Ofanflóð
Sá þáttur Veðurstofu Íslands sem snýr að ofanflóðum fjallar um rannsóknir, vöktun og hættumat vegna ofanflóða á Íslandi. Ofanflóð er samheiti fyrir snjóflóð, skriður og krapaflóð. Hjá stofnuninni starfa sérfræðingar með fagþekkingu og tækjabúnað til að beita fremstu tækni í vöktun og rannsóknum á ofanflóðum.
Veðurstofan sinnir daglegu eftirliti með snjóalögum í námunda við þéttbýlisstaði þar sem snjóflóðahætta er yfirvofandi. Veðurstofan gefur einnig út viðvaranir um snjóflóðahættu og tekur þátt í ákvörðunum um rýmingu húsa í samvinnu við heimamenn. Gerðar hafa verið rýmingaráætlanir og rýmingarkort fyrir helstu þéttbýlisstaði landsins sem búa við ofanflóðahættu. Rýmingaráætlanirnar eru unnar í samvinnu við almannavarnanefndir staðanna og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Ofanflóðahættumat hefur verið unnið fyrir þéttbýli í snjóflóðabyggðum á grundvelli reglugerðar 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða með síðari breytingum í reglugerð nr. 495/2007. Mat á ofanflóðahættu í einstökum húsum eða byggingarreitum utan þéttbýlis þar sem staðfest hættumat liggur ekki fyrir er gert með staðbundnu hættumati . Vegna hættumatsins þurfa að fara fram ýmsar grundvallarrannsóknir á eðli snjóflóða hérlendis. Samvinna er mikil við erlenda sérfræðinga og stofnanir. Á vefsíðum hættumats er að finna skýrslur og aðrar upplýsingar um hættumat fyrir helstu þéttbýlisstaði landsins sem búa við snjóflóðahættu. Fyrir hvern stað kemur fram hversu langt vinna við hættumatið er komin og á sérstökum vefsíðum staðanna má nálgast gögn með nánari upplýsingum.



