Helstu veðuratburðir 2001 til 2010
Örstutt yfirlit til Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar
Við lok ársins 2010 óskaði Alþjóðaveðurfræðistofnunin eftir því við aðildarþjóðir sínar að þær sendu þeim yfirlit um helstu veðurfarshamfarir áratugarins. Hér var erfitt í efni því þessi fyrsti áratugur 21. aldar var fádæma veðragóður hér á landi. Þrátt fyrir það vildi stofnunin engu að síður fá yfirlit um merkustu veðuratburði á Íslandi þessi árin. Textinn hér að neðan er þýðing á enska pistlinum og ef eitthvað kann að hljóma einkennilega í eyrum íslensks lesanda er beðist velvirðingar á því.
Stutt yfirlit um helstu veðuratburði á árunum 2001 til 2010
Veðurfar áratugarins 2001 til 2010 var óvenjulega hagstætt, sennilega hagstæðasti áratugur að minnsta kosti nokkurra alda. Engar meiriháttar veðurhamfarir gengu yfir landið á þessu tímabili.
Að meðaltali verður landið fyrir 10 til 30 markverðum veðuratburðum á ári. Flestir tengjast þeir foksköðum, en síðan allmörgum snjóflóðaatburðum, skriðuföllum, vatnavöxtum og hríðarbyljum. Hitabylgjur valda ekki beinu tjóni á Íslandi né heldur íshagl. Útbreiddir skaðar af völdum þrumuveðra eru nánast óþekktir. Þurrkar hafa fremur valdið óþægindum heldur en tjóni. Flóð í ám valda stundum tjóni og sömuleiðis sjávarflóð. Tjón samfara skyndiflóðum vegna ákafrar úrkomu eru afar sjaldgæf, en koma þó fyrir. Alvarlegustu flóð á Íslandi tengjast ekki veðri heldur eldgosum, jarðhita eða jaðarlónum jökla. Langstærstu náttúruhamfarir síðastliðins áratugar voru af völdum eldgosa og jarðskjálfta. Mestu tjóni ollu jarðskjálftinn mikli við Hveragerði 2008 og gosið í Eyjafjallajökli 2010.
Af einstökum veðuratburðum minnast menn helst hitabylgjunnar miklu í ágúst 2004 sem merkastan af einstökum veðuratburðum. Hámarkshiti í Reykjavík fór þá yfir 20 stig fjóra daga í röð en það hefur aldrei gerst áður síðan mælingar hófust. Í hitabylgjunni féllu fjölmörg met, þar á meðal í Reykjavík. Í annarri hitabylgju (í júlílok 2008) sem ekki var jafnútbreidd eða langvinn og hin fyrri var nýtt hámarkshitamet sett í Reykjavík (25,7°C). Sama dag (30. júlí) fór hitinn á Þingvöllum í 29,7°C en það er hæsti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkri veðurstöð á Íslandi.
Nýtt sólarhringsmet úrkomu var sett í Kvískerjum í Öræfum 10. janúar 2002, þá mældust þar 293,3 mm. Þetta er um 50 mm meira en eldra met (frá 1979).
Mesti sinueldur sem vitað er um á Íslandi á seinni öldum varð á Mýrum vestra 30. mars til 1. apríl 2006. Þá brunnu um 63 ferkílómetrar lands. Varanlegt tjón varð óverulegt, en eldurinn ógnaði þó nokkrum bændabýlum á svæðinu.
Fáein snjóflóð ollu tjóni á áratugnum, þó mun minna heldur en á næsta áratug á undan. Mestu tjóni á árunum 2001 til 2010 ollu flóð í Ólafsfirði í janúar 2004 þegar bóndabýli varð undir og einn maður fórst og flóð í Hnífsdal í janúar 2005 þegar eitt íbúðarhús eyðilagðist og nokkur önnur skemmdust. Í síðara tilvikinu höfðu hús verið rýmd áður en flóðið féll.
Fáein illviðri ollu tjóni en í langflestum tilvikum var það aðeins staðbundið. Þök, skúrar og bílar fuku o.s.frv. Ekkert meiriháttar fárviðri gekk yfir á áratugnum eins og gerði þó nokkrum sinnum næstu áratugina á undan (t.d. 1966, 1972, 1973, 1981, 1985 og 1991).
Árflóð skemmdu vegi og brýr nokkrum sinnum og hringvegurinn lokaðist. Alloft flæddi í kjallara. Óvenjusnarpt sumarillviðri gerði 17. til 18. júní 2002. Þá skemdust tré og gróður og mikil úrkoma olli skriðuföllum og flóðum norðaustan- og austanlands. Flóð í Ölfusá olli tjóni á Selfossi 20. til 21. desember 2006. Sömu daga urðu óvenjumikil flóð og skriðuföll í Eyjafirði í asahláku og óvenjumikilli úrkomu.
Engin meiriháttar kuldaköst gerði á árunum 2001 til 2010. Hríðarveður voru fá, en umferð teppist venjulega í nokkra daga á vetri hverjum vegna veðurs. Slík tilvik voru færri en áratugina á undan. Nokkra sandbylji gerði en tjón varð lítið.
Jöklar landsins hafa bráðnað meir en áður í hlýindunum 2001 til 2010. Rennsli jökuláa hefur því verið meira en áður. Síðari hluta áratugarins voru vor og fyrri hluti sumars oft venju fremur þurr og vatnsskorts gætti þá staðbundið. Skorturinn var þó meira til óþæginda heldur en að hann hafi valdið beinu tjóni.
Áratugaútgildi síðan 1901
Við lok ársins 2010 óskaði Alþjóðaveðurfræðistofnunin að auki eftir því við aðildarþjóðir sínar að þær sendu þeim yfirlit um útgildi sólarhringsúrkomu ásamt hámarks- og lágmarkshita hvers áratugar frá 1901 til 2011. Yfirlitð má skoða í sérstakri grein.