Veðurannálar
Uppskrift Sigurðar Þórs Guðjónssonar
Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur hefur tekið saman í eitt skjal (pdf 3,4 Mb) veðurupplýsingar úr annálum. Skrif Sigurðar (f. 1947) um veður eru landsþekkt og njóta virðingar meðal veðurfræðinga. Hann hefur veitt Veðurstofunni leyfi til að birta uppskriftina í heilu lagi. Búast má við því að villur af ýmsu tagi hafi slæðst inn og eru lesendur og útgefendur beðnir velvirðingar á því. Hafi einhverjir hug á að nýta textana í eigin ritsmíðar er nauðsynlegt að þeir noti prentuðu útgáfurnar sem heimild en ekki uppskriftina. Þægilegt er hins vegar að finna staðarnöfn og atriðisorð í uppskriftinni og ætti það að flýta fyrir leit í annálunum.
Upplýsingar í skránni eru í áraröð, þær elstu frá landnámsöld. Hverju ári fylgir síðan listi með upplýsingum úr hverjum annál fyrir sig. Skráin hefst á upplýsingum um heimildir og val atriða.
Á stöku stað í þessari samantekt er getið um mikilvæga náttúruviðburði snemma á öldum til glöggvunar á tímatali þó engar skriflegar heimildir séu til um þá og eru þeir skáletraðir. Sama er að segja um einstaka atburði í þjóðarsögunni sem ekki eru veðurfarslegir, en eru mikilvægir til tímatalsviðmiðunar, svo sem svartidauði. Veðurstofan þakkar Sigurði framtakið og leyfið til að nota uppskriftina.
Íslenskir annálar
Íslenskir annálar eru aðallega tvenns konar. Annars vegar eru svokallaðir fornannálar, sem ná frá upphafi Íslandsbyggðar til 1578, og hins vegar yngri annálar, sem byrja með Skarðsárannál og ná til 1800. Yngri annálarnir voru gefnir út af Hinu íslenska bókmenntafélagi (sjá hér neðar).
Auk efnis úr hinum hefðbundnu yngri annálum sem Bókmenntafélagið gaf út eru hér teknir með tveir merkir annálar hvað veðurfar snertir, Suðurnesjaannáll og Brandsstaðaannáll, og einnig efni úr Árbókum Reykjavíkur.
Hér er listi yfir annála sem eru afritaðir. Nánari upplýsingar eru í inngangi skjalsins og þar eru fleiri heimildir taldar.
Eldri annálar
Islandske Analer indtil 1578, útg. Gustav Storm, Gröndal & Söns bogtrykkeri, Christiania, 1888.
I Resensannáll (Annales Reseniani) I. Hann nær til 1295.
II Forniannáll (Annales vetustissimi ) II. 1-999, 1270-1313.
III Høyersannáll (Henrik Høyers Annaler) III. Til 1310.
IV Konungsannáll (Annales regiii). Nær til 1341.
V Skálholtsannáll (Skálholts-Annaler). Nær til 1356.
VI Annálsbrot frá Skálholti (Annalbrudstykke fra Skálholt).
VII Lögmannsannáll (Lögmanns-Annaler). Nær til 1392.
VIII Gottskálksannáll (Gottskáls Annaler). Nær til 1578.
IX Flateyjarbókarannáll. Síðustu árin, 1389-1394, er annállinn sjálfstæð samtímaheimild.
Nýi annáll. Hann er framhald af Skálholtsannál og er samtímaheimild 1393-1430.
Yngri annálar
Annálar 1400-1800. Hið íslenzka bókmenntafélag, 1922-1987, I-VI, Reykjavík.
Skarðsárannáll, Björn Jónsson, Skarðsá í Skagafirði. 1597-1640.
Viðauki Skarðsárannáls, Brynjólfur Sveinsson biskup, Skálholt, 1641-1645.
Ballarárannáll, Pétur Einarsson, Ballará á Skarðsströnd, 1597-1665.
Annalium in Islandia farrago eða Íslenzk annálabrot, Gísli Oddsson biskup, Skálholt, 1601-1636.
Vallholtsannáll, Gunnlaugur Þorsteinsson, Vallholt í Skagafirði, 1626-1666.
Vatnsfjarðarannáll hinn elsti, Jón Arason, Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp, 1645-1654.
Viðauki Vatnsfjarðarannáls, Sigurður Jónsson, Vatnsfjörður og Ögur í Ísafjarðardjúpi, 1655-1661.
Seiluannáll, Halldór Þorbergsson, Seila í Skagafirði, 1652-1658.
Vatnsfjarðarannáll hinn yngri, Guðbrandur Jónsson, Vatnsfjörður, 1656-1672.
Annálsgreinar Árna á Hóli, Árni Magnússon, Hóll við Bolungarvík, 1662-1695.
Kjósarannáll, Einar Einarsson, Garðar á Álftanesi, 1670-1687.
Eyrarannáll, Magnús Magnússon, Eyri við Ísafjarðardjúp, 1673-1703.
Annálsgreinar frá Holti, Sigurður Jónsson, Holt í Önundarfirði, 1673-1705.
Mælifellsannáll, Ari Guðmundsson, Magnús Arason, Mælifell í Skagafirði, 1678-1702, 1703-1738.
Vallaannáll, Eyjólfur Jónsson, Vellir í Svarfaðardal, 1690-1737.
Hestsannáll, Benedikt Pétursson, Hestur í Borgarfirði, 1694-1718.
Annáll Páls Vídalíns, Páll Vídalín, Víðidalstunga í Víðidal í Húnavatnssýslu, 1700-1709.
Fitjaannáll, Oddur Eiríksson, Fitjar í Skorradal, 1700-1712.
Viðauki Fitjaannáls, Jón Halldórsson, Hítardalur, 1713-1719.
Þingmúlaannáll, Eiríkur Sölvason, Þingmúli, 1700-1729.
Hvammsannáll, Þórður Þórðarson, Hvammur í Dölum, 1717-1738.
Hítardalsannáll, Jón Halldórsson, Hítardalur, 1724-1734.
Viðauki Hítardalsannáls, hugsanlega Gísli Bjarnason, Melar í Melasveit, 1735-1740.
Sjávarborgarannáll, Þorlákur Magnússon, Sjávarborg við Sauðárkrók, 1727-1729; árin 1609-1627 er þessi annáll útdráttur úr einhverjum týndum annál frá Suðurlandi en 1645-1650 og 1668-1671 geymir annállinn efni sem talið er ættað úr eldri samtíma annálum frá Gufudal í Barðastrandarsýslu.
Grímsstaðaannáll, Jón Ólafsson, Grímsstaðir við Arnarstapa á Snæfellsnesi, 1734-1764.
Höskuldsstaðaannáll, Magnús Pétursson, Höskuldsstaðir, rétt norðan við Blönduós, 1734-1784.
Ölfusvatnsannáll, Sæmundur Gissurarson, Ölfusvatn í Ölfusi, 1740-1762.
Sauðlauksdalsannáll, Björn Halldórsson, Sauðlauksdalur við Patreksfjörð, 1740-1780.
Íslands árbók, Sveinn Sölvason, Munkaþverá í Eyjafjarðardal, 1740-1782.
Viðauki Íslands árbókar, Jón Sveinsson, Eskifjörður, 1782-1792.
Espihólsannáll, Jón Jakobsson, Espihóll í Eyjafjarðardal, 1768-1799.
Húnvetnskur annáll, ókunnur höfundur, A-Húnavatnssýsla, 1765-1776.
Djáknaannálar, Tómas Tómasson, hreinskrifaður af Hallgrími Jónssyni, Þóroddsstaðir og Stóra-Ásgeirsá í Hrútafirði, 1770-1794.
Fréttir Guðlaugs í Vatnsfirði, Guðlaugur Sveinsson, Vatnsfjörður við Ísafjarðardjúp, 1785-1798.
Aðrir annálar
Suðurnesjaannáll Sigurðar B. Sívertsen, Rauðskinna III, annállinn í heild er á bls. 1-252.
Suðurnesjaannáll, Sigurður B. Sívertsen, Útskálar á Suðurnesjum, 1799-1889. Fyrir 1836 er aðeins tekið úr annálnum efni sem ekki finnst í hinum annálunum (5 færslur), svo og frásögnin um Básendaflóðið 1799.
Brandsstaðaannáll eftir Björn Bjarnason á Brandsstöðum, Sögufélagið Húnvetningur og Húnvetningafélagið í Reykjavík, Reykjavík 1941. Inngangur og umsjá útgáfu: Jón Jóhannesson.
Brandsstaðaannáll, Björn Bjarnason, Brandsstaðir í Blöndudal, 1800-1858.
Árbækur Reykjavíkur, Jón Helgason, Leiftur, Reykjavík, 1936.
Árbækur Reykjavíkur, Jón Helgason, Reykjavík, 1783-1924 (?).