Greinar
gamalt tímarit, forsíða
Forsíða Nýrra félagsrita 1849.

Brot úr 19. aldar tímariti

Gamall texti um veðurfar á Íslandi

Trausti Jónsson 25.9.2007

Textinn hér að neðan birtist fyrst sem hluti af greininni Um jarðirkju á Íslandi, í Nýjum félagsritum, IX, s. 114-116 og er sennilega eftir Jón Sigurðsson forseta.

Um veðuráttu

Meginhluti lands vors liggur í millum 63ja og 66ta mælistigs norður-breiddar. Af því það liggur svo nærri norðurskauti jarðarinnar, snýr það aldrei vel við sólu, heldur falla geislar hennar jafnan skáreitis niður á það, og fyrir þá skuld nýtur það minni hita af þeim en önnur lönd, þau sem liggja nær miðbiki jarðar, þar sem sólargeislarnir falla beinna niður.

Það er hvervetna sjó umflotið og liggur millum strauma tveggja: annar þeirra kemur norðan úr Íshafinu og fer suður á millum Íslands og austurstrandar Grænlands, er hann kaldur mjög og flytur með sér hafísa mikla, ber það opt við að vindar reka þá austur úr honum, svo þeir berast að norðurströndum landsins, og fylgir þeim þá jafnan kuldi mikill. Annar straumur kemur suðvestan úr hafi, og fer norður millum Norvegs og austurstrandar Íslands, og svo norður í Íshafið. Það er hlýrri sjór og flytur með sér hita frá suðurhöfum, og á hann mestan þátt í því, að hvergi á jörð vorri er jafnhlýtt land svo norðarlega, sem Norvegur er. Báðir þessir straumar hafa töluverð áhrif á loptslag og veðuráttu Íslands, en þó með þeim mismun, að annar spillir en hinn bætir. Það, að land vort er sjó umflotið, veldur því, að miklu minni er þar munur á sumarhita og vetrarhita, en í öðrum löndum, sem liggja mörg saman. Það eru einkum tveir eiginleikar sjáfarins sem valda þessu, sá er fyrst, að sjórinn hitnar ekki svo fljótt á sumrum sem þurlendið, á sama hátt kólnar hann og lángtum seinna á haustum; sá er annar, að hann er ókyr og streymir jafnan úr einum stað í annan; með því móti dreifir hann eður jafnar úr hita þeim eður kulda, sem hann hefur hlotið á einhverjum stað; af þessu kemur það, að í kríngum Ísland er hann kaldari en landið á sumrum, en heitari um vetur. Loptið hvílir á yfirborði hans, og vermir hann það á vetrum en kælir á sumrum, og finnum vér merki þess þegar það blæs á landið.

Það er eitt eðli lands vors, að það er vogskorið mjög, og eykur það áhrif sjáfarins.

Það er kunnugt, að Ísland er fjöllótt mjög, og að hin hæstu þeirra eru jafnan klædd jökulhjálmum, en sá búningur þeirra er minna til gagns en prýði, og er á sumrum að þeim kuldi töluverður, því þau binda mikinn hita, sem gengur til að þýða snjóinn af þeim og eyðist hitinn á þann hátt.

[...] Auk áhrifa þeirra, sem jöklarnir hafa á hitann, gjöra og fjöllin yfirhöfuð mikið að verkum, og efni þau, sem jarðvegurinn hefir í sér, að svo miklu leyti sem þau eru misjafnlega gljúp að taka við hita af sólarljósinu og að kólna aptur: grjót og sandar hitna fljótt og meira en önnur jörð, en kólna einnig fljótar aptur en votlendið, sem lengur er að hitna. Af þessum orsökum er landið kaldara á sumrum, heldur en ef það væri þurt og sendið graslendi. ...





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica