Laus störf

Sérfræðingur í hættumati með áherslu á snjóflóð og skriður

Viltu taka þátt í að auka öryggi og áfallaþol samfélaga og byggða?

Veðurstofa Íslands leitar að metnaðarfullum og áhugasömum sérfræðingi til að slást í hóp okkar á ofanflóðadeildinni. Ef þú hefur áhuga á hættumati og að taka þátt í spennandi rannsóknum og þróunarverkefnum, þá er þetta tækifærið fyrir þig.

Deildin sinnir mikilvægum verkefnum tengdum snjóflóðum og skriðuföllum og ber ábyrgð á faglegri þróun og stefnumótun á sviði ofanflóða. Unnið er að hættumati, líkanreikningum, vörnum gegn snjóflóðum og skriðuföllum, alþjóðasamstarfi sem og ráðgjöf og miðlun upplýsinga. Hluti starfsmanna deildarinnar sinnir einnig vöktun á ofanflóðahættu.

Þetta er krefjandi og fjölbreytt starf þar sem þú getur haft raunveruleg áhrif.

Boðið er upp á ákveðinn sveigjanleika í staðsetningu en starfið getur verið á einni af eftirfarandi starfsstöðvum Veðurstofunnar: Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað eða Reykjavík.

Helstu verkefni og ábyrgð

Sérfræðivinna við gerð hættumats vegna ofanflóða. Miðlun upplýsinga og samtal við sveitarfélög, skipulagsyfirvöld og aðra hagsmunaaðila. Vinna við eðlisfræðilíkön, þróun hættumatsaðferða og þátttaka í rannsóknarverkefnum. Verkefnisstjórn tilgreindra verkefna eftir atvikum.

Hæfniskröfur

  • Háskólapróf á sviði raunvísinda, verkfræði eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi. Framhaldsmenntun æskileg

  • Góð kunnátta í landupplýsingakerfum (LUK) er nauðsynleg

  • Kunnátta í forritun og reynsla af líkanreikningum er æskileg

  • Þekking á hættumati tengdu náttúruvá er kostur

  • Þekking og reynsla á notkun líkinda- og tölfræði í starfi er kostur

  • Þekking á íslenskri náttúru og áhugi á viðfangsefninu

  • Hæfni í mannlegum samskiptum

  • Geta til að vinna sjálfstætt og móta flókin verkefni

  • Góð tungumálakunnátta og færni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti á íslensku og ensku.

  • Farsæl reynsla í verkefnastjórnun er kostur

Gildi Veðurstofunnar eru þekking, áreiðanleiki, framsækni og samvinna. Ráðningar hjá stofnuninni taka mið af þessum gildum.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.

Við hvetjum fólk af öllum kynjum til að sækja um.

Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd.

Á þjónustu- og rannsóknasviði fer fram þekkingaröflun, rannsóknir, veðurþjónusta, náttúruvárvöktun og miðlun upplýsinga. Tilgangur sviðsins er að mæta þjónustuþörf samfélagsins í samræmi við hlutverk Veðurstofunnar og vinna fjórar deildir að verkefnum sviðsins með eftirfarandi faglegar áherslur:

  • Veðurspár og náttúruvárvöktun.

  • Loftslag, veður, vatn, jöklar og haf.

  • Eldvirkni, jarðskjálftar og jarðhnik.

  • Snjóflóð og skriður.

Sviðið ber ábyrgð á að móta og fylgja eftir þjónustustefnu Veðurstofunnar sem stuðlar að upplýstri og vandaðri ákvarðanatöku á sviði náttúruvár, náttúruverndar og nýtingar auðlinda.. Sviðið er eitt tveggja kjarnasviða stofnunarinnar.

Veðurstofa Íslands er opinber stofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Höfuðstöðvar Veðurstofunnar eru í Reykjavík, en starfsstöðvar eru einnig í Keflavík, á Ísafirði, Akureyri og í Neskaupstað. Hjá stofnuninni starfa um 170 manns, með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræðasvið. Auk þess starfa um 50 manns við athugana- og eftirlitsstörf víðsvegar um landið. Hlutverk stofnunarinnar er öflun, varðveisla og úrvinnsla gagna, sem og miðlun upplýsinga á helstu eðlisþáttum jarðarinnar, þ.e. lofti, vatni, jörð, snjó, jöklum og hafi.

Nánari upplýsingar er að finna á www.vedur.is

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 16.04.2025

Sækja um hér

Nánari upplýsingar veitir

Harpa Grímsdóttir, harpa@vedur.is

Borgar Ævar Axelsson, borgar@vedur.is


Nýjar fréttir

Tíðarfar í júní

Kalt var um allt land í mánuðinum og loftþrýstingur lágur. Víða var meðalhiti júnímánaðar lægri en í maí, sem var óvenjulega hlýr. Það var mjög úrkomusamt á Norður- og Norðausturlandi og sólskinsstundir voru fáar miðað við árstíma á Akureyri. Aftur á móti var tiltölulega þurrt á vestanverðu landinu. Norðanhret gekk yfir landið 3. og 4. dag mánaðarins og ollu þá vindur og sér í lagi úrkoma töluverðum vandræðum.

Lesa meira

Áframhaldandi landris í Svartsengi

Uppfært 1. júlí 2025 

Landris og jarðskjálftavirkni í Svartsengi halda áfram og hafa verið stöðug síðustu vikur. Um 10 smáskjálftar mælast að jafnaði á dag, flestir norðan við Grindavík og suður af Stóra Skógfelli. Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram.

Ekki hafa orðið breytingar sem gefa tilefni til að endurskoða hættumat. Ef kvikusöfnun heldur áfram gætu líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi aukist með haustinu.


Lesa meira

Háskóli Íslands flytur ofurtölvu í húsnæði Veðurstofunnar

Háskóli Íslands hefur tekið í notkun nýjan tölvusal með ofurtölvum og gagnageymslum í húsnæði Veðurstofu Íslands. Þetta er hluti af IREI (Icelandic Research e-Infrastructure) sem styður rannsóknir háskóla og rannsóknastofnana um allt land.

Samrekstur tölvusalsins styrkir samstarf Háskóla Íslands og Veðurstofunnar og eflir innviði fyrir rannsóknir, loftslagsmál, náttúruvá og alþjóðlegt vísindasamstarf. Áhersla er lögð á að þessir innviðir séu forsenda nákvæmra spáa, viðvarana og rannsókna, sérstaklega vegna loftslagsbreytinga, eldgosa, jarðskjálfta og flóða.

Lesa meira

Vetrarafkoma Hofsjökuls mældist óvenju rýr

Fjórir starfsmenn Veðurstofu Íslands mældu vetrarafkomu Hofsjökuls í árlegum vorleiðangri dagana 4.–8. maí síðastliðinn. Mældir voru 20 punktar á ísasviðum Sátujökuls, Þjórsárjökuls, Blágnípujökuls og Blautukvíslarjökuls (sjá myndir 1 og 2), sem samtals ná yfir rúman helming af flatarmáli Hofsjökuls. Á hverjum punkti var borað í gegnum snjólag vetrarins, eðlisþyngd og hitastig snævarins mæld og lagskipting skráð. Einnig var snjósjá notuð til að mæla samfelld snjóþykktarsnið milli mælipunktanna. Lesa meira

Norræna vatnafræðiráðstefnan haldin í Reykjavík

„Við getum ekki lengur hugsað um vatn sem sjálfsagðan hlut… Með þessum orðum setti Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands, Norrænu vatnafræðiráðstefnuna 2025 sem hófst í dag í Reykjavík. 

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica