Greinar
þrír hitamælar standa upp úr vel hirtri grasflöt
Jarðvegshitamælar í reit Veðurstofu Íslands í Reykjavík 11. maí 1994.

Jarðvegshitamælingar

Veður í jarðvegi

Trausti Jónsson 27.9.2007

Jarðvegshitamælingar gefa upplýsingar um varmaeiginleika jarðvegs og orkuskipti hans við yfirborð og dýpri jarðlög. Upplýsingar fást til dæmis um það hversu djúpt frost fer í jörðu á vetrum og þann tíma sem jörð er frosin.

Vitneskja um jarðvegshita er mikilvæg í landbúnaði og rannsóknum honum tengdar, en einnig í vatnafræðilegu samhengi því frost í jörðu hefur áhrif á afrennsli, rakagleypni jarðvegs og snjóbráðnun. Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) mælir með því að hiti sé mældur á 5, 10, 20, 50, 100 og 150 cm dýpi. Séu mælingarnar gerðar í vatna- eða veðurfræðilegum tilgangi er mælt með því að jarðvegurinn sé náttúrulegur, þ.e. honum hafi ekki verið raskað af mannavöldum, en það á auðvitað sjaldnast við sé ræktunarlegur tilgangur með mælingunum. WMO mælir einnig með því að mælipunktar séu að minnsta kosti tveir á hverri stöð vegna hins mikla breytileika yfirborðsins.

Hér á landi hafa jarðvegshitamælingar verið gerðar um langa hríð, fyrir 1960 þó mjög stopult. Mælingarnar hafa oftast verið í tengslum við landbúnaðarrannsóknir, en á síðari árum hafa almennari mælingar einnig verið gerðar. Nú er algengast að mælt sé í fjórum dýptum, 10, 20, 50 og 100 cm. Ekki er það þó algild regla.

Línurit sem sýna reglubundnar mælingar sjálfvirkra stöðva hérlendis viku aftur í tímann eru aðgengileg á síðum hverrar stöðvar til dæmis á Korpu við Reykjavík og skýringar má finna á veðurathuganasíðu á eldri vef Veðurstofu.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica