Íslensk eldfjöll
jarðlög
Öskulög úr Heklu (ljós) í jarðvegi við Eintúnaháls. Efra lagið heitir Hekla-S og það neðra H4..

Hekla

9.11.2017

Hekla hefur gosið 23 sinnum á sögulegum tíma og er þriðja virkasta eldstöðvakerfi landsins. Virkni Heklu hefur verið breytileg í tímans rás. Fyrir 9-7 þúsund árum gaus aðallega basískum hraungosum; tíminn frá 7-3 þúsund árum einkenndist af fáum stórum súrum sprengigosum (gasstyrkur súrrar kviku er hár sem veldur meiri sprengivirkni og gjóskumyndun); en síðustu þrjúþúsund ár hafa blandgos (hraun og gjóska) verið ríkjandi.

Efnasamsetning gosefna í Heklugosum breytist er líður á gos, þ.e. gosefni sem koma upp í byrjun goss hafa ekki sömu samsetningu og efni sem upp koma í lokin. Hve súr upphafsfasinn er virðist fara eftir því hve langt er á milli gosa. Þetta veldur því að gjóskulög frá Heklu eru oft tvílit, súra efnið sem kemur fyrst upp er ljóst og myndar ljósan botn og efnið sem kemur upp í lok goss er dekkra og myndar dökkan topp. 

Aðrar eldstöðvar á virknitopplistanum (Grímsvötn, Bárðarbunga, Katla) gjósa aðallega basískum gosefnum og sprengivirkni þeirra má að miklu leiti rekja til samspils vatns og kviku þar sem þær eru huldar jöklum. Gjóskan sem myndast í þeim gosum er svört eða mjög dökk. Gjóskulög úr Heklu eru auðþekkjanleg í jarðvegs- og setstafla og notuð sem leiðarlög m.a. við áætlun aldurs jarðmyndana.

Frekari fróðleik um eldstöðvarkerfið Heklu má finna á vefsjá íslenskra eldfjalla .

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica