Mesta úrkoma á Íslandi
Íslensk veðurmet 3
Í þessum texta er eingöngu fjallað um mælingar á mönnuðum veðurstöðvum. Sjálfvirkum mælingum fjölgar nú ört og er úrvinnsla þeirra hafin. Hærri gildi en nefnd eru hér að neðan hafa ekki fundist enn, en þar sem mælum er nú að fjölga í fjalllendi má búast við því að met af ýmsu tagi fari að bætast við. Sérstaklega verða upplýsingar um úrkomuákefð betri en verið hefur.
Kvísker 9. til 10. janúar 2002
Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi kom úr mælinum á Kvískerjum í Öræfum að morgni 10. janúar 2002. Úrkomusólarhringur nær yfir tímann frá kl. 9 morguninn fyrir mælingadag til kl. 9 mælingadags. Þetta voru 293,2 mm og jafngildir því að 293 lítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands sólarhringinnn næstan á undan. Meðan á þessu stóð var eindregin suðvestanátt ríkjandi á svæðinu, en stöðin er undir austurhlíðum Öræfajökuls. Úrkoman féll því á svæði sem að minnsta kosti var að hluta til í skjóli við fjallið. Þetta er ólíkt eldri metum (sjá neðar) þegar vindur stóð af suðaustri.
Vindmælingar á Fagurhólsmýri við suðurenda Öræfajökuls sýna að 10-mínútna meðalvindhraði var um 13 m/s í upphafi úrkomudægursins (eftir kl. 9 þann 9. janúar). Um kl. 15 fór vindur að vaxa og um kl. 19 var hann kominn upp í tæpa 20 m/s. Aðra hluta mælingatímans var vindhraði nærri 16 m/s.
Mynd af blaði úr sjálfvirkum úrkomurita sýnir að greinilegt samband er milli vindhraðans á Fagurhólsmýri og úrkomuákefðarinnar í Kvískerjum. Ákefðin er stríðust þegar vindhraðinn er mestur, á tímabilinu frá um kl. 16 til 19.
Aftur upp
Næsthæstu gildin
Þann 1. október 1979 voru 242,7 mm í úrkomumælinum á Kvískerjum. Litlu minni úrkoma mældist að morgni 28. febrúar 1968, 233,9 mm á Vagnsstöðum í Suðursveit og 228,4 mm á Kvískerjum. Úrfellið 1979 var tiltölulega takmarkað við suðaustanvert landið og má geta þess að morguninn þegar metið féll á Kvískerjum mældust aðeins 14,8 mm í Skaftafelli. Hins vegar mældust 103,9 mm á Fagurhólsmýri sem er óvenjumikið á þeirri stöð (þó ekki það mesta). Á Vagnsstöðum í Suðursveit mældust 116,2 mm.
Úrfellið 1968 náði hins vegar alveg vestur á land, snjór var á jörðu og asahláka. Óvenjulegir vatnavextir urðu því sunnanlands, Ölfusá flæddi yfir bakka sína og í hús á Selfossi, mikil flóð voru í Borgarfirði og Gvendarbrunnar við Reykjavík menguðust af yfirborðsvatni. Þá mældist sólarhringsúrkoman á Hveravöllum 142,8 mm og er það langmesta úrkoma sem mælst hefur þar.
Eldra met
Aðeins í örfá skipti hefur úrkoma mælst yfir 200 mm á sólarhring hér á landi. Fyrir 1968 stóðu 215,8 mm sem met. Það var sett í Vík í Mýrdal á annan dag jóla 1926. Úrkomumagn sólarhrings er ætíð miðað við athugun kl. 9 að morgni. Svo vildi hins vegar til í Vík að það byrjaði að rigna kl. hálf tólf (að þáverandi ísl. miðtíma) að kvöldi 25. Um morguninn voru 122,5 mm komnir í mælinn. Áfram rigndi linnulítið og kl. hálf tólf að kvöldi 26., sólarhring eftir að úrfellið hófst, mældi veðurathugunarmaðurinn úrkomuna aftur og höfðu þá 93,3 mm bæst við morgunathugun. Þetta met er því ekki alveg sambærilegt við önnur sem ætíð eru fengin með mælingunni frá kl. 9 til 9. Stöðin í Vík byrjaði að athuga 1925. Mikil skriðuföll urðu í þessu úrfelli og lá m.a. við að manntjón yrði þegar skriða féll á tvo bæi að Steinum undir Eyjafjöllum.
Aftur uppMesta mánaðarúrkoma
Haustið 2002 voru fádæma rigningar á Austurlandi. Þá mældist mesta mánaðarúrkoma á landinu á Kollaleiru í Reyðarfirði í október, 971,5 mm. Í sama mánuði mældist mánaðarúrkoman á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð 907,7 mm. Í janúar 2002, þegar sólarhringsmetið var sett, mældist úrkoman í Kvískerjum 905,3 mm. Mánaðarúrkoma hefur 11 sinnum mælst meiri en 700 mm á mönnuðum veðurstöðvum, þar af sex sinnum í Kvískerjum:
Stöð ár mán. úrkomusumma
- Kollaleira 2002 11 971,5 mm
- Hánefsstaðir 2002 11 907,7 mm
- Kvísker 2002 1 905,3 mm
- Neskaupstaður 2002 11 784,8 mm
- Kvísker 1979 10 772,2 mm
- Kvísker 2006 12 770,4 mm
- Kvísker 1965 10 768,9 mm
- Desjarmýri 2002 11 736,2 mm
- Kvísker 1975 11 713,3 mm
- Grundarfjörður 1993 11 702,1 mm
- Kvísker 2006 1 700,2 mm
Mesta úrkoma í einum mánuði í Reykjavík er 259,7 mm, það var í nóvember 1993.
Mesta ársúrkoma
Mest ársúrkoma á íslenskri veðurstöð mældist á Kvískerjum árið 2002, 4630,4 mm. Ákomumælingar á jöklum benda til mun meiri ársúrkomu þar en í byggð.
Aftur uppMesta sólarhringsúrkoma í Reykjavík
Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í Reykjavík var 5. mars 1931, 56,7 mm. Þann 3. mars fór að snjóa í vaxandi austanátt og gerði blindhríð. Að morgni þess 4. var snjódýpt orðin 30 cm. Af blaðafregnum að dæma skapaðist vandræðaástand í bænum. Morgunblaðið segir að enginn hafi fundist til að koma blaðinu til Hafnarfjarðar. Síðdegis hvessti enn frekar og fór að rigna. Allt hljóp í foráttuslabb og að sögn varð ekki komist um bæinn fótgangandi nema á hnéháum stígvélum. Miklar síma- og rafmagnsbilanir urðu vegna ísingar á línum.
Að morgni 5. var enn 22 cm snjódýpt, en daginn eftir ekki nema 7 og ekki lengur alhvítt. Þess má geta að þessi úrfellis- og ófærðarkafli var endir á óvenjulöngum köldum kafla. Í febrúar var alhvítt alla daga nema einn í Reykjavík, þó snjór yrði aldrei mikill fyrr en í upphafi úrfellisins. Frost voru hörð og var 17 cm ís á Reykjavíkurhöfn 2. mars. Eftir þetta skánaði tíð og var ekki mikill snjór það sem lifði vetrar þótt áfreðasamt væri talið víða.
Óvissa úrkomumælinga
Margt er það sem gerir úrkomumælingar óvissar. Hér skulum við láta alla þá óvissu liggja milli hluta að öðru leyti en því að á árunum 1948 til 1964 voru svonefndar vindhlífar settar á íslenska úrkomumæla. Áhrif þeirra eru einkum talin koma fram í því að snjókoma skili sér ívið betur í mæli með hlíf en án hennar. Flest bendir þó til þess að allmikil úrkoma, bæði í föstu formi og fljótandi, sleppi framhjá mælunum. Þessi vindhlífauppsetning gerir það að verkum að mælingar fyrir og eftir hlíf eru e.t.v. ekki alveg sambærilegar. Höfum það í huga.
Síritandi og sjálfvirkir mælar
Síritandi úrkomumælar voru þar til nýlega mjög fáir á landinu og upplýsingar um úrkomuákefð eru þess vegna frekar af skornum skammti. Fjölmargir mælar skrá nú uppsafnaða úrkomu á 10 mínútna fresti allt árið um kring, þannig að á næstu árum mun vitneskja okkar um þennan þátt veðurfarsins aukast að mun.
Demba í Reykjavík
Nokkrar dembur hafa þó fallið í eldri úrkomusírita og hér er rétt að geta óvenjumikillar dembu sem gerði í mæla Veðurstofunnar að kvöldi 16. ágúst 1991. Ekki var þá langt síðan veðurratsjá stofnunarinnar hafði verið tekin í notkun og síðdegis þennan dag kom fremur fyrirferðarlítið ský inn á sjána úr suðsuðaustri og stefndi á ströndina suður og vestur af Selvogi.
Skemmst er frá því að segja að skýið fór yfir Bláfjallasvæðið, Reykjavík og til norðurs, skammt vestur af Akranesi. Mikið úrfelli gerði á litlu svæði í Reykjavík svo frárennsli hafði ekki undan og vatn komst í allmarga kjallara, einkum í námunda við Hlemm. Fyrir tilviljum fór mesta demban því sem næst nákvæmlega yfir Veðurstofuna. Vestast í bænum og austan til rigndi mun minna og ekkert tjón varð þar.
Smáskúrir hafði gert fyrr um daginn, en kl. 21:30 byrjaði skyndilega að hellast úr lofti og þegar úrkomunni lauk kl. 23:40 höfðu, samkvæmt síritanum, fallið 21,2 mm. Klukkustundina frá 21:30 til 22:30 féllu 18,2 mm, hálftímann frá 21:30 til 22:00 13,2 mm, tuttugu mínúturnar frá 21:50 til 22:10 10,4 mm, frá 21:50 til 22:00 féllu 7,2 mm og fimm mínúturnar 21:55 til 22:00 féllu 4,7 mm. Taka verður fram að ekki er víst að klukkan í síritanum hafi verið nákvæmlega rétt og gæti hæglega skeikað 5 til 10 mínútum. Sömuleiðis er ætíð aðeins álitamál hversu nákvæmur aflesturinn er, en varla skeikar miklu.
Hér að ofan var skipt milli tímabila á heilum 10 mínútum. Hæstu 10 mínúturnar hafa væntanlega verið lítillega hærri en áðurnefndir 7,2. Sökum gagnaskorts er óvíst hversu algengar svona dembur eru hér á landi, en fráleitt er að sú mesta hafi einmitt fallið á Veðurstofunni. Í þrumuveðri í júlí 1998 féll geysimikil úrkoma í Stíflisdal og mældist heildarúrkoma dagsins 43,2 mm. Veðurathugunarmaður segir í athugasemdum að mestur hluti úrkomunnar hafi fallið á u.þ.b. 10 mínútum. Líklegt er að mestu dembur hér á landi komi einmitt í þrumuveðrum að sumarlagi.