Leiðbeiningar með snjóflóðaforsíðu

Skýringar á hugtökum og táknum - sjá töflu

Veðurstofa Íslands 16.1.2013

Mat á snjóflóðahættu

Mat vakthafandi snjóflóðasérfræðings á aðstæðum á landinu með tilliti til snjóflóðahættu.

Snjóflóðaspá fyrir valin svæði

Sérstök snjóflóðaspá er gefin út þrisvar í viku fyrir þrjú landsvæði: Norðanverða Vestfirði, utanverðan Tröllaskaga og Austfirði. Spáin er gerð á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 16 en hún er uppfærð oftar ef þurfa þykir. Spáin er gerð að alþjóðlegri fyrirmynd og er stuðst við töflu European Avalanche Warning Services, EAWS.

Snjóflóðaspáin getur gagnast þeim sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi og fleirum sem þurfa að taka ákvarðanir sem tengjast snjóflóðahættu, s.s. Vegagerðinni, fjallaleiðsögumönnum, rafveitum og rekstraraðilum skíðasvæða. Tilgangurinn er að draga úr áhættu almennings vegna snjóflóða.

Á forsíðu birtist stytt útgáfa af spánni en ef smellt er á tengilinn Nánar má finna nákvæmari spá. Í fróðleiksgrein er frekari umfjöllun um snjóflóðaforsíðuna og tilgang hennar.

Norðanverðir Vestfirðir ná frá fjöllunum sunnan við Dýrafjörð norður að Ísafjarðardjúpi og afmarkast að austanverðu við fjöllin austan við Álftafjörð. Utanverður Tröllaskagi afmarkast í vestri af fjöllunum í vestanverðum Siglufirði og nær austur um Ólafsfjörð og inná Dalvík. Austfirðir afmarkast af Seyðisfirði í norðri og norðanverðum Fáskrúðsfirði í suðri.

Snjóflóðahættutafla

Á snjóflóðahættukortinu eru notaðir eftirfarandi litir. Skýringar litanna eru í töflunni, sem er gerð samkvæmt stöðlum EAWS.

  Hættustig
 Tákn Stöðugleiki
Líkur á snjóflóðum
5
Mjög mikil hætta


Snjóþekjan er almennt mjög óstöðug. Búast má við fjölmörgum stórum og oft á tíðum mjög stórum náttúrulegum snjóflóðum, jafnvel í tiltölulega litlum bratta*.

4
Mikil hætta
  Snjóþekjan er víðast óstöðug í bröttum brekkum*.
Líklegt er að snjóflóð falli víða í bröttum brekkum*, jafnvel við lítið álag** á snjóþekjuna. Við sérstakar aðstæður geta fallið fjölmörg miðlungsstór og oft á tíðum stór náttúruleg snjóflóð.

3
Töluverð hætta
  Snjóþekjan er nokkuð víða óstöðug eða frekar óstöðug í bröttum brekkum*.
Snjóflóð geta fallið við lítið álag** á snjóþekjuna sér í lagi í bröttum brekkum*. Við sérstakar aðstæður geta fallið miðlungsstór og einstaka stór náttúruleg snjóflóð.

2
Nokkur hætta
  Snjóþekjan er almennt stöðug en í einstaka bröttum brekkum* er stöðugleikinn minni.
Snjóflóð geta fallið við mikið álag** á snjóþekjuna, sér í lagi í bröttum brekkum*. Litlar líkur eru taldar á stórum náttúrulegum snjóflóðum.

1
Lítil hætta
  Snjóþekjan er almennt stöðug og vel samanbundin.
Snjóflóð geta fallið á afmörkuðum svæðum í mjög bröttum og hættulegum brekkum* við mikið álag** á snjóþekjuna. Einu náttúrulegu snjóflóðin sem geta fallið eru smáspýjur.

* Snjóflóðaaðstæðum er nánar lýst í texta sem fylgir snjóflóðaspánni (t.d. landslagi, svo sem hæð yfir sjávarmáli og viðhorfi fjallshlíða en það er sú átt sem hlíðin horfir við).

  • Tiltölulega lítill bratti: Halli minni en 30°.
  • Brattar brekkur: Halli meiri en 30°.
  • Mjög brattar og hættulegar brekkur: Halli meiri en 40°, t.d. neðan fjallsbrúna (þar sem mikil snjósöfnun eða hengjumyndun getur orðið) eða þar sem yfirborð er slétt og því lítið viðnám milli snjóþekju og undirlags.

** Álag/áraun:

  • Lítið: Stakur skíðamaður eða brettamaður sem rennir sér átakalítið án þess að detta; maður á snjóþrúgum; hópur sem ferðast með góðu bili á milli manna (lágmark 10 m).
  • Mikið: Tveir eða fleiri skíðamenn og/eða brettamenn sem ekki ferðast með góðu bili á milli manna; snjótroðari / snjóbíll / vélsleði; sprengingar; stakur göngumaður.

Veðurútlit með tilliti til snjóflóða

Veðurspá með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu fyrir spátíma snjóflóðaspár.

Tilkynningar um snjóflóð síðustu daga

Taflan og kortið sýna snjóflóðatilkynningar sem Veðurstofunni hafa borist síðustu 10 daga. Hafa ber í huga að flestar tilkynningar berast frá svæðum þar sem snjóathugunarmenn starfa og að önnur snjóflóð geta hæglega hafa fallið án þess að fólk hafi orðið þeirra vart eða tilkynning hafi borist Veðurstofunni. Stærð hvers snjóflóðs kemur fram í tákni á kortinu en litakvarðinn sýnir hversu margir dagar eru liðnir síðan viðkomandi snjóflóð féll. Nánari upplýsingar um flóðið fást með því að leggja bendilinn yfir táknið.

Tenglar

Undir kortinu eru tenglar á helstu vefsíður sem varða ofanflóð; meðal annars er þar útskýring á stærðarflokkun snjóflóða. Notendur eru hvattir til að tilkynna snjóflóð sem þeir verða varir við, en hnappurinn Tilkynna snjóflóð (undir snjóflóðaspánni) opnar skráningarformið.

Samband við snjóflóðavakt

Hægt er að ná sambandi við snjóflóðavakt með að senda tölvupóst á mailto:ath_snjor@vedur.is eða hringja á Veðurstofuna í síma 5226000 og biðja um snjóflóðavakt.

Mikilvægi þekkingar og öryggisbúnaðar

Það er mikilvægt fyrir þá sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi að meta aðstæður og kunna að forðast það að setja af stað flóð. Snjóflóðaspáin er hjálpartæki í því sambandi en hafa ber í huga að spáin gildir fyrir stórt landsvæði og snjóflóðahætta getur verið breytileg innan svæðisins.

Það geta orðið slys þótt menn fari varlega og því er minnt á að ýlir, skófla og snjóflóðastöng á að vera staðalbúnaður hjá þeim sem ferðast um snævi þakin fjöll. Nauðsynlegt er að kunna að nota þennan útbúnað á réttan hátt.

Ítarefni

Um nauðsyn og nytsemi snjóflóðaspárinnar má lesa í sérstakri kynningargrein.


Til baka
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica