Íslensk eldfjöll
loftmynd
Öræfajökull í byrjun september 2017. Askjan á toppi eldfjallsins er vel greinanleg.

Eldstöðin Öræfajökull

2.11.2017

Í árslok 2016 fór að mælast aukin jarðskjálftavirkni í Öræfajökli. Til þess að fylgjast vel með þessu stærsta eldfjalli landsins var mælitækjum fjölgað í nágrenni þess. Þá hefur Veðurstofan, ásamt Jarðvísindastofnun Háskólans og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, unnið að gerð hættumats vegna jökulhlaupa í Öræfum.

En hvað hefur Öræfajökull gert í gegnum tíðina og hvers hann er megnugur sem eldstöð?

Öræfajökull, Esjufjöll og Snæfell mynda samhangandi gosbelti, sem enn er illa þekkt, austan við Austurgosbeltið. Það sama má segja um jarðfræði og gossögu Öræfajökuls enda eru bæði gosbeltið og megineldstöðin að mestu hulin jökli. Öræfajökull er dæmigerð eldkeila (stratovolcano) en slíkar eldstöðvar byggjast upp þegar gos koma endurtekið upp um sömu gosrás. Hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur, er hluti af öskjubarmi megineldstöðvarinnar en heildar flatarmál öskjunnar er um 12 km2.

Langur tími líður milli gosa úr Öræfajökli og einungis tvisvar hefur gosið síðan land byggðist. Fyrra gosið varð árið 1362 og er það stærsta þeytigos sem orðið hefur á sögulegum tíma á Íslandi. Í gosinu mynduðust ~10 km3 af nýfallinni gjósku (fyllir um 9 milljón 50 m sundlaugar) og líklega hafa 75% landsins orðið fyrir gjóskufalli. Mesta eyðileggingin varð í sveitinni við rætur eldstöðvarinnar sem þá kallaðist Litla-Hérað. Byggð þar lagðist alveg af eftir gosið enda „lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall“ (Oddverjaannáll). Þegar sveitin byggðist aftur fékk hún nafnið Öræfi. Seinna sögulega gosið varð árið 1727 og því eru nú 290 ár síðan síðast gaus í Öræfajökli.

Frekari fróðleik um eldstöðvarkerfið Öræfajökul má finna á vefsjá íslenskra eldfjalla.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica