Laus störf

Sérfræðingur í greiningum og uppgjörum á fjármálasviði

Veðurstofa Íslands auglýsir laust til umsóknar starf sérfræðings á fjármálasviði

Veðurstofa Íslands leitar að kraftmiklum sérfræðingi á fjármálasvið með reynslu af skýrslugerð í PowerBI, gagnagreiningu og með þekkingu á bókhaldi og fjármálum. Sérfræðingur í greiningum og uppgjörum ber m.a. ábyrgð á mælaborðum Veðurstofu Íslands er tengjast rekstri og fjármálum, uppgjörum á verkefnum Veðurstofunnar, hefur umsjón með heildarrekstrar- og verkefnaáætlun og útbýr ársfjórðungsstöðumat verkefna ásamt ýmsum kostnaðargreiningum og öðrum verkefnum.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Hönnun, þróun og ábyrgð á mælaborðum og skýrslum í PowerBI

  • Fjárhagslegt uppgjör og daglegt utanumhald fjármála í rannsóknaverkefnum

  • Kostnaðargreiningar og eftirlit með gögnum

  • Þátttaka í bókhalds- og uppgjörsvinnu

  • Ýmis önnur störf innan fjármála- og rekstrarsviðs

Hæfniskröfur

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, viðbótarmenntun er kostur

  • Reynsla af skýrslugerð og mælaborðasmíði í PowerBi

  • Góð hæfni í greiningu og framsetningu gagna, s.s. áætlanagerð og kostnaðargreiningum

  • Þekking og reynsla af uppgjörum, verk-, og bókhaldi er kostur

  • Gott vald á upplýsingakerfum og hæfni til að tileinka sér nýjungar á því sviði.

  • Hæfni í mannlegum samskiptum og teymisvinnu

  • Nákvæmni í vinnubrögðum, tölugleggni, útsjónarsemi og sjálfstæð vinnubrögð

Gildi Veðurstofunnar eru þekking, áreiðanleiki, framsækni og samvinna. Ráðningar hjá stofnuninni munu taka mið af þessum gildum

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um starfið.

Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 03.02.2025

Sækja um starf 



Nánari upplýsingar veitir

Kristín Björg Árnadóttir, kristinar@vedur.is

Sími: 5226000

Borgar Ævar Axelsson, borgar@vedur.is

Sími: 5226000


Nýjar fréttir

Tíðarfar ársins 2024

Árið 2024 var óvenjukalt ef miðað er við hitafar þessarar aldar. Á landsvísu var hitinn 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, og sá lægsti síðan 1998. Að tiltölu var kaldast inn til landsins á Norðurlandi, en hlýrra við suðurströndina. Sumarið var blautt á landinu öllu, en aðrir mánuðir ársins voru tiltölulega þurrir. Árið í heild var þurrara en í meðallagi á austan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu, en blautara en í meðallagi á Norður- og Vesturlandi, þar sem vætutíð sumarsins var einna mest. Loftþrýstingur var óvenjulega lágur frá júní og út ágúst og einkenndist sumarið af lægðagangi og óhagstæðri tíð. Á öðrum árstímum var tiltölulega hægviðrasamt og loftþrýstingur og vindhraði voru í kringum meðallag þegar litið er á árið í heild.

Lesa meira

Grímsvatnahlaupi lokið

Uppfært 20. janúar kl. 14:50

Órói sem mældist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli og vatnshæð í Gígjukvísl hafa aftur náð svipuðum gildum og voru fyrir hlaup. Þar með er Grímsvatnahlaupinu, sem hófst fyrir um það bil 10 dögum, lokið. Skjálftavirkni í Grímsvötnum jókst ekki á meðan hlaupinu stóð en nokkrir skjálftar undir M2 mældust í síðustu viku. Þrýstiléttir vegna jökulhlaupsins hafði ekki í för með sér aukna virkni  í Grímsvötnum  meðan á hlaupinu stóð. Þess vegna  hefur fluglitakóði fyrir Grímsvötn verið lækkaður aftur í grænan, eftir að hafa tímabundið verið hækkaður í gulan þegar hlaupið náði hámarki. Þótt jökulhlaupinu sé lokið heldur Veðurstofa Íslands áfram að fylgjast náið með virkni á svæðinu.

Lesa meira

Áfram mælast skjálftar á miklu dýpi við Grjótárvatn

Uppfært 17. janúar kl: 11:20

Jarðskjálftavirkni heldur áfram að aukast við Grjótárvatn. Það sem af er janúar mánuði hafa tæplega 100 skjálftar yfir M1,0 að stærð mælst. Það er sambærilegt við fjölda skjálfta allan desember 2024 sem var mesti fjöldi skjálfta sem hefur mælst í einum mánuði á svæðinu. Í gærmorgun, 16. janúar, mældist skjálfti af stærð M3,2. Engar tilkynningar hafa borist til Veðurstofunnar um að skjálftinn hafi fundist í byggð en þó gætu íbúar á nærliggjandi svæðum hafa orðið hans varir. Þetta var stærsti skjálfti sem hefur mælst á svæðinu síðan virkni fór að aukast þarna í ágúst 2024, en þann 18. desember 2024 mældist skjálfti af stærð M3,1.

Lesa meira

Lítil jarðskjálftavirkni hefur mælst í Bárðarbungu síðan í gærmorgun

Uppfært 14. janúar kl. 16:30

Eftir kl. 9 í morgun dró verulega úr ákafa jarðskjálftahrinunnar í Bárðarbungu og hafa fáir jarðskjálftar mælst síðan þá.  Töluverður ákafi var í skjálftahrinunni. Þrátt fyrir minni virkni mælast enn skjálftar, og náið verður fylgst með áframhaldandi þróun.

Jarðskjálftahrinan hófst rétt upp úr klukkan 6 í morgun og náði hámarki klukkan 8:05 þegar stærsti skjálftinn, að stærð M5,1 mældist. Að auki hafa 17 skjálftar yfir M3 að stærð verið skráðir, þar af tveir um eða yfir M4 að stærð.

Lesa meira

Áframhaldandi landris og svipuð þróun á Sundhnúksgígaröðinni

Uppfært 14. janúar kl. 15:00

Aflögunargögn sýna að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Ef kvikusöfnun heldur áfram á svipuðum hraða munu 12 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi í lok janúar eða byrjun febrúar. Þá er talið, skv. líkanreikningum, að líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi fari að aukast. Líkönin byggja á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma en litlar breytingar á því innflæði geta haft áhrif á matið á mögulegum tímasetningum næsta eldgoss.

Eins og síðustu vikur hefur verið lítil jarðskjálftavirkni í kringum Svartsengi. 

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica