horft úr fjalli yfir þorp og út á fjörð
Úr Drangagili fyrir ofan Neskaupstað.

Helstu hugtök við skráningu ofanflóða

Veðurstofa Íslands 30.10.2006

Nokkur hugtök eru notuð við skráningu snjóflóða og annarra ofanflóða og eru þau helstu skilgreind hér til hægðarauka. Flest hugtökin eiga einkum við snjóflóð en sum eru einnig notuð til þess að lýsa aurskriðum og grjóthruni.

  • Farvegur er heiti á því svæði sem getur komið við sögu þegar flóð fellur úr ákveðnu upptakasvæði. Farvegurinn nær frá efstu hugsanlegu upptökum flóðs niður að mestu hugsanlegu úthlaupslengd þess.
  • Farvegurinn skiptist í upptakasvæði, fallbraut og úthlaupssvæði.
  • Upptakasvæðið liggur efst og er fyrir snjóflóð venjulega skilgreint sem sá hluti farvegar þar sem landhalli er yfir 28?30°.
  • Fallbraut tekur við neðan upptakasvæðis, en það er sá hluti farvegarins neðan upptakasvæðis þar sem landhalli er yfir 10°.
  • Úthlaupssvæðið er neðst, en það er allt svæðið neðan fallbrautarinnar þar sem snjóflóð í viðkomandi farvegi geta farið yfir áður en þau stöðvast.

Mörkin milli fallbrautar og úthlaupssvæðis, þar sem halli hlíðarinnar er 10°, eru nefnd ?-punktur. Í reynd er oft erfitt að finna skýr skil á milli þessara svæða, sérstaklega í minni farvegum. Af þessum sökum er skilgreining fallbrautarinnar stundum erfið, en það kemur lítið að sök því mestur áhugi er á efri mörkum upptakasvæðis og neðri mörkum úthlaupssvæðis.

Farvegur kallast afmarkaður ef hann hefur ákveðna breidd, t.d. í gili eða skál, en opinn ef hann er í sléttri hlíð. Þetta tvennt getur blandast í stórum og breiðum farvegum, sem að mestu eru í sléttum hlíðum, en skornir grunnum giljum eða skorningum.

  • Neðan afmarkaðra farvega (gilja) liggur úthlaupssvæðið oft yfir aurkeilu eða skriðuvæng, sem breikkar það mjög. Úthlaupssvæði langra flóða í þröngum dölum getur náð upp í brekku andspænis upptakasvæðinu og fallbrautinni.
  • Aðsópssvæði er það svæði í grennd við snjóflóðafarveg sem skefur af inn á upptakasvæðið.
  • Upptök nefnist sá staður innan upptakasvæðisins þar sem ákveðið snjóflóð byrjar. Innan hvers upptakasvæðis geta þannig verið mörg mismunandi upptök sem eiga við mismunandi snjóflóð.

Flokkun snævar

Snjór er sagður þurr ef illmögulegt er að hnoða hann, rakur ef hann hnoðast og er við 0°C, votur ef hægt er að sjá í honum vatn eftir að hann hefur verið kreistur og mettaður ef öll holrúm milli snjókorna eru full af vatni.

  • Flekasnjóflóð nefnast flóð þar sem heill fleki af vindpökkuðum snjó fer af stað í einu, en lausasnjóflóð myndast þegar laus snjór missir innri bindingu sína og skríður af stað. Krapahlaup nefnast snjóflóð þar sem snjórinn er mettaður af vatni. Kófhlaup eru snjóflóð þar sem snjórinn blandast miklu lofti og verður svo eðlisléttur að flóðin hreyfast sem snjóský.
  • Ofanflóð, önnur en snjóflóð, flokkast í aurskriður, sem er vatnsblönduð skriða jarðefna, grjóthrun, þegar stakir hnullungar falla niður fjallshlíð, og berghlaup, þegar heil bergfylla hrynur fram.
  • Brotsár eða brotlínu má sjá sem greinileg mörk upptaka eftir flekaflóð.
  • Brotstál er veggurinn sem eftir verður og er hann sem næst hornrétt á skriðflöt snjóflóðsins. Brotstálið hefur ákveðna þykkt og ákveðna breidd.
  • Orðið hæð er hins vegar notað til að lýsa hæð upptakanna yfir sjó.
  • Hugtakið tunga er haft um snjóflóð sem hefur stöðvast. Tunga ákveðins snjóflóðs nær oftast einungis yfir lítinn hluta úthlaupssvæðisins. Tungubroddurinn er stöðvunarpunktur snjóflóðsins, þ.e. sá hluti þess sem lengst fór.
  • Úthlaupslengd er lárétt skriðlengd snjóflóðs frá efstu upptökum niður að stöðvunarpunkti. Þegar snjóflóð sveigir til hliðar á leið sinni niður hlíðina er skriðlengdin reiknuð eftir þeirri leið sem flóðið rann en ekki eftir beinni línu frá upptökum að stöðvunarpunkti.
  • Úthlaupshorn er halli snjónlínu frá stöðvunarpunkti flóðsins að upptökum þess. Ef leið flóðsins niður hlíðina er ekki bein er tekið tillit til þess á sama hátt og við ákvörðun á skriðlengd flóðsins.
  • Rennslisstig er mælikvarði á skriðlengd snjóflóða sem gerir kleift að bera saman skriðlengd flóða sem falla í mismunandi farvegum.


Til baka




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica