Greinar
háir snjóruðningar sitt hvoru megin vegar
Snjómokstri lokið undir Súðavíkurhlíð í apríl 2010.

Mesta snjódýpt á Íslandi

Íslensk veðurmet 6

Trausti Jónsson 4.10.2007

Mesta snjódýpt sem mælst hefur á Íslandi er 279 cm við Skeiðsfossvirkjun 19. mars 1995.

Vandamál við snjódýptarmælingar

Snjódýptarmælingar eru erfiðar hér á landi. Það er einkum tvennt sem kemur til.

  • Í fyrsta lagi er skafrenningur algengur. Hann veldur því að snjór er sjaldnast jafnfallinn og oft eru risavaxnar fannir innan um marauð svæði.
  • Í öðru lagi eru blotar algengir ofan í snjó en þeir flýta mjög umbreytingu snævarins í klaka. Sé klakinn mikill getur hann verið umtalsverður og illmælanlegur hluti snjódýptarinnar. Veðurathugunarmönnum er því oft vandi á höndum. Mjög er misjafnt eftir athugunarstöðvum hvernig snjóalög eru algengust. Auðveldast er að mæla snjódýpt á stöðvum þar sem vindur er tiltölulega hægur og snjór liggur án spilliblota.
  • Til viðbótar þessum erfiðleikum eru snjódýptarmælingar oft sérlega erfiðar þegar mjög mikill snjór er á jörðu. Þá geta athugunarmenn átt erfitt með mælingarnar og dýptin er þá oft talin í heilum tugum sentimetra.

Upphaf snjódýptarmælinga

Fyrstu reglulegu snjódýptarmælingarnar voru gerðar hér á landi upp úr 1920. Mælingar voru aðeins gerðar á fáum stöðvum í byrjun og þó þeim hafi smám saman fjölgað er mjög lítið um langar samfelldar mælingar. Í kjölfar snjóflóðahamfaranna 1995 hefur mjög aukin áhersla verið lögð á meiri og betri snjódýptarmælingar. Meðal annars hefur snjóstikum verið komið fyrir í nokkrum fjallshlíðum. Varla þarf að taka fram að snjór er þar víða mun meiri en á veðurstöðvunum, en staðhættir eru líka aðrir og ekki til samanburðar aðstæðum á veðurstöðvunum. Jöklar liggja líka yfir um tíunda hluta landsins og ofan á þeim eru stöku sinnum gerðar sérstakar snjódýptarmælingar sem ekki eru heldur til umfjöllunar hér.

Aftur upp

Veturinn 1994 til 1995

Veturinn 1994 til 1995 var mjög snjóþungur um stóran hluta landsins. Fram að þeim tíma hafði snjódýpt mælst mest á Hornbjargsvita. Það var 20. janúar 1974, 218 cm. Tvö eftirminnileg hríðarveður gerði veturinn 1995.

Hið fyrra var dagana 15. til 19. janúar og er kennt við Súðavíkursnjóflóðið. Þá snjóaði mjög mikið á Norðurlandi í vestanátt, sem er sjaldgæft, og lögðust miklar fannir á óvenjulega staði.

Frá Svínhóli í Miðdölum
varla hægt að komast milli húss og skafls
Snjóalög við útihús á Svínhóli í Miðdölum 23. mars 1995. Ljósmynd: Jón Gunnar Egilsson.

Einnig var óvenjumikil snjókoma ofan til í Borgarfirði og í Dölum. Seinni hríðin var 16. til 17. mars og má kannski nefna Svínhólsbyl, því þá lagði svo mikinn snjó að bænum Svínhól í Miðdölum að stórtjón varð af þrátt fyrir að reynt væri með hjálp stórvirkra vinnuvéla að halda snjó frá húsum meðan á hríðinni stóð. Sjálfsagt hefur einhver snjór úr fyrri byljum vetrarins verið á ferðinni.

En næstu daga á eftir féll Hornbjargsvitametið. Við Skeiðsfossvirkjun mældust 279 cm að morgni þess 19., 220 cm í Kálfsárkoti í Ólafsfirði þann 21. og 230 cm mældust í Hvannstóði í Borgarfirði eystra þann 18. Á þessum stöðvum var alhvítt allan mánuðinn og meðalsnjódýpt við Skeiðsfossvirkjun var 247 cm. Það er mesta meðalsnjódýpt sem vitað er um á veðurstöð hér á landi.

Afstöðumynd - Skeiðsfossvirkjun
skissa, hús og mælar
Skeiðsfossvirkjun. Afstöðumynd 8. ágúst 1972 er sýnir staðsetningu úrkomumælis (R) miðað við byggingar og landslag. Uppdráttur: Torfi Karl Antonsson.
Aftur upp

Snjódýptarmælingar í Reykjavík

Snjódýpt hefur verið mæld í Reykjavík að mestu samfellt frá 1921. Aðstæður til mælinga hafa þó verið misgóðar. Fram til 1945 var stöðin í gamla miðbænum. Fyrst við Skólavörðustíg, en síðan í Landsímahúsinu. Þó að á þessum tíma hafi snjóruðningar verið með öðrum hætti og minni en nú er má samt gera ráð fyrir því að oft hafi reynst erfitt að mæla snjódýpt við Landsímahúsið þegar snjór hafði legið á jörðu í nokkra daga. Snjóruðningar og traðk trufluðu einnig mælingar við flugvöllinn, en þar var mælt á árunum 1950 til 1973.

Greinileg ósamfella er í snjómælingunum við flutninginn að núverandi Veðurstofuhúsi. Hún kemur ekki fram í mælingum á mestu snjódýpt og varla heldur í mati á heildarsnjóhulu, en hins vegar virðist í eldri mælingum draga örar úr snjódýpt þegar snjórinn fer að liggja en gerir í mælireit Veðurstofunnar. Langsennilegasta skýringin er að traðk og umsvif hafi truflað á eldri mælistöðvunum. En þetta auðveldar ekki samanburð á snjóafari einstakra vetra á þessu 80 ára tímabili.

Snjódýptarmet í Reykjavík

Mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík er því miður ekki alveg á hreinu upp á dag og upp á sentimetra. Í margköflóttri sögu veðurstöðvarinnar var tímabil þar sem athuganir voru færðar í tvær bækur. Annars vegar hefðbundna veðurskeytabók en hins vegar í sérstaka dagbók þar sem eru ýmsar viðbótarupplýsingar. Þessi síðarnefnda bók gefur að öðru jöfnu betri og samfelldari upplýsingar um snjóhulu heldur en hin.

Svo bregður hins vegar við, þegar litið er á janúar 1937, að snjódýptarfærslur eru nokkuð óreglulegar. Fram kemur að alhvítt var fyrstu 20 daga mánaðarins og að kvöldi 20. gerði afgerandi hláku. Snjóhula er ekki gefin upp eftir það. Snjódýpt er tilfærð fyrstu tvo dagana en síðan ekki fyrr en 11., þá er hún ekki nema 3 cm. Þann 15. fór að snjóa að ráði og að morgni 17. mældist snjódýptin 25 cm. Síðan er snjódýpt næst tilfærð þann 20. og var hún þá 51 cm. Skeytabókinni ber saman, en þar má einnig sjá að snjódýpt var mæld þann 18. og þá 55 cm, að því er virðist.

Eitthvert hik hefur því miður verið á athugunarmanni því 55 virðast hafa verið skrifaðir ofan í 45. Og hvort er svo rétt? Er metið 51 cm þann 20. eða 55 cm þann18.? Sé litið nánar á úrkomumælingar og veður virðist aðalsnjókoman hafa verið 16. og 17. Samfelld snjókoma hófst að kvöldi fyrri dagsins og stóð í u.þ.b. sólarhring. Eins og kom fram að ofan var snjódýptin 25 cm þann 17., síðan mældist úrkoman næsta sólarhring 24 mm.

Ekki er því ótrúlegt að 50 cm múrinn hafi verið rofinn strax þann 18. og 55 cm séu því rétt tala og met. En reyndar snjóaði dálítið, bæði síðari hluta dags 18. og 19. Vindur var fyrst fremur hægur af suðaustri mesta snjókomudaginn, en síðan virðist mesti snjórinn hafa fallið í logni. Aðeins skóf síðari daga. Hiti var rétt við frostmark. Umferð nánast stöðvaðist og mjólkurskortur varð í bænum og í blöðum er talað um 50 til 60 sentimetra jafnfallinn snjó.

Mesta snjódýpt í einstökum mánuðum í Reykjavík

metár mánaðardagur cm
1 janúar 1937 18 55
2 febrúar 2017 26 51
3 mars 
1949 1 35
4 apríl
1989
1 32
5 maí 1987 1 17




9 september 1969 30 8
10
október 2013 8 13
11
nóvember 1978 24 38
12
desember 2015 4 44



Aftur upp




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica