Sameining stofnana
Gengið yfir jökulinn
1 2 3 4 5
fyrri

Sameining stofnana

Veðurstofan og Vatnamælingar

Í desember 2007 ákvað Alþingi að sameina starfsemi Vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands, hinnar eldri, í nýrri stofnun er sinnti verkefnum beggja þessara stofnana og myndi móta starfsemina með nýjum og heildstæðum hætti. Grunnur að henni var lagður með lögum nr. 70, 2008.

Veðurstofa hin eldri

Veðurstofa Íslands var stofnuð árið 1920 er Íslendingar tóku við umsjón veðurathugana af Dönum. Hún var deild í Löggildingarstofunni þangað til sú stofnun var lögð niður 1925. Árið eftir voru sett lög um Veðurstofu Íslands. Fyrstu árin var veðurspám dreift til símstöðva og þær hengdar upp almenningi til sýnis. Veðurfréttum hefur verið útvarpað með ýmsum hætti frá 1926 og Ríkisútvarpið hefur útvarpað veðurfréttum síðan það tók til starfa árið 1930.

Með aukinni flugumferð milli Evrópu og Ameríku í stríðslok fékk Veðurstofan það hlutverk að veita veðurþjónustu flugvélum sem millilentu hér á leið yfir Atlantshaf. Samningur þess efnis milli ríkisstjórnar Íslands og Alþjóða flugmálastofnunarinnar, ICAO, var gerður árið 1948 og er slíkur samningur enn í gildi. Rekstur sérstakrar flugveðurstofu hófst á Keflavíkurflugvelli árið 1952 og var hún starfrækt til ársins 1979. Veðurstofan flutti alla starfsemi sína í Reykjavík í nýtt húsnæði við Bústaðaveg árið 1973 en hafði fram að þeim tíma verið á ýmsum stöðum í borginni.

Saga Veðurstofu Íslands kom út árið 1999, um 400 síður með fjölda mynda. Þar er m.a. að finna lista yfir allar veðurathugunarstöðvar og veðurathugunarmenn til útgáfuárs.

Vatnamælingar

Áhugi manna á nýtingu vatnsafls til raforkuframleiðslu kviknaði á 19. öld og fyrsta mæling á vatnsrennsli í ám sem vitað er um á Íslandi var gerð 1881 af norskum jarðfræðingi, Amund Helland. Árið 1917 skipaði Alþingi nefnd sem vann álitsgerðir og lagafrumvarp um vatnamál er leiddi til setningar vatnalaga 1923.

Reglubundnar vatnamælingar hófust 1947 og voru lengst af undir stjórn Sigurjóns Rist (1947-1987). Árið 1967 urðu Vatnamælingar deild á Orkustofnun undir stjórn orkumálastjóra. Starfsmönnum vatnsorkurannsókna fjölgaði þá verulega og rannsóknarhluti stofnunarinnar efldist. Byrjað var að taka aurburðarsýni og jöklamælingar hófust um það leyti. Frá 1997 voru Vatnamælingar fjárhagslega sjálfbær eining og störfuðu samkvæmt verksamningum við orkufyrirtæki og opinbera aðila. Starfsmenn Vatnamælinga hafa á undanförnum árum unnið að kortlagningu flóða og flóðavöktun og verið í forystu fyrir alþjóðlegum verkefnum tengdum loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar.

Aftur upp





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica