Greinar

Viðvörunarkerfi Veðurstofunnar

Sigurlaug 6.11.2017

Viðvörunarkerfi Veðurstofunnar byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er stafrænt snið fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Útgefin skeyti eru á stöðluðu formi sem samræmir alla miðlun viðvarana yfir mismundandi samskiptaleiðir og miðla. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshlutann sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið.

Viðvaranir eru í litum, gulum, appelsínugulum og rauðum, í samræmi við hættustig veðurs. Rauðar viðvaranir eru hæsta stig og boða mikil samfélagsleg áhrif af veðri; gular viðvaranir eru lægsta stig þar sem samfélagsleg áhrif eru takmörkuð þó líkur á veðrinu séu miklar, eða minni líkur á áhrifum mikils veðurs lengra fram í tíman.

Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á áhrifum væntanlegs veðurs og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða. Viðbragðsaðilar eru með í ráðum um útgáfu viðvarana á efri stigum, s.s. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðin. Veðurfræðingar gefa frekari lýsingu á atburðinum í texta sem fylgir viðvöruninni. 

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica