Greinar
snæviþakið umhverfi, bleik birta
Úr vefmyndavél á Hveravöllum 22. nóvember 2007.

Árið 2007

Tíðarfarsyfirlit

Trausti Jónsson 3.1.2008

Árið var mjög hlýtt, það tíunda hlýjasta frá upphafi mælinga í Reykjavík, í Stykkishólmi og í Vestmannaeyjum. Á Akureyri var árið það fimmtánda hlýjasta og á Teigarhorni það sextánda hlýjasta en á öllum þessum stöðvum ná mælingar aftur á 19. öld.

Meðalhiti í Reykjavík var 5,5 stig og er það 1,2 stigum hlýrra en í meðalári og tólfta árið í röð með hita ofan meðallags. Hlýrra var árin 2003, 1941, 1939, 1945, 1933, 1964, 1960, 1946 og 2004.

Meðalhitinn á Akureyri var 4,5 stig og er það 1,2 stigum yfir meðallagi, eins og í Reykjavík, og níunda árið í röð með hita ofan meðallags. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,8 stig og er það 1,3 stigum ofan meðallags og tólfta árið í röð með hita ofan meðallags. Sömu ár voru hlýrri í Stykkishólmi og í Reykjavík.

Hitafrávik mánaða 2007
línurit
Mynd 2. Hitafrávik einstakra mánaða á árinu 2007. Miðað er við tímabilið 1961-1990. Blái ferillinn sýnir meðalfrávik 12 veðurstöðva um land allt, sá rauði frávik Reykjavíkur og sá græni frávik Akureyrar.
Aftur upp

Meðalhiti í Bolungarvík var 4,0 stig (1,1 yfir meðallagi), á Raufarhöfn var hann 3,4 stig (1,4 yfir meðallagi), á Dalatanga 4,6 stig (1,1 yfir meðallagi), 5,4 stig á Kirkjubæjarklaustri (0,9 stigum yfir meðallagi) og 5,9 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (1,1 stigi yfir meðallagi), 4,0 stig á Egilsstöðum (1,1 yfir meðallagi) og 0,3 stig á Hveravöllum (1,4 stigum yfir meðallagi).

Hiti var í eða yfir meðallagi flestalla mánuði ársins (sjá mynd 2), maí var kaldastur að tiltölu í Reykjavík en apríl og júlí hlýjastir. Á Akureyri voru apríl og mars hlýjastir að tiltölu en maí kaldastur.

Úrkoma var óvenjumikil á mestöllu Suður- og Vesturlandi. Árið er það næstúrkomumesta frá upphafi mælinga, bæði í Stykkishólmi og í Reykjavík.

Úrkomumælingar mega heita samfelldar í Stykkishólmi frá 1857, nú mældust þar 1043 mm (48% umfram meðallag), en mest var úrkoman árið 1933, 1187 mm, þannig að nokkuð vantaði á metið.

Í Reykjavík hófust úrkomumælingar 1884, en féllu niður að mestu á árunum 1907 til 1920. Á nýliðnu ári mældist úrkoman í Reykjavík 1125,4 mm (41% umfram meðallag), mest mældist ársúrkoman 1291 mm árið 1921. Ársúrkoman er einnig í öðru sæti í Vestmannaeyjum, en þar mældist úrkoma meiri 1984.

Úrkomuhlutfall einstakra mánaða 2007
súlurit
Mynd 3. Úrkoma í Reykjavík (bláar súlur) og á Akureyri (rauðar súlur) sem hlutfall af meðalúrkomu 1961-1990. Sé hlutfallið stærra en 1 hefur úrkoman verið yfir meðallagi. Sjá má að úrkoman í Reykjavík var meir en tvöföld meðalúrkoma í september, október og desember og að nærri engin úrkoma mældist í júní á Akureyri.
Aftur upp

Úrkomumagn þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að fádæma þurrt var langt fram eftir sumri á mestöllu landinu. Norðaustanlands var úrkoma hins vegar nærri meðallagi þegar litið er á árið í heild, 493 mm á Akureyri, en meðaltalið er 490 mm.

Úrkomutíð stóð samfellt á Suður- og Vesturlandi frá því í ágúst og til ársloka. Úrkoma síðustu fimm mánuði ársins hefur aldrei mælst meiri í Stykkishólmi (mælt frá 1857) og í Reykjavík, mun meiri en nokkru sinni áður á sama tímabili (mælt samfellt frá 1921 og einnig 1885 til 1906). Sömuleiðis í Vestmannaeyjum en þar eru mælingar samfelldar frá 1881.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri voru 173 á árinu 2007 í Reykjavík og er það 25 dögum umfram meðallag. Úrkoma var 1 mm eða meiri í 82 daga á Akureyri, það er 21 undir meðallagi.

Sólskinsstundafrávik 2007
súlurit
Mynd 4. Sólskinsstundafrávik í Reykjavík (bláar súlur) og á Akureyri (rauðar súlur). Óvenjumikið sólskin var í Reykjavík í febrúar og einnig í maí, auk þess sem júní til ágúst voru einnig sólríkir mánuðir. Sólarlítið var í maí á Akureyri enda norðanáttir ríkjandi. Tiltölulega sólarlítið var í Reykjavík í rigningunum í september.

Árið var sólríkt í Reykjavík, sólskinsstundirnar mældust 1509, eða 240 umfram meðallag, og er árið það 10. í röð með fleiri sólskinsstundum en í meðalári 1961-1990. Árið er hið áttunda sólríkasta frá upphafi samfelldra sólskinsmælinga 1923. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1058. Það er 13 stundum umfram meðallag.

Lengst af var snjólétt á árinu. Alhvítir dagar í Reykjavík reyndust 43 eða 12 dögum færri en í meðalári 1961 til 1990.

Aftur upp

Útgildi ársins

Hæsti hiti ársins mældist á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi í Biskupstungum 9. júlí, 24,6 stig. Daginn áður mældist hæsti hiti á mannaðri stöð á sama stað, 24,1 stig.

Lægsti hiti ársins mældist á sjálfvirku stöðinni í Svartárkoti 16. janúar, -29,8 stig, sama dag mældist lægsti hiti á mannaðri stöð -26,2 stig í Möðrudal.

Sólarhringsúrkoma á mannaðri veðurstöð mældist mest í Kvískerjum í Öræfum 28. september, 157,0 mm. Hafa ber í huga að upplýsingar eru enn að berast um úrkomumælingar og nokkur bið er á vinnslu sjálfvirkra úrkomumælinga. Rétt er að benda á fróðleikspistil um óvenjulega úrkomu við Ölkelduháls.

Rafmagnstruflanir og ísingarvandi hafa mikil áhrif á vindhraðamælingar og nokkur tími líður þar til yfirferð athugana er lokið þannig að hægt verði að úrskurða um hámarksvindhraðamælingu ársins.

Einstakir mánuðir - lauslegt yfirlit

Janúar var umhleypingasamur mánuður og snjór meiri suðvestanlands en verið hefur í nokkur ár. Mikið kuldakast gerði dagana 6. til 20. en mánaðarmeðalhitinn var samt nærri meðallagi. Tíð var víðast mjög hagstæð í febrúar, mjög snjólétt um mikinn hluta landsins og færð með besta móti. Óvenjusólríkt var um sunnan- og vestanvert landið og úrkomudagar óvenjufáir. Tíðarfar í mars var fremur órólegt, var þó lengst af hagstætt til landsins en til sjávarins var gæftalítið og tíðin talin slæm. Samgöngutruflanir á heiðarvegum voru með tíðara móti sökum illviðra en snjór var með minna móti í lágsveitum miðað við árstíma. Þrálát snjóflóðahætta var norðan til á Vestfjörðum þótt snjór væri ekki mikill að magni til.

Tíðarfar var almennt hagstætt í apríl, en hans verður einkum minnst fyrir tvær óvenjulegar hitabylgjur. Sú fyrri varð um landið austanvert í byrjun mánaðarins og komst hiti þann 3. í 21,2 stig í Neskaupstað. Hiti hefur ekki mælst hærri svo snemma árs. Síðari hitabylgjan gekk yfir mikinn hluta landsins síðustu daga mánaðarins. Landshitamet aprílmánaðar féll þann 29. þegar hiti komst í 23,0°C á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi í Öxarfirði og í 21,9°C á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal. Hvoru tveggja er met í sínum stöðvaflokki. Hitamet féllu mjög víða á einstökum veðurstöðvum.

Mjög hlýtt var fyrstu dagana í maí en annars var mánuðurinn kaldur og snjóaði víða, m.a. sunnanlands í síðustu viku mánaðarins og er það mjög óvenjulegt.

Júni var hlýr og þurr víðast hvar á landinu. Hlýjast að tiltölu var á Vestfjörðum þar sem hiti var meir en þremur stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Vegna sífelldra flutninga veðurstöðva er heldur óhægt um samanburð, en mánuðurinn er samt annar eða þriðji hlýjasti júní frá upphafi mælinga á þessum slóðum um aldamótin 1900. Mjög þurrt var á landinu, fádæma þurrt norðaustanlands og hefur aldrei mælst jafnlítil úrkoma í júní á Akureyri og nú, en þar mældist mánaðarúrkoman aðeins 0,4 mm.

Sumardagur í Skaftafelli
Sumardagur í Skaftafelli.
Mynd 5. Júnímánuður árið 2007 var hlýr og þurr víðast hvar á landinu. Hér njóta íslensk landnámshænsn veðurblíðunnar framan við gamla bæinn í Skaftafelli 24. júní.
Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.
Aftur upp

Júlímánuður var mjög hlýr um landið sunnan- og vestanvert, hiti var í ríflegu meðallagi víðast fyrir norðan en við austur- og suðausturströndina var hitinn nærri meðallagi. Óvenjuþurrt var um mikinn hluta landsins mestallan mánuðinn, jafnvel svo að gróðri hrakaði og vatnsból þornuðu. Mestir voru þurrkarnir inn til landsins á Vesturlandi, víðast hvar á vestanverðu Norðurlandi austur til Eyjafjarðar og sums staðar á Vestfjörðum. Einnig var óvenjuþurrt í Hornafirði og sums staðar sunnan til á Austfjörðum þar til allra síðustu daga mánaðarins. Mest var úrkoman að tiltölu norðan til á Austfjörðum en náði þó ekki meðalúrkomu að magni til.

Júlí var sá næsthlýjasti sem komið hefur í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, hlýrra varð 1991, meðalhiti í júlímánuðunum 1936, 1939 og 1944 er þó ekki marktækt lægri en hitinn nú. Flutningar Veðurstofunnar um bæinn auka á óvissuna. Séu mánuðirnir júní og júlí teknir saman er jafnhlýtt nú og var sömu mánuði árið 2003, hvoru tveggja hlýrra en dæmi eru annars um frá upphafi mælinga. Þetta var 12. júlímánuðurinn í röð með hita yfir meðallagi í Reykjavík. Í Stykkishólmi voru júní og júlí saman þeir hlýjustu frá 1933 og þar með næsthlýjastir frá upphafi, munur er þó vart marktækur.

Í Reykjavík mátti heita þurrt frá 10. júní til mánaðamóta júní/júlí og lítið rigndi fyrr en eftir 19. júlí. Á allmörgum stöðvum um norðvestanvert landið var mánaðarúrkoman innan við 10 mm og í beinu framhaldi af þurrum júní var sums staðar farið að gæta vatnsskorts. Einna óvenjulegastir virðast sumarþurrkarnir hafa verið um landið suðaustanvert, austan Öræfa, en úrkoma í júní til ágúst mældist aðeins 106 mm á Teigarhorni og hefur aldrei mælst minni frá upphafi mælinga 1873.

Í ágúst skipti rækilega um veðurlag, framan af mánuðinum var fremur þurrt en síðan hófust rigningar, einkum þó á Suður- og Vesturlandi. Næturfrost voru algeng á Suðurlandsundirlendinu en aðrir landshlutar sluppu mun betur. Mánuðirnir allir, september til desember, hafa verið óvenjuúrkomusamir um sunnan- og vestanvert landið en nyrðra þornaði eftir því sem á haustið leið, nóvember var t.d. einn hinn þurrasti sem þekkist á Akureyri. Úrkoma var yfir meðallagi á Akureyri í desember og metúrkoma víða um landið sunnanvert í þeim mánuði. Hiti hefur lengst af verið í ríflegu meðallagi síðari hluta ársins.

Tíð hefur verið mjög rysjótt og sérlega stormasamt eftir 20. nóvember. Mjög snjólétt hefur verið það sem af er vetri.

Aftur upp




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica