Greinar
gosmökkur yfir Vatnajökli
Grímsvatnagos í desember 1998. Gosmökkinn leggur austur yfir Grímsfjall. Svíahnjúkur eystri er lengst til vinstri. Smellt á mynd til að fá stækkun.

Gerðir jökla á Íslandi

Jafngangsjöklar og framhlaupsjöklar

Oddur Sigurðsson 20.1.2009

Jöklar á Íslandi skiptast í tvo flokka eftir innra eðli. Annars vegar eru þeir sem bregðast við loftslagsbreytingum nánast jafnóðum og mætti því kalla jafngangsjökla. Hins vegar eru svokallaðir framhlaupsjöklar, sem styttast stöðugt um langt árabil en hlaupa svo skyndilega fram án þess að loftslag gefi sérstakt tilefni til.

Þessi hegðun sumra jökla hefur ekki verið skýrð svo fullnægjandi sé, en þó er ljóst að á milli framhlaupa skríða þeir einhverra hluta vegna ekki nógu hratt til að skila niður á leysingarsvæðið þeirri ákomu, sem bætist á jökulinn ofan snælínu. Framhlaupsjöklar verða því smám saman brattari uns þolmörkum brattans er náð.

Framhlaup jökla eru stórfenglegar hamfarir, enda geta þá mörg hundruð rúmkílómetrar íss tekið á rás, en til samanburðar má nefna að Esjan er langt innan við 100 km3. Brúarjökull er mestur íslenskra framhlaupsjökla og hefur sporður hans gengið fram um 8-10 km á örfáum mánuðum.

Má hugsa sér að ef jaðar hans væri við Ártúnsbrekku í Reykjavík við upphaf slíks framhlaups þá væri hann kominn vestur að Gróttu 2-3 mánuðum seinna og Hallgrímskirkjuturn væri kominn á kaf í jökulís. Íshamarinn í sporði jökuls í framrás getur verið 30-50 m hátt ísstál sem sífellt hrynja úr tuga eða hundruða tonna ísstykki með tilheyrandi dyn og dynkjum.

Gljúfur yfir Gjálp í Vatnajökli
gjá í jökli
Mynd 1. Eldgos í Gjálp bræddi á örfáum vikum meira en 3 rúmkílómetra af ís Vatnajökuls í október 1996. Hér sést meira en 3 km langt gljúfur sem eldgosið bræddi. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson 12. okt. 1996.

Breytingar á afkomu jökla á Íslandi stjórnast fyrst og fremst af tveim þáttum loftslags:

  • lofthita að sumri
  • úrkomu að vetri

Svo langt aftur í tímann sem íslenskt veðurlag er þekkt hefur sumarhitinn hrifið miklu meira á jökla en vetrarúrkoman. Þess vegna má ljóst vera að sumarhitinn veldur mestu um hvort jöklar hér á landi færast í aukana eða minnka.

Ýmislegt annað en loftslagsþættir hefur áhrif á afkomu jökla hérlendis:

  • eldgos sem bræðir jökulinn skyndilega
  • jarðhiti sem bræðir jökulinn jafnt og þétt
  • lón þar sem jökullinn flýtur upp
  • aurkápa sem hlífir jöklinum við geislun og lofthita

Eldgos verða undir jöklum hér á landi að jafnaði u.þ.b. tíu sinnum á öld. Oft bráðnar þá jökulís í gífurlegu magni (mynd 1). Í stórgosi í Kötlu getur allt að tuttugasti hluti Mýrdalsjökuls bráðnað. Jökullinn kemst þá ekki í samt lag fyrr en eftir áratugi.

Jöklar liggja víða yfir jarðhitasvæðum sem bræða jökulísinn án afláts neðan frá. Við það myndast dæld í jökulinn yfir jarðhitanum (mynd 2) og í mörgum tilvikum veldur slíkt jökulhlaupum.

Sigkatlar í Vatnajökul
sigkatlar í jökli
Mynd 2. Sigkatlar í Vatnajökul austan við Pálsfjall. Jarðhiti er þar undir jöklinum og bræðir ís, sí og æ. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson 8. október 2003.

Þar sem jökull liggur út í lón og kemst á flot brotna oft stórir jakar og bráðna í lóninu (mynd 3). Allt sem lónið bræðir af jöklinum leggst við það sem loftslagið bræðir og getur það verið verulegt magn eins og dæmi er um við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
loftmynd af skriðjökli og lóni með ísjökum
Mynd 3. Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Þar fljóta jakar sem brotnað hafa úr jöklinum er hann komst á flot. Það herðir á skriði jökulsins eins og sést er rendur í jöklinum ofan lónsins eru skoðaðar. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson 28. september 2002.

Aurkápur leggjast víða yfir jökul. Algengast er að því valdi grjóthrun á skálarjökla einkum á Norðurlandi (mynd 4). Víða geta skriður fallið á skriðjökla í dölum eða giljum og þakið yfirborðið, jafnvel svo ferkílómetrum skiptir.

Kvarnárjökull í Skíðadal í Svarfaðardal
jökull í gljúfri
Mynd 4. Þar sem jökull er hulinn einangrandi lagi svo sem grjóturð bráðnar ísinn miklu hægar. Kvarnárjökull í Skíðadal í Svarfaðardal hefur nánast ekkert styst á 20. öld þrátt fyrir mikil hlýindi. Hér sést ekki í hvítan ís nema efst, jökultungan er svört. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson 15. sept. 2003.

Oft sáldrast aska eða vikur úr eldgosum á jökulyfirborð. Ef gjóskulagið er mjög þunnt (einn mm eða svo) getur það brætt jökulinn hraðar en ella. Ef lagið verður 1 cm eða þykkara þá einangrar það jökulísinn frá lofthita og geislun og bráðnar hann þá ekki eins ört.

Upplýsingar um nýútkomna bók greinarhöfundar um jökla á Íslandi, Geographic names of Iceland's glaciers: Historic and modern, finnast í Gegni, samskrá íslenskra bókasafna.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica