betur en aðrir gætu tekið eftir því að þrýstingur sá sem sýndur er á Grímsstöðum á Fjöllum á mynd 1 hér að ofan er 1051,9 hPa, 0,2 hPa hærri en gildið á Akureyri. Ástæðan fyrir þessu misræmi er sú að Grímsstaðir eru í yfir 380 m hæð yfir sjó. Miklar hæðarleiðréttingar eru mjög óvissar í miklu frosti og logni og hafa kerfisbundna tilhneigingu til að verða of stórar þegar hagar til. „Réttur“ sjávarmálsþrýstingur á Grímsstöðum var því líklega lægri en á Akureyri.

Sjá einnig pistil um leiðréttingar loftvoga.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica