Greinar
kort af jökli
Jaðar jökulsins árið 2000 er sýndur með rauðri línu.

Snæfellsjökull þynnist

Tómas Jóhannesson 28.7.2009

Snæfellsjökull er um 12,5 km2 að flatarmáli og hefur þynnst og hopað mikið á síðustu árum, að sögn staðkunnugra heimamanna. Með samanburði mælinga sem fram fóru í september 2008 við hæðarlíkan Loftmynda ehf frá 1999 má reikna meðallækkun jökulyfirborðsins á þessu tímabili og reyndist hún rúmlega 13 m, eða um 1,5 m á ári að meðaltali. Rýrnunin er hátt í tvöfalt hraðari en afkomumælingar á Hofsjökli og Vatnajökli gefa til kynna á sama tímabili en svipuð og á Langjökli.

Meðfylgjandi myndir sýna mælt yfirborð Snæfellsjökuls og lækkun yfirborðsins síðan 1999. Jökullinn hefur þynnst mest við jaðarinn, um meira en 40 m þar sem mest er, en minnst á hábungunni, þar sem yfirborðið hefur lækkað um u.þ.b. 5 m að meðaltali ofan 1200 m y.s.

Á árinu 2008 hófust, í tilefni heimskautaáranna 2007-2009, viðmiðunarmælingar á jöklum landsins til þess að meta breytingar þeirra þegar fram líða stundir. Að verkefninu standa Veðurstofa Íslands, Vatnamælingar Orkustofnunar, sem nú hafa verið sameinaðar Veðurstofunni í nýrri stofnun, og Jarðvísindastofnun Háskólans. Mælingarnar eru gerðar með stuðningi Rannís, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Vegagerðarinnar og Landmælinga Íslands. (Vefir stofnananna opnast í nýjum vafraglugga.)

Snæfellsjökull, Eiríksjökull og meirihluti Hofsjökuls voru mældir í september 2008 af þýska mælingafyrirtækinu TopScan og fóru mælingarnar fram með leysitækjum úr flugvél sem mæla hæð jökulyfirborðsins yfir sjó með mikilli nákvæmni og upplausn. Sumarið 2007 var mestur hluti Langjökuls mældur með sömu tækni.

Skyggð þrívíddarmynd af Snæfellsjökli
skyggð loftmynd af jökli
Skyggð þrívíddarmynd af yfirborði Snæfellsjökuls og næsta nágrenni í september 2008. Jaðar jökulsins kemur skýrt fram í áferðarmun á yfirborðinu þar sem sjá má jökulsker og sprungur. Ummerki um skriðstefnu jökulsins, þegar hann var stærri, eru áberandi utan jaðarsins.
Aftur upp







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica