Greinar

Veðurstikar - veðurkort

Trausti Jónsson 31.8.2007

Veðurstikar, veðurþættir

Í daglegu máli er orðið "veður" notað sem safnheiti yfir hita, vind, ský, úrkomu o.s.frv. Öll þessi atriði eru oftast kölluð veðurþættir eða veðurstikar (e. weather element, weather parameter). Sumir veðurstikar eru mælanlegir (t.d. hiti, vindur og loftþrýstingur), en aðrir eru háðir skynmati eða hafa alla vega til skamms tíma verið það (t.d skyggni eða tegundaflokkun skýja).

Stigstærðir

Mælanlegu stikarnir skiptast í nokkra flokka, flestir þeirra eru svokallaðar stigstærðir (e. scalar), hverri mælingu á stigstærð fylgir ein tala ásamt viðeigandi mælieiningu og ekkert annað (t.d. hiti eða loftþrýstingur). Margar stigstærðir eru samsettar, t.d. vindhraði (m/s = metrar á sekúndu), eða geislun (Wm-2 = Wött á fermetra).

Vigurstærðir

Sumir stikar eru svonefndar vigurstærðir, þær eiga bæði stig (stærð) og stefnu (auk mælieiningar). Vindur er ein þeirra, svokölluð iða (e. vorticity) er önnur. Athuga má að þó vindur sé vigurstærð er vindhraðinn einn og sér stigstærð. Kraftar þeir sem verka á loftið eru vigurstærðir, toga í eða þrýsta á loftið bæði með stærð og ákveðna stefnu.

Hlutfallsstikar, mælitölur

Einnig koma stikar án mælieininga við sögu í veðurfræði, oftast er þá um hlutfallstölur að ræða, t.d. milli mismunandi krafta eða þá tegunda af orku, gjarnan nefndir mælitölur. Mælitölurnar eru oft kenndar við ákveðna menn í virðingarskyni. Oft má einnig sjá t.d. þrýsting eða eðlismassa ritaða sem hlutfall af stærðum stikanna við sjávarmál. Prósentur eru stundum notaðar sem mælieiningar á hlutfallsstikum, sem dæmi má nefna rakastig sem tilfært er í prósentum. Rakastigið er þá hlutfall rakaþrýstings (sem mældur er í hPa) af mettunarrakaþrýstingi (sem einnig er mældur í hPa) *100.

Svið, veðurkort

Bæði stigstærðir og vigurstærðir mynda svokölluð svið (e. field), við tölum um þrýstisvið, hitasvið, vindsvið o.s.frv. Tengsl sviðanna og þróun þeirra er eitt höfuðviðfangsefna veðurfræðinnar. Þeim fylgja öllum ákveðið landslag, þrýstingur er t.d misjafn frá einum stað til annars og auðvelt er að búa til kort sem sýnir þrýstinginn, hitann eða vindinn.

Jafngildalínur

Á kortin eru gjarnar dregnar jafngildalínur í gegnum þá staði sem hafa sömu sviðsgildi, sé um þrýsting að ræða tölum við um "jafnþrýstilínur" eða stytt í "þrýstilínur" (sjá mynd 2 hér að neðan). Þó gildi nær allra stika séu samfelld, má oft finna svæði þar sem þau breytast mjög hratt frá einum nálægum stað til annars.Við segjum að þar sé sviðið bratt, tölum um þrýstibratta eða bratta hitasviðsins, eftir því sem við á. Einnig er orðið stigull notað til að lýsa bratta og þá talað um mikinn hitastigul þegar átt er við að hitasviðið sé bratt eða mikinn þrýstistigul ef það er þrýstisviðið sem er bratt.

Fleiri landslagstengd orð eru einnig notuð yfir það sem sést á sviðskortum, hæðir, lægðir, hryggir, drög, söðlar, sömuleiðis hámörk eða lágmörk í sviðinu og geta þau ýmist verið staðbundin eða átt við stærri svæði.

Veðurkort

Oftast eru jafngildalínur sviðanna dregnar ofan í landakort og þannig verður veðurkort til. Er þá auðvelt að átta sig á því hvernig t.d. hiti eða þrýstingur dreifast á landsvæði. Sýni kortið ástandið við yfirborð jarðar heitir það grunnkort en sé leitað ofar í lofthjúpinn tölum við um háloftakort (hvoru tveggja er af mörgum gerðum). (myndir: 3 veðurkort af netsíðu)

Vindakort í flughæð 100 (FL100)
kort af Íslandi og hafsvæðinu í kring, kort með örvum
Mynd 1. Vinda- og hitaspá í flughæð 100 (10000 fet, um 3 km hæð). Sjá má reikni- og gildistíma neðst til vinstri. Vindsviðið er sýnt með vindfönum (vigurstærð), en hiti er markaður með jafnhitalínum (stigstærð). Takið eftir flaggfönunum yfir Íslandi, þar er spáð 50 hnúta vindi í þessari flughæð. Sjá einnig veðurvindáttir. Myndin er úr flugveðurspársafni á vedur.is.


Yfirborðsþrýstingskort auk hitadreifingar í 850hPa fletinum
kort af Atlantshafi með línum og litaflekkjum
Mynd 2. Þrýsti- og hitaspá, blanda af grunn- og háloftakortum. Reikni- og gildistímar eru neðst til vinstri Jafnþrýstilínur við sjávarmál (svartar) eru dregnar á kortið (grunnkort), en hiti í 850 hPa hæð (háloftakort um 1300 m) er markaður með litum. Hiti og þrýstingur eru stigstærðir. Staðbundin lágmörk í þrýstisviðinu eru merkt með L - þar er lægð, en hámark með H - þar er hæð eða háþrýstisvæði. Kortið er gert á sjálfvirkan hátt í tölvu. Ráða má í vindhraða og stefnu af þrýstilínunum, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn (að jafnaði). Af veðurspársíðu.


Vindaspá fyrir Norðvesturland
kort af norðurlandi með örvum
Mynd 3. Vindaspá. Reikni- og gildistímar neðst til vinstri. Hér er vindurinn sýndur bæði sem stefnuvigur (svartar örvar) og stigstærð er afmörkuð með litum, litamörkin svokallaðar jafnhraðalínur (e. isotach). Ef vel er að gáð má einnig sjá að lengd örvanna fer eftir vindstyrknum, en það er ekki mjög greinilegt. Örvarnar benda í þá átt sem vindurinn fer í. Á þessu korti eru örvar ekki teiknaðar þar sem vindhraði er minni en 4 m/s. (Sjá einnig veðurvindáttir).


Oft viljum við líka sjá lóðrétt þversnið gegnum lofthjúpinn. Ef sniðið sýnir aðeins breytileika veðurstika (t.d. hita, raka og vinds) yfir einum stað kallast það háloftarit (e. sounding), en (hálofta-) þversnið (e. vertical section) séu staðirnir fleiri í einu (þá oft í þvínæst "beinni" línu).

Sniði og hitafallandi

Lóðréttan breytileika má kalla "sniða" ("sniði" er karlkynsnafnorð), nafnið minnir á lóðrétt þversnið. Breytingu á vindi með hæð köllum við þá vindsniða (e. wind shear). Allra næst jörðu vex vindur með hæð, en þegar ofar kemur getur hann ýmist minnkað eða vaxið eftir því sem hærra er farið. Minnki vindur upp á við er gjarnan talað um öfugsniða (e. reverse shear).

Breyting á hita með hæð nefnist oftast hitafallandi (e. lapse rate), vandræðaorð sem hefur þó áunnið sér notkunarhefð, en öðru hvoru er þjálara að tala um hitasniða þegar fjallað er um hitabreytingar með hæð.

Úr Veðurbók Trausta Jónssonar

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica