Íslensk eldfjöll
eldgos
Gos í Grímsvötnum 2011.

Grímsvötn

Í lok september 1996, fyrir 21 ári, hófst gos á eldstöðvarkerfi Grímsvatna. Í kjölfar þess kom stórt jökulhlaup niður Skeiðarársand sem olli miklu tjóni á hringveginum. Jökulhlaup verða reyndar ekki alltaf í kjölfar Grímsvatnagosa og stýrist það af vatnastöðu í Grímsvötnum.

Grímsvatnakerfið er virkasta eldstöðvarkerfi landsins og hefur gosið um 70 sinnum síðan land byggðist. Rannsóknir benda til þess að í 8000 ár hafi að meðaltali gosið 7 sinnum á hverjum 100 árum. Síðast gaus þar árið 2011 þegar um 0.8 km3 af gjósku mynduðust á einni viku en mest gjóskuframleiðsla var á fyrstu dögum gossins.

Langflest gos á Grímsvatnakerfinu eru sprengigos í megineldstöðinni og virkni hennar virðist lotubundin. Í virknitoppum verða 6-11 gos á ~40 árum en í virkni lægðum gýs um 0-4 sinnum á ~40 árum. Virknitoppar virðast standa yfir í 60-80 ár og lægðir í svipaðan tíma. Stór hraungos hafa einnig átt sér stað á kerfinu og yngsta slíka gosið er Skaftáreldar sem stóðu frá 1783-1784 og ollu Móðuharðindunum. Það gos stóð í 8 mánuði, alls gaus á um 27 km langri gossprungu og hraun rann yfir um 600 km2. Grímsvötn eru því til alls vís.

Frekari fróðleik um Grímsvötn er að finna í vefsjá íslenskra eldfjalla.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica