Greinar

Næturfrost - dæmi

Trausti Jónsson 28.8.2007


Hér er fjallað um hita í Þykkvabæ aðfaranótt 18. ágúst 2007. Dægursveiflan þann 17. til 18. var um 16°C, í meira lagi að vísu. Allmörg dæmi eru þó um dægursveiflu vel yfir 20°C hér á landi í björtu veðri og hægum vindi. Raki í lofti dró úr dægursveiflunni í Þykkvabæ, eins og fjallað er um hér að neðan og sjá má dæmi um á mynd 1, þar sem snögglega hægir á hitafalli um kl. 24.

Hiti og daggarmark í Þykkvabæ.
línurit
Mynd 1. Hiti og daggarmark í Þykkvabæ 17. til 18. ágúst 2007. Mynd: Trausti Jónsson.


Hiti fellur úr 10°C niður í 1°C á þremur klukkustundum, frá kl. 21 til kl. 24, en þó dregur tímabundið á hitafallinu um klukkan 22:30 (1. brot, ör bendir á staðinn). Þá hægir mjög á hitafallinu er hiti nálgast daggarmark (2. brot verður í hallatölu bláa ferilsins). Brot (í hitafalli) af þessu tagi eru mjög algeng hérlendis, en í enn þurrara loftslagi hefði hitinn hæglega farið niður í -10°C undir morgun, í stað þeirra -2,9°C sem mældust lægst á stöðinni.

Hiti í Þykkvabæ.
línurit
Mynd 2. Hiti í 2 m hæð (blár ferill) og við jörð (rauður ferill) í Þykkvabæ 17. til 18. ágúst 2007. Hitasniði milli mælanna er sýndur sem grænn ferill. Mynd: Trausti Jónsson.


Þótt rakaþétting virðist ekki verða í hæð hitamælisins (2 m frá jörð, rakastigið fór aldrei í 100%) heldur daggarmarkið áfram að falla eftir brot 2.

Hitasniðinn er ýmist jákvæður eða neikvæður á þeim tíma sem myndin nær yfir. Þegar sól er hátt á lofti er hann neikvæður, (talinn svo þegar hiti er hærri við jörð en í 2 m hæð), mest um 6°C fyrir klukkan 11 um morguninn þann 17. Þá var alveg logn á stöðinni um stutta stund. Hitasniðinn er síðan um 3°C mestallan daginn fram til kl. 18.

Þegar sól hnígur til viðar minnkar munurinn og hann verður jákvæður frá því um kl. 19. Þá er orðið kaldara við jörð en í 2 m hæð. Síðan vex munurinn mjög ört og nær hámarki (tæp 6°C) um kl. 22:30. Þá virðist rakaþétting hefjast við jörð, dulvarmi byrjar að losna og smáhnik verður í lóðréttri hringrás á staðnum og svo virðist sem dulvarminn stöðvi hitafallið í 2 m hæð skamma stund (sjá einnig mynd 1). Síðan minnkar sniðinn og verður nokkuð stöðugur þar til undir morgun, líklega er þá orðið eins konar jafnvægi milli dulvarmaburðar upp á við og rakaþéttingarinnar. Þegar jafnvægið kemst á í kringum miðnættið verður annað brot í hitaferlunum, bæði við jörð og í 2 m hæð.

Rétt er að taka fram að ástæður brota í hitafalli geta verið margs konar og skýringin á þessu tilviki ekki endilega sú rétta. (Sjá einnig fróðleiksgreinina Næturfrost.)






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica