Greinar
Símstöðin í Flatey. Myndin er tekin í júlí 1977.

Tíðavísur úr Flatey

Af gömlum blöðum

Trausti Jónsson 7.6.2016

Karl V. Guðbrandsson símstöðvarstjóri í Flatey var veðurathugunarmaður þar á árunum 1966 til 1967. Fyrir kom að hann sendi kviðlinga með veðurskýrslunum og þar á meðal tíðavísurnar hér að neðan.

Svonefndar tíðavísur fjalla um markverða atburði, ekki þá síst veðurfar eða einstök veður eða skaða og voru vinsæl dægradvöl fyrr á árum. Af þeim sem hafa veður og veðurfar sem meginstef eru tveir flokkar langþekktastir, Fimmtán tíðavísur um árin 1801 til 1815 eftir séra Þórarin Jónsson í Múla og Tíðavísur yfir árin 1779 til 1834 eftir séra Jón Hjaltalín.  

Stirð tíð var í mars 1967, fór þó ekki mjög illa með framan af en um miðjan mánuð skipti mjög um til hins verra. Gengu þá illviðri mikil, fyrst aðallega úr vestri, en um páskana, sem þá voru í mars, gerði eftirminnilegt hret.

Karli segist svo frá (sjá einnig handrit bls. 1 og bls 2): 

Viltir vindar vóru í Mars

Framan af var frera átt, með fjúki og vindi,
en um miðjan, á með skyndi
okkur skelti vestan vindi.

Það var rok sem reif upp sjó, með regin krafti,
særok yfir eyna alla
öldur huldu brúnir fjalla.

Nóttina alla gnauðaði í gömlum kofum,
inni heyrðust brak og brestir,
er byljirnir vóru allra mestir.

Þó fór vel, að ekki urðu, tjón á mönnum,
skaðar ekki á skepnum heldur,
skaparinn því sjálfsagt veldur.

Það er von, hann fari að skána og skíni sólin,
gangi frá oss, grimmur vetur,
geri Apríl við oss betur.

Kveðju sendi, kannski hendi síðar,
viltir vindar, vóru í Mars,
verður skýrsla tíðarfars.


Flatey 1/4. - 1967

K.V.G.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica