Norræni skjaladagurinn 13. nóv.
Veðurstofa Íslands 90 ára
Norræni skjaladagurinn var haldinn laugardaginn 13. nóvember og var Þjóðskjalasafn Íslands með opið hús í frá kl. 11 til 15 í samstarfi við Veðurstofu Íslands sem hélt upp á 90 ára afmæli sitt á árinu.
Þema dagsins var Veður og loftslag undir slagorðinu Óveður í aðsigi?. Sýningin var vönduð og vel upp sett og verður sá hluti hennar sem birtist á vef Þjóðskjalasafns áfram aðgengilegur. Er þar fjölbreytt efni, m.a. frá Veðurstofunni.
Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður afhenti Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands, mynd af tveimur skjölum frá árinu 1919 og 1920 í tilefni af afmæli Veðurstofunnar og þátttöku hennar í norræna skjaladeginum (sjá mynd til hægri).
Eldra skjalið er frá Marineministeriet í Danmörku, dagsett 9. desember 1919, og þar kemur fram að veðurathuganir á Íslandi færast frá dönsku veðurstofunni til Íslendinga. Í yngra skjalinu, frá 27. janúar 1920, fer Stjórnarráðið þess á leit við forstöðumann Löggildingarstofu Íslands að stofan taki að sér veðurathuganir á Íslandi frá 1. janúar 1920. Í framhaldi af þessari skipan mála varð til á Löggildingarstofunni sérstök veðurfræðideild. Frá ársbyrjun 1925 var Löggildingarstofan lögð niður og veðurfræðideildin varð sérstök stofnun. Á miðju ári 1926 voru svo fyrstu lögin um Veðurstofu Íslands sett.
Björk Ingimundardóttir, sérfræðingur á Þjóðskjalasafni, flutti fyrirlesturinn Heimildir um veðurfar, náttúruvá og fleira og Guðrún Nína Petersen, veðurfræðingur á Veðurstofunni, flutti fyrirlestur sem hún kallaði Fljúgandi furðuhlutir og skemmtileg ský.
Sýningin í Þjóðskjalasafni var fjölbreytt. Sýnd voru nokkur veðurathugunartæki frá Veðurstofunni, meðal annars sólskinsstundamælir með blöðum og hitamælar í mælaskýli.
Á myndinni hér til hliðar má sjá sólskinsstundamæli og blöð frá Reykjavík árið 2009. Blöð hvers mánaðar eru bundin saman í búnt þar sem eitt blað þarf fyrir hvern dag. Sólin brennir raufar í blöðin og af þeim má lesa hvenær dagsins sólin skein og hversu lengi.
Sólskinstundamælar eru enn í notkun á fjórum veðurstöðvum á landinu.
Einnig voru sýnd gömul veðurathugunarblöð sem varðveitt eru á Veðurstofunni og slík blöð í Þjóðskjalasafni og önnur tengd og áhugaverð skjöl sem varðveitt eru þar.
Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.