Laus störf

Aðstoðarsnjóathugunarmaður í Neskaupstað

Veðurstofa Íslands óskar eftir að ráða aðstoðarsnjóathugunarmann til starfa í Neskaupstað. Starfið tilheyrir deild snjóflóða og skriðufalla sem er á Þjónustu- og rannsóknasviði.

Um er að ræða starf í tímavinnu, sem alla jafna er unnið á tímabilinu 15. október til 15. maí ár hvert.

Helstu verkefni og ábyrgð

Aðstoðarsnjóathugunarmaður vinnur með snjóathugunarmanni svæðisins. Þeir fylgjast með snjóalögum og veðri í nágrenni við sitt byggðalag og aðstoða við að meta yfirvofandi hættu á snjóflóðum. Einnig sinna snjóathugunarmenn reglulegum mælingum á snjó, mæla snjóflóð sem falla og skrá þau í gagnagrunn.

Hæfniskröfur

Umsækjandi verður að þekkja vel til veður- og snjóaðstæðna á svæðinu. Hann verður að geta gert snjóathuganir til fjalla, jafnvel við erfiðar aðstæður og starfað undir miklu álagi þegar hættuástand skapast. Viðkomandi þarf að vera áreiðanlegur, nákvæmur og hafa góða samskiptahæfileika.

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.

Gildi Veðurstofu Íslands eru þekking, áreiðanleiki, framsækni og samvinna. Ráðningar hjá stofnuninni munu taka mið af þessum gildum.

Nýr starfsmaður mun fá þjálfun í öryggisatriðum sem tengjast starfinu og mat á snjóflóðahættu.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Hvetjum fólk af öllum kynjum að sækja um starfið.

Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd.

Starfshlutfall er 10-20%

Umsóknarfrestur er til og með 12.09.2025

Nánari upplýsingar veitir

Harpa Grímsdóttir, harpa@vedur.is

Sími: 5226000

Hugrún Björk Hafliðadóttir, hugrun@vedur.is

Sími: 5226000



Nýjar fréttir

Tíðarfar í ágúst 2025

Ágúst var hlýr, þá sérstaklega síðari hluti mánaðarins. Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,8 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 16. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Talsvert hvassviðri var á sunnan- og vestanverðu landinu um verslunarmannahelgina.

Lesa meira

Minnkandi skriðuhætta og skúrir

Úrkoma hefur minnkað á Austfjörðum eftir tvo úrkomusama daga og engar fregnir hafa borist af skriðuföllum. Sjatnað hefur í lækjum og ám og spáð er skúrum næstu daga en ekki samfelldri úrkomu. Með minnkandi vatni í jarðvegi dregur úr skriðuhættu, þótt líkur á skriðuföllum fylgi áfram úrkomu víða um land.

Lesa meira

Tíðarfar það sem af er ári: Hlýindi, met og sögulegar hitatölur

Árið 2025 hefur hingað til einkennst af sögulegum hlýindum og nýjum hitametum. Maí var sá hlýjasti frá upphafi mælinga með tíu daga hitabylgju og nýtt landsmet, 26,6°C á Egilsstaðaflugvelli. Vorið var jafnframt það hlýjasta sem skráð hefur verið og júlí jafnaði metið frá 1933 sem hlýjasti júlí á landsvísu. Í ágúst mældist 29,8°C á Egilsstaðaflugvelli sem er hæsti hiti á landinu í nærri 80 ár og fyrstu sjö mánuðir ársins í Stykkishólmi voru þeir hlýjustu í 180 ára sögu mælinga þar í bæ. Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna, fer yfir helstu tíðindi á árinu hingað til. Lesa meira

Jökulhlaupinu úr Hafrafellslóni að ljúka

Jökulhlaupinu úr Hafrafellslóni, sem hófst 20. ágúst er að ljúka. Vatnshæð og rennsli í Hvítá eru orðin svipuð og fyrir hlaupið. Aðfararnótt sunnudags mældust tveir toppar á vatnshæð í Hvítá ofan Húsafells, með nokkurra klukkustunda millibili. Þeir marka hámark hlaupsins. Rennsli í Hvítá við mælistaðinn Kljáfoss, um 30 km neðan við Húsafell, náði hámarki snemma á sunnudagsmorgun. Það mældist 260 m³/s, sem er svipað og í hlaupinu í ágúst 2020 og er um þrefalt meira en grunnrennsli á þessum árstíma. Frá því í gærmorgun hefur jafnt og þétt dregið úr rennsli í ánni.  

Lesa meira

Skjálfti í Brennisteinsfjöllum – hraðara sig í Krýsuvík og áframhaldandi kvikusöfnun í Svartsengi

Snarpur skjálfti M3,8 varð við Brennisteinsfjöll í gær og fannst á höfuðborgarsvæðinu. Innistæða er fyrir stærri skjálfum á svæðinu, en óvíst hvenær þeir verða næst. Í Krýsuvík mælist hröð aflögun jarðskorpunnar og við Svartsengi heldur landris áfram með svipuðum hraða og fyrir síðasta gos. Hættumatskort hefur verið uppfært og gildir til 2. september.

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica