Jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í yfirliti sem birt er mánaðarlega á vefnum (frá september 2024). Náttúruvársérfræðingur skrifar yfirlitið sem birt er í annari viku hvers mánaðar. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Mánaðaryfirlit

Jarðskjálftayfirlit - október 2024

Stærsti skjálfti mánaðarins var M5.0 að stærð í Bárðarbungu

  • Tæplega 2000 jarðskjálftar mældust í október. Flestir á Reykjanesskaga eða tæplega 670.

  • Stærsti skjálfti mánaðarins mældist M5.0 að stærð þann 6. október í Bárðarbungu.

  • Alls mældust fjórir skjálftar yfir M3.0 að stærð í Bárðarbungu.

  • Einn skjálfti af stærð M3.0 við Eldey

Alls mældust um 2000 jarðskjálftar á landinu í október. Á árinu 2024 hafa á bilinu 2000 - 5000 skjálftar mælst í hverjum mánuði á landinu, utan við Janúar 2024 þegar nærri 10.000 jarðskjálftar mældust. Því var jarðskjálftavirkni í október í minna lagi miðað við aðra mánuði á árinu. Stærsti skjálfti mánaðarins var M5.0 að stærð í Bárðarbungu. Alls mældust 13 jarðskjálftar sem voru M3.0 eða stærri. Fjórir þeirra voru voru í Bárðarbungu, einn við Eldey og aðrir þeirra fyrir norðan land á Kolbeinseyjarhrygg.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: Skjálfta Lísa

Reykjanesskagi

Á öllum Reykjanesskaga mældust um 670 jarðskjálftar í október. Virkni var mest á svæðinu nærri Trölladynjgu og Kleifarvatni, en áfram var skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli þótt hún hafi farið minnkandi frá því í september. Lítil jarðskjálftavirkni var á Sundhnúksgígaröðinni, líkt og í síðasta mánuði, en nokkrir smáskjálftar mældust þar flesta daga en alls urðu rúmlega 60 jarðskjálftar þar í mánuðinum.

Landris og kvikusöfnun í Svartsengi hélt áfram í október og hefur verið á stöðugum hraða allan mánuðin. Lítilsháttar breyting varð í hraða landriss um mánaðarmót september október þegar hægði örlítið á því. Nánari upplýsingar um jarðhræringar í Svartsengi og við Grindavík má finna í frétt á vef VÍ sem uppfærð er reglulega. Landris og kvikusöfnun í Svartsengi á stöðugum hraða | Fréttir | Veðurstofa Íslands

Hefðbundin virkni var annarsstaðar á Reykjanesskaga, t.d. á Reykjanesi og í Brennisteinsfjöllum.

Mýrdalsjökull

Jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli var býsna hefðbundin í október mánuði. Alls mældust 57 skjálftar þar og var sá stærsti M2.7 að stærð. Að meðaltali hafa 61 skjálftar mælst á svæðinu í hverjum mánuði árið 2024. Ekki varð vart við nein jökulhlaup eða leka jarðhitavatns undan jöklinum á vatnamælingastöðvum á svæðinu en nokkrir slíkir atburðir hafa mælst frá því að jökulhlaup varð í Skálm í lok júlí á þessu ári.

Grjótárvatn

Jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn á Vesturlandi hélt áfram í október en um 100 jarðskjálftar mældust í mánuðinum. Þar af voru fjórir yfir M2.0 að stærð, en sá stærsti var M2.4. Jarðskjálftar hafa mælst reglulega þarna síðan vorið 2021 og mest um 20 skjálftar mælst í mánuði þangað til í ágúst 2024 en þá mældust tæplega 80 skjálftar þar. Fjöldi jarðskjálfta á svæðinu hefur því ekki verið meiri á mánuði frá því að virknin byrjaði, en Veðurstofan setti upp nýjan jarðskjálftamæli á svæðinu í lok september 2024 sem jók getu jarðskjálftakerfisins til að nema smáskjálfta á svæðinu. Af þeim 100 jarðskjálftum sem mældust á svæðinu í október voru um 40 þeirra undir M1.0 að stærð. Áður en jarðskjálftamælirinn í Hítárdal var settur upp, mældust fáir skjálftar undir M1.0 að stærð vegna þess að jarðskjálftakerfið nam þá ekki. Aukin fjölda á skjálfta svæðinu er því ekki merki um breytta hegðun heldur vegna aukins fjölda jarðskjálftamæla.

Bárðarbunga

Rúmlega 70 jarðskjálftar mældust í mánuðinum í Bárðarbungu, þar af var stærsti skjálfti mánaðarins á landinu sem mældist M5,0 að stærð. Það er þriðji skjálftinn í Bárðarbungu sem er M5.0 eða stærri á árinu. Sá stærsti mældist í apríl og var M5.4 en annar M.50 skjálfti mældist í september. Um 20 smáskjálftar (<M1.0), flestir á 15-20 km dýpi, urðu skammt austan við Bárðarbunguöskjuna. Virkni á því svæði er algeng en sveiflast á milli mánaða, en fáir skjálftar mældust þar í september en rúmlega 40 skjálftar í ágúst.

Askja

Í Öskju mældust um 100 jarðskjálftar í mánuðinum. Síðustu sjö mánuði hafa um og yfir 100 skjálftar mælst í hverjum mánuði en mánuðina þar áður mældust færri skjálftar eða um 50 í hverjum mánuði. Stærsti skjálftinn í síðasta mánuði var M2.4 að stærð í sunnanverðu Öskjuvatni.Landris, sem hefur verið í gangi síðan sumarið 2021, heldur áfram í Öskju en þó á minni hraða síðan haustið 2023.

Suðurlandsbrotabeltið

Tvær litlar jarðskjálftahrinur urðu á Suðurlandsbrotabeltinu í mánuðinum. Sú fyrri var dagana 8. og 9. október þegar rúmlega 20 smáskjálftar urðu skammt norðan við Villingaholtsvatn. Sú seinni varð dagana 30. og 31. október í Þrengslunum á vesturenda brotabeltisins. Um 60 jarðskjálftar mældust þessa tvo daga, flestir undir M1.0 að stærð.

Hengill

Rúmlega 60 jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu í mánuðinum. Stærsti skjálftinn var M2.6 í Hverahlíð og bárust tilkynningar um að íbúar í Hveragerði hafi orðið vör við skjálftann.

Torfajökull

Rúmlega 20 jarðskjálftar mældust í Torfajökli, sá stærsti M2.7 í vestanverðri Torfajökulsöskjunni. Nokkuð var um lágtíðni jarðskjálfta í mánuðinum sem erfitt var að staðsetja innan Torfajökulsöskjunnar. Áður hafa komið tímabil þar sem fjöldi lágtíðni skjálfta mælist á svæðinu, m.a. í nóvember 2021. Einnig mældist tímabundið landris á svæðinu sumarið 2023.

Vatnajökull

Óvenjuleg hrina varð dagana 24.-26. október við jaðar Síðujökuls sem gengur úr suðvestanverðum Vatnajökli, en þá mældust 11 smáskjálftar á um 8 - 9 km dýpi. Vanalega er lítið um skjálftavirkni á þessum slóðum.

Rúmlega 40 jarðskjálftar mældust austan við Hamarinn í Vatnajökli. Þar af voru 5 yfir M2.0 að stærð og sá stærsti M2.9 þann 27. október.

Öræfajökull

Tíu jarðskjálftar mældust í Öræfajökli í október, þar af var stærsti skjálftinn M2.1 sem er eini skjálftinn yfir M2 í Öræfajökli á árinu.

Geysir

Laugardaginn 19. október tilkynntu landverðir Umhverfisstofnunar um óvenjuleg aukningu í hveravirkni á Geysissvæðinu í Haukadal. Flestir hverir urðu kröftugri og vatnborð í þeim hækkaði. Engar breytingar sáust á mælum Veðurstofunnar sem skýra þessa virkni.






Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica