Greinar
Litrófsljósmælir til ósonmælingar, sem settur var upp á svölum Veðurstofuhúss síðla árs 1991
Litrófsljósmælir til ósonmælinga.
1 2

Ósonmælingar á Íslandi

Barði Þorkelsson 30.3.2009


Fyrstu mælingar á ósoni á Íslandi voru gerðar á Veðurstofu Íslands í Reykjavík á árunum 1952-1955 og var notaður til þeirra Dobson litrófsljósmælir (spectrophotometer) nr. 37. Þessar mælingar voru nokkuð samfelldar en notagildi þeirra var takmarkað þar sem ekki eru til gögn um ástand tækisins og því illmögulegt að tengja þær seinni mælingum.

Ósonmælingar hófust í Reykjavík í júlí 1957, í upphafi alþjóðajarðeðlisfræðiársins, með Dobson litrófsmæli nr. 50. Þetta tæki er ennþá í notkun og hefur því þjónað Veðurstofunni í um 50 ár.

Mælingarnar hafa verið gerðar með reglubundnum hætti allt tímabilið. Hefur að jafnaði verið gerð a.m.k. ein mæling á dag þegar aðstæður hafa leyft. Mælingarnar eru einnig allvel samfelldar. Þó var ekkert mælt árið 1960 og á árunum 1965-1977 vantar stundum mælingar allmarga daga í röð, en eftir það heyrir það til undantekninga. Þá féllu mælingar þrívegis niður um skeið þegar tækið var sent utan til prófunar og lagfæringa.Línurit sem sýnir fimm ára keðjubundið meðaltal ósons sem mælt var í Reykjavík árin 1986-2005

Síðan í byrjun vetrar 1991 hefur Instituto Nacional de Técnica Aerospacial (INTA) í samvinnu við Veðurstofuna sent upp ósonnema með loftbelgjum frá Keflavíkurflugvelli til mælinga á lóðréttri dreifingu ósons í lofthjúpnum. Þeim mælingum hefir síðan verið framhaldið yfir vetrartímann.

Brewer litrófsljósmælir var settur upp á Veðurstofunni síðla árs 1991 í samvinnu við Háloftaeðlisfræðistofu (Laboratory of Atmospheric Physics - LAP) háskóla Aristótelesar í Þessalóníku í Grikklandi. Var hann rekinn til ársins 2001 og mældi heildarmagn ósons í lofthjúpnum. Niðurstöður Brewermælinganna og Dobsonmælinganna falla vel saman.

Veturinn 1993-1994 var Rasas rófgreinir (spectrometer) til ósonmælinga starfræktur á Veðurstofunni í Reykjavík en í vetrarbyrjun 1994 var hann fluttur á Keflavíkurflugvöll.Stöplarit sem sýnir frávik einstakra mánuðua frá meðaltali ósons 1978-1988 í Reykjavík










Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica