Vikulegt jarðskjálftayfirlit

Jarðskjálftavirkni á öllu landinu er lýst í vikuyfirliti sem birt er á vefnum. Náttúruvársérfræðingur á vakt skrifar vikuyfirlitið sem birt er á þriðjudögum. Þar er farið yfir virkni vikunnar á öllum jarðskjálftasvæðum og í eldstöðvarkerfum á landinu. Ef jarðskjálftahrinur eru í gangi, stærri skjálftar eða aðrir markverðir atburðir hafa orðið í vikunni er fjallað sérstaklega um það.

Vikuyfirlit

vika47_mynd

Jarðskjálftayfirlit 20. - 26. nóvember 2023 (Vika 47)

Rúmlega 4800 jarðskjálftar mældust í vikunni og þar af hafa rúmlega 600 verið yfirfarnir. Áframhaldandi virkni er á Reykjanesskaganum vegna kvikugangs sem myndaðist þann 10. Nóvember, nærri Grindavík. Skjálftavirkni og innflæði tengt kvikuganginum fer þó hægt minnkandi. Landris sem hófst á ný við Svartsengi eftir að kvikugangurinn myndaðist heldur áfram og hefur risið um ca. 18 cm á GPS stöð í Skipastígshrauni, en í kjölfar þess að kvikugangurinn myndaðist 10. Nóvember seig stöðin þó um rúma 40 cm. Nánar er fjallað um jarðhræringarnar nærri Grindavík í frétt á forsíðu sem er uppfærð reglulega.


Lesa meira

Jarðskjálftayfirlit 46. viku 15. - 22. nóvember 2023

Rúmlega 12000 skjálftar mældust á landinu í viku 46. Þar af er búið að yfirfara um 1350 skjálfta. Áframhaldandi virkni er á Reykjanesskaganum vegna kvikuinnskots sem myndaðist þann 10. Nóvember, nærri Grindavík. Skjálftavirkni og innflæði tengt kvikuganginum fer þó hægt minnkandi. Hafa ber þó í huga að innflæðið gæt enn verið hærra en áætlað innflæði var í kvikugangana sem mynduðust fyrir eldgosin í Fagradalsfjalli. Landris hófst á ný við Svartsengi eftir að kvikugangurinn myndaðist og mælist hraðara en það var fyrir 10. nóvember. Stærsti skjálfti vikunnar var 3.7 að stærð og var hann staðsettur um 3 km vestur af Kleifarvatni.


Nánar má skoða yfirfarna skjálfta í Skjálfta Lísu

Lesa meira

Jarðskjálftayfirlit 45. viku 07. - 14. nóvember 2023

Rúmlega 15700 skjálftar mældust á landinu í viku 45. Þar af er búið að yfirfara um 1150 skjálfta. Þessi mikla virkni stafar af hrinu á Reykjanesskaganum sem hófst þann 25. október. Þann 10. nóvember myndaðist kvikugangur sem hefur verið áætlaður um 15 km á lengd og liggur á um 800 m dýpi þar sem hún er grynnst. Gangurinn nær frá Kálffellsheiði í norðri og liggur rétt vestan Grindavíkur og í sjó fram í suðvestur stefnu. Um 140 skjálftar mældust yfir 3 að stærð og þar af voru rúmlega 20 yfir 4 að stærð. Stærsti skjálftinn í vikunni mældist 5 að stærð þann 10. nóvember og var hann staðsettur við Hagafell. Rólegt hefur verið á öðrum landshlutum en hafa ber í huga að ekki hefur tekist að yfirfara alla skjálfta utan virkninnar á Reykjanesinu.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: SkjálftaLísa


Lesa meira

Titill Jarðskjálftayfirlit fyrir viku 43 og 44. 23. október – 7.nóvember 2023

Tæplega 21700 skjálftar mældust á landinu í viku 43 og 44 þar af er búið að yfirfara um 3100 skjálfta. Þessi mikla virkni stafar af skjálftum á Reykjanesskaganum sem hófst þann 25.október vegna kvikuinnskota við Þorbjörn á um 5 km dýpi og Fagradalsfjall á um 10 km dýpi. Landris hófst á svæðinu NV við Þorbjörn þann 27. Október og hefur jarðskjálftavirknin verið mest í kringum það svæði síðan þá. Stærsti skjálftinn á Reykjanesskaga mældist þann 25.október og varð hann 4.5 að stærð. Alls hafa sjö skjálftar mælst yfir 4 að stærð og um 65 yfir 3 að stærð. Skjálftarnir hafa fundist víðsvegar um Reykjanesskagann, Höfuðborgarsvæðið og Borgarfirði. Stærsti skjálftinn í viku 43 og 44 varð í Bárðarbungu þann 24.október og var hann 5 að stærð.

Nánar má skoða skjálftavirkni hér: SkjálftaLísa

Lesa meira




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica