Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju
Skoðunarferðir haustið 2013
Á haustin hættir snjór að bráðna á hærri fjöllum og úrkoman fellur í vaxandi mæli sem snjór. Í Gunnlaugsskarði í Esju gerist þetta yfirleitt í kringum mánaðarmót september og október.
Páll Bergþórsson veðurfræðingur hefur skrifað ítarlega fróðleiksgrein um fannir í Esju, meðal annars um skaflinn í Gunnlaugsskarði, og hvaða vísbendingu fyrri athuganir gefa um breytingu á lofthita.
Í hlýjum árum bráðnar skaflinn, áður en snjór tekur að safnast þar fyrir aftur að hausti, en á köldum tímabilum helst hann allt árið. Fram undir aldamót hvarf skaflinn yfirleitt ekki.
Margir miða við hvort skaflinn sést frá Reykjavík en það er spennandi fylgjast með þessu í nálægð og undanfarin haust hefur verið kannað hvort skaflinn í Gunnlaugsskarði væri horfinn, eins og gerst hefur undantekningalítið eftir árið 2000. Fyrri fróðleiksgrein lýsir skoðunarferðum 2011 og 2012.
Haustið 2013
Hinn 19. október 2013 voru farnar tvær skoðunarferðir sem sýna að skaflinn hverfur ekki þetta árið. Myndirnar hér undir sýna meginskaflinn og aðra skafla frá síðasta vetri. Ennfremur má sjá á tveimur myndanna snjó sem fallið hefur síðustu vikurnar en ekki náð að taka upp.
Hamrabeltið hér til hliðar er efst í gili undir Gunnlaugsskarði. Myndin þaðan, sem tekin er sama dag, sýnir nokkra minni skafla. Eins og meginskaflinn, þá eru þetta snjófyrningar frá síðasta vetri.