Seyðisfjörður

Rýmingaráætlun fyrir Seyðisfjörð

Snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands og almannavarnanefnd Seyðisfjarðar

Rýmingarkort

Rýmingarkort af Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu (pdf 1,8 Mb)

Rýmingarkort af Seyðisfirðvegna skriðuhættu (pdf 2,6 Mb)

Greinargerð um snjóflóðaaðstæður

Greinargerð VÍ-07025

Inngangur

Samkvæmt lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum frá maí 1997 með breytingu í lögum nr. 71/2000 frá maí 2000 ber Veðurstofu Íslands að gefa út viðvaranir um staðbundna snjóflóðahættu. Skal þá rýma húsnæði á reitum, sem tilgreindir eru í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi rýmingaráætlun. Veðurstofan hefur, í samráði við heimamenn, unnið sérstaka uppdrætti af þéttbýlisstöðum landsins þar sem talin er snjóflóðahætta og sýna uppdrættirnir reitaskiptingu rýmingaráætlana viðkomandi staða. Greinargerðin sem hér fer á eftir lýsir reitaskiptingu Seyðisfjarðar og aðstæðum sem leitt geta til rýmingar á reitum sem þar hafa verið skilgreindir.

Fjöllunum fyrir ofan byggð á Seyðisfirði hefur verið skipt í fjögur snjósöfnunarsvæði og eru þau grundvöllur „lóðréttrar“ svæðaskiptingar bæjarins vegna rýmingar af völdum snjóflóðahættu. Mörk svæðanna eru valin þannig að snjósöfnunaraðstæður séu svipaðar í efri hluta hlíðarinnar á hverju svæði.

Hér á eftir er fyrst lýst landfræðilegum aðstæðum, en síðan er hverju svæði lýst fyrir sig. Getið er um þekkt snjóflóð og farvegum þeirra lýst stuttlega. Gefin er umsögn um byggð, snjóflóðahættu og veðurlag sem veldur snjósöfnun á upptakasvæðum. Rýmingarsvæði í byggðinni neðan hvers snjósöfnunarsvæðis eru afmörkuð og sýnd á korti í mælikvarða 1:5000 eða 1:7500 (pdf 1,8 Mb). Rýmingaráætlunum og rýmingarsvæðum er nánar lýst í greinargerð VÍ-07014.

Greinargerð þessi byggist á niðurstöðu samráðsfundar heimamanna og starfsmanna Veðurstofunnar á Seyðisfirði þann 30. janúar 1996 og hættumati sem staðfest var af umhverfisráðherra í júlí 2002. Endurskoðun og samræming við hættumat var unnin á Veðurstofu Íslands á árunum 2004 til 2007. Við endurskoðunina var miðað við að mörk rýmingarsvæða á stigi II fylgi í stórum dráttum C-svæði hættumats og að rýmingarsvæði á stigi III samsvari A-svæði hættumats.

Aftur upp

Landfræðilegar aðstæður, byggð og örnefni

Kaupstaðurinn Seyðisfjörður liggur í botni samnefnds fjarðar. Meginhluti Seyðisfjarðar liggur í ANA-VSV en botn hans snýr meira í NNA-SSV. Norðvestan við kaupstaðinn rís fjallið Bjólfur upp í um og yfir 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Að austanverðu nefnist fjallið Öxl og skilur hún að Vestdal og Seyðisfjörð. Þar fyrir vestan er fjallið bratt og nefnist það Flatafjall. Nokkru vestar myndar fjallið lægri stall, sem nefnist Haugar. Hann breikkar til mikilla muna til vesturs og nefnist þar Haugsmýrar. Hamrabeltið neðan stallsins nefnist Bæjarbrún. Að suðaustanverðu rísa fjöllin Strandartindur, Miðtindur og Innri-Strandartindur upp í um 1000 m hæð. Hlíðar Strandartinds eru brattar og skornar djúpum giljum, en norðan undir Miðtindi myndar fjallið tvo stalla, Efri- og Neðri-Botna.

Varnargarðar hafa verið reistir á Brún í Bjólfi til þess að draga úr snjóflóðahættu í byggðinni norðan ár. Garðarnir eru miðaðir við að stöðva lítil og meðalstór snjóflóð sem eiga upptök í efsta hluta Bjólfsins þar sem mannskaðaflóðið 1885 er talið hafa átt upptök. Stærri flóð geta fallið yfir þvergarðinn og snjóflóð geta eftir sem áður átt upptök í Kálfabotni neðan Brúnar. Ekki hefur verið tekin ákvörðum um uppbyggingu frekari varnarvirkja eða aðrar varnaraðgerðir fyrir svæðið norðan ár. Tekið er tillit til garðanna sem búið er að byggja í rýmingaráætluninni sem hér er lýst. Hættumat hefur ekki verið endurskoðað formlega á svæðinu neðan varnargarðanna. Varnargarðarnir eru ekki sýndir á rýmingarkortinu frá nóvember 2007. Unnið er að endurskoðun kortsins þannig að það sýni garðana.

Aftur upp

Snjósöfnunaraðstæður og rýmingarsvæði

Óvíða hafa snjóflóð og önnur ofanflóð valdið eins miklum skaða hér á landi og á Seyðisfirði. Eftir hin mannskæðu flóð 1885 hafa hins vegar ekki orðið slys á fólki í snjóflóðunum þó oft hafi litlu mátt muna.

Ofanflóðahætta á Seyðisfirði felst ekki síst í hættu á vatns, aur- og krapaflóðum. Ekki er nema að vissu marki hægt að skipuleggja fyrirfram með reitaskiptingu umfang rýmingar þegar hætta er talin á slíkum flóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Miðað er við að lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveði umfang slíkrar rýmingar hverju sinni út frá mati á aðstæðum (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði). Reitaskipting rýmingaráætlunarinnar, sem lýst er hér að neðan, miðast þannig fyrst og fremst við snjóflóðahættu. Hafa þarf í huga hættu á öðrum ofanflóðum þegar veðurspá bendir til úrhellisrigningar eða asahláku og grípa til staðbundinnar rýmingar, t.d. nærri giljum og lækjarfarvegum, og annarra viðeigandi ráðstafana eftir því sem nauðsyn krefur. Eftir reynslu sem fékkst 24.-25. janúar 2005 á Patreksfirði, þegar talið er að framræsing á vatni úr vatnssósa snjóalögum hafi komið í veg fyrir krapaflóð úr Geirseyrargili, er rétt að lögreglustjóri og almannavarnanefnd séu vakandi fyrir þörf á slíkum aðgerðum þegar krapaflóðahætta er í uppsiglingu á Seyðisfirði.

Öxl

Eystri eða nyrðri mörk þessa svæðis liggja út við hálsinn milli Seyðisfjarðar og Vestdals. Vestari eða syðri mörkin er dregin við Króarhrygg.

Skráðar eru heimildir um fjölmörg snjóflóð á þessu svæði og hafa mörg þeirra fallið í sjó fram.

Eystri hluti þessa svæðis, vestur að Fornastekk, er skorinn djúpum giljum sem talsverðar líkur eru á að snjór safnist í. Aftur á móti er vestari hluti þessa svæðis minna skorinn giljum og eru líkur á því að snjór safnist í gil þar minni.

Engin íbúðarbyggð er á svæðinu en nokkur atvinnustarfsemi.

Mikil hætta er á snjóflóðum.

Yfir öxlina ofan Nautabáss skefur gjarnan í NV-átt og einnig í N-átt. Sé hvöss N-átt með ofankomu getur mikill snjór safnast í öxlina á nokkuð skömmum tíma því handan hennar er allmikið aðsópssvæði, Vestdalur.

Gert er ráð fyrir rýmingu á stigi I niður í sjó á reit nr. 18 á þessu svæði.

Kálfabotn

Svæðið afmarkast að austanverðu af Króarhrygg en að vestanverðu af Kvíahnaus. Innan þessa svæðis falla Neðstuklettar, Presthamrar og Hlaupgjá.

Skráðar eru heimildir um allmörg snjóflóð á þessu svæði og hafa sum þeirra fallið langt niður í núverandi byggð. Í mannskaðaflóðinu 18. febrúar 1885 fórust 24. Eftir að farið var að fylgjast betur með snjóflóðum úr efri hluta Bjólfsins á síðari árum hafa mörg flóð niður á Brún verið skráð, þ.á.m. þurrt snjóflóð í apríl 2006 sem féll yfir nýja varnargarðinn á nokkrum kafla og kastaði köggladreif niður yfir Kálfabotn.

Á svæðinu frá Króarhrygg vestur að Fálkagili er Bjólfurinn nokkuð gilskorinn milli 75 og 450 m hæðar. Minni snjóflóð, sem eiga upptök neðan Brúnar, m.a. í Kálfabotni, geta skorðast í þessum giljum. Stærri flóð sem eiga upptök sín ofar í Bjólfinum munu hins vegar tæplega fylgja giljunum. Varnargarðar á Brún draga úr snjóflóðahættu á svæðinu.

Íbúðarbyggð er samfelld á eyrinni niðri við höfnina. Hluti byggðarinnar teygir sig upp í neðri hluta hlíðarinnar við bæinn Fjörð.

Hætta er á stórum flóðum ofan úr Bjólfinum.

Þar sem Kálfabotn er allmikil hvilft verður þar snjósöfnun við nokkuð fjölbreyttar aðstæður. Í hann getur skafið í NA-átt inn eftir og meðfram Bjólfstindi. Einnig getur snjór borist í Kálfabotn ofan af Haugunum með V-lægum vindum (ekki nauðsynlega mjög hvössum), sé þar lausamjöll fyrir.

Á þessu svæði er gert ráð fyrir rýmingu á stigi I á reit nr. 17, á stigi II á reit nr. 16 og á stigi III á reit nr. 15.

Hætta stafar af aur- og krapaflóðum á svæðinu. Grípa þarf til staðbundinna rýminga þar þegar hætta er talin á aur- eða krapaflóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveða umfang slíkrar rýmingar hverju sinni (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði).

Haugar

Svæðið afmarkast að austanverðu af Kvíahnaus en að vestanverðu nokkru vestan við Skaga. Innan þessa svæðis falla Fálkagil og Jókugil.

Skráðar eru heimildir um nokkur snjóflóð á þessu svæði, þar á meðal óljósar heimildir um snjóflóð sem kann að hafa fallið niður á svæðið þar sem nú er Bakkahverfi.

Frá Fálkagili og vestur að Skaga er Bjólfurinn víða brattur og gil grunn ef undan eru skilin Jókugil og Fálkagil. Varnargarðar á Brún draga úr snjóflóðahættu á svæðinu.

Íbúðarbyggð er samfelld á allstóru svæði í Bakkahverfi.

Erfitt er að meta snjóflóðahættu en möguleiki er talinn á allstórum snjóflóðum langt niður í byggðina.

Í Haugunum innan Kálfabotns, Jókugils og Fálkagils getur safnast mikill snjór, sérstaklega er talað um snjósöfnun utantil í þeim samfara NA-átt.

Ef litið er sérstaklega til giljanna (Fálkagil og Jókugil), þá skefur snjó úr hlíðum Bjólfsins inn eftir og safnast í þau.

Af þessu má sjá að ýmsar aðstæður geta orðið þess valdandi að snjór safnist fyrir á svæðinu og að nákvæmar gætur þarf að hafa á fjallinu ofan Hauga.

Á þessu svæði er gert ráð fyrir rýmingu á stigi II á reit nr. 14, sem tekur til tveggja fjölbýlishúsa, og á stigi III á reit nr. 13.

Hætta stafar af aur- og krapaflóðum á svæðinu. Grípa þarf til staðbundinna rýminga þar þegar hætta er talin á aur- eða krapaflóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveða umfang slíkrar rýmingar hverju sinni (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði).

Botnar

Eystri mörk svæðisins liggja rétt vestan við Búðará. Vestari mörk eru við innri jaðar byggðarinnar. Innan þessa svæðis falla Hádegisá, Dagmálalækur og Búðará.

Skráðar eru heimildir um krapaflóð í Hádegisá og aurskriður í ár- og lækjarfarvegum. Jarðfræðilegar vísbendingar hafa fundist um skriðuföll úr Botnahlíð í núverandi byggð. Talsverð snjósöfnun er í Botnahlíðina og hefur orðið vart við sprungur þar í snjóþekjunni sem bentu til þess að snjóflóð hefðu verið við það að falla.

Hlíðin er frekar aflíðandi með tveimur stöllum, Efri- og Neðri-Botnum, og skorin giljum neðst.

Íbúðarbyggð er samfelld á þessu svæði neðan hlíðarinnar.

Mikil snjósöfnun í Botnum eða ofan þeirra var áður talin ólíkleg, en alls ekki óhugsandi. Þegar farið var að fylgjast betur með snjóalögum á síðari árum kom í ljós að snjósöfnun í hlíðina er veruleg. Helst er hætta á henni í mikilli og samfelldri snjókomu samfara S- og SA-átt. Afar sérstakar veðuraðstæður þarf til þess að mikið snjói í suðlægri átt.

Gert er ráð fyrir rýmingu vegna snjóflóðahættu á stigi II á reit nr. 8 og á stigi III á reit nr. 9. Rýming vegna krapaflóðahættu á stigi III er skilgreind á reitum nr. 10 og 11. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reit nr. 12.

Krapaflóð eru hugsanleg úr Hádegisá og Dagmálalæk, svo og aurskriður og krapaflóð úr Nautaklauf og Búðará. Grípa þarf til staðbundinna rýminga þar þegar hætta er talin á aurskriðum og krapaflóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveða umfang slíkrar rýmingar hverju sinni (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði).

Strandartindur/Fjarðarströnd

Strandartindur stendur sunnan Seyðisfjarðar. Hann er 1010 m hár og nefnist strandsvæðið norður undir honum Fjarðarströnd. Innan þessa svæðis falla Skuldarlækur, Hörmungarlækur, Hæðarlækur, Strandargil, Imslandsgil, Grenistangi, Borgartangi og Miðtangi.

Skráðar eru heimildir um mörg snjóflóð, einkum blaut flóð, svo og aurskriður, á þessu svæði og hafa sum flóðin fallið í sjó fram.

Hlíðar tindsins eru fjölbreyttar og eru skornar bæði smáum og djúpum giljum. Gilin eru oftast víð, trektlaga og brött og ná upp í efstu brúnir. Snjóflóð eru tíð og oftast bundin við gilin. Bæði þurr og vot snjóflóð falla á þessu svæði og eru skriður og grjóthrun algengt í giljunum. Snjóflóð falla úr öllum giljum frá Grenistanga og inn að Strönd, nema ekki er vitað um snjóflóð úr Imslandsgili. Á þessu svæði er Strandartindur mjög brattur og víða hamrar. Gilin eru nokkuð djúp í klettum en grunn á hjöllum. Stærstu snjóflóðin verða á Grenistanga, Borgartanga og Miðtanga. Athyglisvert er að á Ströndinni og Grenistanga innanverðum eiga snjóflóð til að stöðvast neðan við neðstu klettana og hrúgast þar upp. Hætta er á votum snjóflóðum úr nokkrum þessara gilja vegna þess að í þeim eru hallalitlir kaflar þar sem myndast geta krapastíflur. Einnig eru vatnasvið þeirra mjög stór. Þessi gil eru Strandargil, Hæðarlækur, Skuldarlækur og gilið næst fyrir innan hann, auk gilja ofan Borgartanga, Miðtanga og Grjótgarða.

Íbúðarbyggð er engin á þessu svæði en þar er allmikil atvinnustarfsemi.

Einkum er talað um að snjór berist í miklu magni í gilin á innanverðri Ströndinni inn með Strandartindi í skafrenningi samfara SA-átt. Þungur snjór eða slydda getur komið í sömu vindátt, ef til vill ofan á þurran og léttan snjó, og skapað hættu. Einnig er talað um að í hreinni A-átt berist snjór í gilin á Ströndinni, einkum að utanverðu. Það virðist þó ekki vera einhlítt.

Gera þarf mun nánari veðurgreiningu til að menn átti sig á skilyrðum þeim er valda snjóflóðum á Fjarðarströnd.

Gert er ráð fyrir rýmingu á stigi I á reitum nr. 4 og 6, og á stigi II á reitum nr. 5 og 7 á þessu svæði.

Hætta stafar af aur- og krapaflóðum á svæðinu. Grípa þarf til staðbundinna rýminga þar þegar hætta er talin á aur- eða krapaflóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveða umfang slíkrar rýmingar hverju sinni (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði).

Aftur upp

Snjóflóðaveður

Úr veðurgreiningarumfjöllun skýrslu um snjóflóð á Seyðisfirði frá 1988

„Langflest snjóflóð falla í janúar og febrúar en einnig [er] nokkuð [um snjóflóð] í mars og apríl. Febrúar hefur tvöfalt fleiri snjóflóðadaga en hinir mánuðirnir. Þurr snjóflóð eru meira en helmingi tíðari en vot.

Í flestum tilvikum virðist aðdragandi þurra snjóflóða svipaður. Um það bil viku áður en flóðin falla frystir að undangenginni nokkurri hláku með rigningu og slyddu. Einhvern tíma eftir að frystir eru 1-2 dagar með verulegu frosti (6-12 gráðu frost). Dagana sem snjóflóðin falla er svo N eða NA hríð. Það bendir því allt til þess að myndun djúphríms sé ein af orsökum þess að stór þurr snjóflóð falli.

Það er augljóst, að slík veðurfarssaga á sér oft stað án þess að snjóflóð falli. Samt sem áður er hún ábending um að eitthvað geti farið að gerast. Rétt er að hafa augun opin og gera einhverjar athuganir svo sem mæla ákomu og grafa gryfju og meta styrk ýmissa laga í snjóþekjunni.

Aðdragandi votra snjóflóða er eins og við er að búast asahláka með S til A slagviðri og rigningu eftir að snjóað hefur í fjöll. Á Seyðisfirði hefur úrkoman oft mælst yfir 50 mm á sólarhring þegar þessi votu snjóflóð hafa fallið.“ (úr skýrslunni „Könnun á snjóflóðahættu á Seyðisfirði“ eftir Kristján Ágústsson sem unnin var fyrir Ofanflóðanefnd og gefin út af Veðurstofu Íslands 1988).

Niðurstöður umræðna á vinnufundi um rýmingarsvæði

Veðurgreining með tilliti til snjóflóða er flóknari og vandasamari á Seyðisfirði en víða annars staðar vegna þess að hætta getur skapast í að minnsta kosti einhverjum farveganna við flest veðurskilyrði samfara snjókomu eða slyddu.

Það veldur vandkvæðum við mat á snjósöfnun í fjöll ofan Seyðisfjarðarkaupstaðar að beggja vegna fjarðarins getur safnast snjór í sömu vindátt, t.d. í austanátt.

Helst snjóar í NA- og A-áttum á Seyðisfirði, en einnig í N-átt. SA-átt fylgja sæmileg hlýindi, en engu að síður getur snjóað úr þeirri átt í fjöll í ákveðnum tilvikum.

Annað sem fram kom á vinnufundi um rýmingarsvæði árið 1996

Í A-átt, ekki mjög hvassri, en með ákafri ofankomu, jafnvel bleytuhríð, er snjósöfnun beggja vegna fjarðarins. Þá er oft hætta á votum eða hálfvotum flóðum.

Afar sjaldgæft er að mjög hvasst verði í norðaustanátt í kaupstaðnum.

Aftur upp

Útgáfur

Fyrsta útgáfa, mars 1996.

Önnur útgáfa, júlí 1997. Smávægilegar orðalagsbreytingar og leiðréttingar.

Aðlögun að vefbirtingu, m.a. tenging við rýmingarkort á PDF-formi, desember 2004.

Þriðja útgáfa, nóvember 2007. Breytingar á rýmingaráætlun vegna varnargarðs á Brún í Bjólfi, endurskoðun og samræming við hættumat.

Aftur upp

Tilvísanir í kort og önnur gögn

Rýmingarkort af Seyðisfirði (pdf 1,8 Mb)

Skýringar við rýmingarkort (pdf 0,1 Mb)

Hættumatskort af Seyðisfirði (pdf 0,7 Mb)

Kynningarbæklingur um rýmingaráætlun fyrir Seyðisfjörð (pdf 0,3 Mb)

Yfirlitskort (pdf 0,8 Mb) ©Landmælingar Íslands, f.h. íslenska ríkisins, leyfi nr. L02100001


Aftur upp

Athugasemdir sendist til: snjoflod@vedur.is





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica