Greinar
Flatey á Breiðafirði
Frá Flatey á Breiðafirði árið 1955.

Sumar og haust 1926

Af gömlum blöðum

Trausti Jónsson 11.2.2009

Fyrri hluti sumarsins 1926 þótti yfirleitt hagstæður á landinu og grasspretta lofaði góðu. Talvert rigndi í júlí, en ágúst hlaut þann dóm í Veðráttunni að tíð hafi yfirleitt verið óhagstæð, votviðra- og stormasöm. Júlírigningarnar voru óvenjulegar að því leyti að þeirra gætti um land allt. Síðustu daga ágústmánaðar varð jörð alhvít í niður að sjó við norðausturströndina.


September var votur og kaldur og hausttíðin var síðan talin slæm og setti snemma niður snjó. Alhvítt var talið að morgni 9. september í Reykjavík og hefur snjó aldrei fest svo snemma þar á bæ svo vitað sé. Október er talinn sá snjóþyngsti á landinu á tímabilinu 1924 til 2008.

Nóvember var einnig snjóþungur og í illviðri þann 6. til 7. gerði snjóflóðahrinu. Varð þá tjón á mönnum og skepnum. Ísing felldi raflínur bæði um norðan- og vestanvert landið. Talið var að ísingin hafi verið sú mesta frá lagningu símans (1906). Sjávargangur var mikill á Austfjörðum og brotnuðu 30 árabátar á Norðfirði. Hér að neðan eru rifjuð upp brot úr bréfum frá fáeinum veðurathugunarmönnum. Bréfin eru lítillega stytt.

Bréf úr Flatey á Breiðafirði

Flatey 7. október 1926. Stefán Egilsson ritar.


Tíðin hefur verið mjög skakviðrasöm yfir höfuð í sumar, ellstu menn hjer þykjast ekki muna jafnmiklar rigningar eins og í sumar. Það snjóaði hjer í öll fjöll í kringum Breiðafjörð þann 30. ágúst og mun sá snjór ekki allur leistur en [í] lok september var snjór á öllum hæðstu fjöllum. Þann 9. s[ama] m[ánaðar] snjóaði niður að sjó í kringum Breiðafjörð og grá jörð hjer á einni þann morgun og talsvert frost sagt þá á Barðaströnd. Þerrir var góður hjer 10.,11., [og] 12. Svo 23. snjóaði í hæðstu fjöll. Þerrir allgóður 24., 25. og 26. [...]. Kraparegn eru seinni hluta mánaðarins.

Kartöflugras fór að falla hjer seint í ágúst. Hefur gengið seint að taka upp vegna rigninga, mun það seinasta hafa verið tekið upp í gjær í Sýrey yfirhöfðuð illa sprottið. Heiskapur hefur gengið þolanlega og ekki mikið hrakist. Nú í nótt snjóaði í öll fjöll ofan í miðjar hlíðar allt frá Skor og fram á Klofninga við Hvammsfjörð. Til suðurfjallanna hefur ekki sjest fyrir þoku.

Nú er verið að slátra dilkum hjer daglega. Kjöt af þeim kostar nú 50 aura pundið innmatur 1/50 og 2/00, mör var fyrst 1/00, er maskje nú á 80.

Bátar þeir er róa fiska fremur vel á haldfæri 30 40, 50 í hlut af stútungi þorsk og lúðu[raft], heilagfiski fáum við á 25 aura og fiskinn óslægðan á 6 aura pundið, 8 eða 10 slægðan.
[Bréfasafn Veðurstofunnar: 1342]

Bréf frá Húsavík

Húsavík 5. nóvember 1926
Veðráttan á næstl. sumri hér í Þingeyjarsýslu var mjög einkennileg, og ólík því sem talið hefur verið tíðast hér nyrðra. Aðaleinkenni norðlenskrar veðráttu hafa ætíð verið talin þau, að hún væri köld, sólrík og vætulítil, og svo hefur hún verið lengst af minnar ævi, 80 ár. En hin síðustu ár finnst mér þetta vera að breytast.

Benedikt Jónsson
Benedikt Jónsson frá Auðnum
Mynd 2. Benedikt Jónsson frá Auðnum (1846-1939) var veðurathugunarmaður á Húsavík á árunum 1924-1939. Hér stendur hann við hitamælaskýlið. Myndin er líklega tekin árið 1935 eða 1936. Úr myndasafni Veðurstofunnar.

Áður voru vetrarnir frostasamir með snörpum norðan stórhríðaköstum, oft langstæðum, en sumrin sólrík og tiltölulega hlý. Úrkomurnar oftast með norðan ágosum[?], en ekki mjög oft austan súld. En nokkur hin síðustu ár hafa vetrarnir verið frostalitlir, norðan stórhríðar örsjaldan en sífelldar austansvækjur og úrfelli, oft kraphríðar eða krapregn en sumrin afar sólarlítil og vætusöm á sama hátt; sjaldan norðan „illviðri“ og stormar, en sífeldar svækjur.

Síðastliðið sumar mátti heita hlýtt í heildinni og oft blíðviðri en sólarlaust og vætusamt. Úrfellið var ýmist skúrir frá suðri eða austanfúlviðri, varla norðan „hrakviðri“. Í Apríl og Maí voru örfáir heiðríkir dagar, en ekki einn einasti eftir það. Við sjávarsíðuna voru oft hægar hafgolur á dagin með litlu skýjaskini en á fjöllum til landsins sátu dökkir bólstrar sem bárust út yfir sveitirnar og heltu þar úr sér dembum oft á dag þótt skin væri á milli og hlýtt í veðri. En þess á milli voru austan fýlur og þokuúði.

Grasvöxtur var afbragðsgóður en nýting afar ervið og tafsöm. Áttu sumir úti hey fram í Október eða fram í snjóa. Heyskapur varð mikill en gæðin vafasöm.


Fiski var rýrt. Raunar virtist fiskur vera um allan sjó hvar sem niður var borið, en strjáll og ilt að handsama hann, og svo er enn, virðist jafnvel meiri fiskur nú en í sumarvertíð, en nú er gæftalaust með öllu, og brimasamt mjög. Trjáreki virðist vera víða með meira móti nú í haust.


Bið velvirðingar, Benedikt Jónsson.
[Bréfasafn Veðurstofunnar: 1367]

Bréf frá Þorvaldsstöðum við Bakkaflóa

Þorvaldsstaðir við Bakkafjörð
Þorvaldsstaðir við Bakkafjörð
Mynd 3. Veðurathuganastöðin Þorvaldsstaðir við Bakkafjörð. Mennirnir standa við hitamælaskýlið. Sá sem stendur næst skýlinu er líklega starfsmaður Veðurstofunnar með málningarfötur. Hinir tveir eru sennilega heimamenn enda halda þeir á orfi og hrífu. Myndin er tekin 12. eða 13. september 1962. Ljósmyndari: Þórir Sigurðsson.

 

Yfirlit yfir sumarið 1926. Miðað við Bakkafjörð og nærliggjandi sveitir.

Vorið mátti gott heita, tíðarfar frekar hagstætt, þó nokkuð frostasamt fram eptir vorinu og tafði það fyrir grassprettu og hefur eflaust rýrt hana að mun. Skepnuhöld urðu ágæt alstaðar hvað tíð snerti, en óvanalega kvillasamt í eldra fé en sem ekki orsakaðist af tíðarfari. Sjógæftir voru góðar í Maí og nokkur afli, en eptir það fór að verða ógæftasamara.

Spretta varð hér góð á túnum, en víðast hvar fyrir neðan meðallag á úthaga og sumstaðar með sjó fram mjög slæm. Fyrsta hálfan mánuð sláttar var þurkasamt og hagstætt og náðu þá margir töðum sínum með bestu hirðing, einkum þeir er lítil tún höfðu og snemma byrjuðu slátt. Eptir það gjörði verstu tíð, óvenjulegar úrkomur og þurkleysur, heyskapur varð mjög rýr og verkun heyja með allra versta móti.

Gras féll mjög snemma og snjóar og frost lögðust að með fyrsta móti og mörg haustverk urðu aldrei unnin af þeirri ástæðu. Skemdir á heyjum í heygörðum sennilega miklar sökum rigninga.

Við sjóinn var mjög ógæftasamt, og afli á báta langt fyrir neðan meðallag (hér höfðu vélbátar hæst 80 skpd yfir alla vertíðina og róðrarbátar margir frá 30-50 skpd) og sjósókn hætt óvenju snemma.

Þorvaldsstöðum 3.11.'26, Benedikt Jóhannsson.
[Bréfasafn Veðurstofunnar: 1368]

 

Bréfritarar 

Stefán Egilsson athugaði í Flatey á Breiðafirði frá 1926 til 1930.

Benedikt Jónsson athugaði á Húsavík 1924 til 1939.

Benedikt Jóhannsson athugaði fyrst á Sauðanesi á Langanesi 1906 til 1916, að vísu með hléi. Síðan kom hann við sögu athugana á Þórshöfn, en var kominn í Staðarsel skammt þar frá 1922 til 1924. Þá fluttust athuganirnar að Þorvaldsstöðum og athugaði Benedikt þar frá 1924 til 1929.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica