Veðurstofa Íslands 90 ára
Íslandskort 17. júní 2009
Íslandskort 17. júní 2009.

Miðlun rita

Veðurstofa Íslands 90 ára

Guðrún Pálsdóttir 10.6.2010

Veðurstofa Íslands hefur frá upphafi miðlað til almennings upplýsingum um veðurfar, jarðskjálfta og önnur fagsvið stofunarinnar. Nú er þessi miðlun að langmestu leyti rafræn, einnig útgáfa rita sem áður birtust eingöngu í prentuðu máli.

Áður var prentuð útgáfa töluverð enda eitt aðalhlutverk Veðurstofunnar að miðla upplýsingum. Undanfarin ár hafa margar eldri ritraðir verið skannaðar og þar með gerðar almenningi aðgengilegar. Mörg ritanna eru einnig skráð í Gegni og settur tengill þar á rafrænu útgáfuna.

Veðurkort og rit um veðráttu

Veðurkort hafa verið unnin allt frá stofnári Veðurstofunnar, 1920, fyrst Íslandskort, en síðar bættust við grunnkort, 700, 500 og 300 mb háloftakort.

Forsíða frá 1947
Forsíða leiðbeininga
Forsíða leiðbeiningarits um veðurskeyti frá árinu 1947.

Íslandskortin voru teiknuð nokkrum sinnum á sólarhring, lengst af átta sinnum. Mjög einfölduð rafræn kort frá kl. 12 á hádegi, allt aftur til ársins 1949, eru á vef Veðurstofunnar undir fyrirsögninni Merkisdagar og afmæli (sjá mynd hér að ofan).

Elsta útgáfa Veðurstofunnar var Íslensk veðurfarsbók (1920-1923) sem nú er aðgengileg með fullum texta á timarit.is. Forveri veðurfarsbókarinnar, Meteorologisk Aarbog (1873-1919), gefin út af dönsku veðurstofunni, er einnig aðgengileg á timarit.is, sem og Veðráttan (1924-1997).

Töluvert var gefið út af leiðbeiningarritum fyrir þá sem gerðu veðurathuganir bæði á sjó og landi. Mörg þessara rita hafa nú verið skönnuð og sett á vefinn.

Reglur um veðurskeyti, samþykktar á allsherjarþingi veðurfræðinga í Kaupmannahöfn árið 1929, eru elsta leiðbeiningarritið.

Ofanflóð

Gefnar hafa verið út skýrslur og aðrar upplýsingar um ofanflóðahættumat fyrir helstu þéttbýlisstaði landsins sem búa við ofanflóðahættu. Hættumatskort eru gefin út samfara skýrslunum, einnig kynningarrit um snjóflóð og snjóflóðahættu. Þetta efni er aðgengilegt á vef Veðurstofunnar

Ritraðir

Í ritröðinni Hafís við strendur Íslands er yfirlit um hafís við landið á árunum 1968 til 1996 og í ritröðinni Seismological Bulletin 1926-1973 eru tölur um jarðskjálfta á og við landið. Þessi rit verða vonandi skönnuð og gerð almenningi aðgengileg í framtíðinni.

Árið 1995 var farið að gefa út ritraðirnar Rit Veðurstofu Íslands og Greinargerðir. Efni þeirra spannar öll fagsvið eldri Veðurstofu; veður, jarðskjálfta og eldgos, hafís, ofanflóð og loftslagsmál. Greinargerðirnar eru nú flestar aðgengilegar á vef Veðurstofunnar og einnig er tengill á þær í Gegni - samskrá íslenskra bókasafna

Hinn 1. janúar 2009 voru Veðurstofa Íslands og Vatnamælingar sameinaðar og Skýrslur og Greinargerðir hinnar nýju stofnunar frá árinu 2009 og 2010 er að sjálfsögðu að finna á vef Veðurstofunnar.

Rit Vatnamælinga, meðan þær voru hluti af Orkustofnun, hafa einnig verið gefin út rafrænt og eldri rit skönnuð. Má finna þau í Gegni og á vef Orkustofnunar. Þar er einkum um að ræða rannsóknir á vatnasviðum áa, mælingar á vatnsmagni, aurburði og rennsli áa, einnig skýrslur um flóð og áhrif úrkomu og leysinga á vatnafar.

Annað efni

Auk þess sem talið er upp hér að framan birta starfsmenn árlega fjölda greina í ritrýndum tímaritum, kafla í bókum, blaðagreinar og fræðilegt efni, bæði á vef og prenti. Þá flytja þeir erindi og sýna veggspjöld á ráðstefnum og fundum. Ritaskrár starfsmanna eru á vefsetri Veðurstofu og skrár yfir rit starfsmanna Vatnamælinga fyrir árið 2009 í ársskýrslum Orkustofnunar sem eru á PDF-formi. Að lokum má nefna að tímaritið Veðrið sem gefið var út af Félagi íslenskra veðurfræðinga var skannað í ársbyrjun 2010 og er nú meðal annarra rita á timarit.is.

Sjá einnig pistilinn Miðlun II.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica