hólkur á stöng efst á grónum varnargarði, fjallshlíð í baksýn
Efra radarmastrið á varnargarðinum undir Skollahvilft.

Hraði tveggja snjóflóða mældur

Tvö lítil snjóflóð úr Skollahvilft á Flateyri mæld

Tómas Jóhannesson 17.3.2011

Tvö snjóflóð féllu úr Skollahvilft snemma morguns þann 13. janúar 2011 og náðu nokkuð niður með varnargarðinum þó ekki næðu þau alveg að honum. Hraði flóðanna mældist með Doppler radar sem staðsettur er á mastri ofarlega á varnargarðinum. Tveir radarar eru á varnargarðinum en flóðið mældist einungis á þeim efri. Radarinn mælir hraða snjóflóðsins með endurkasti rafsegulbylgna með svipuðum hætti og radar lögreglu mælir hraða bifreiða.

Hámarkshraði snjóflóðsins mældist milli 20 og 25 m/s, eða um 80 km/klst eins og sjá má á meðfylgjandi mælingum radarsins (línurit). Radarinn vinnur þannig að mæligögn eru stöðugt skráð á 3 s fresti í um 30 s langan glugga sem svo er vistaður ásamt mælingum næstu einnar og hálfrar mínútu í skráningartæki þegar radarinn telur sig hafa orðið varan við flóð.

línurit
línurit

Á myndaröðunum fyrir flóðin má sjá að endurkast mælist á tímabilinu 18 til 27 sekúndum eftir að mæling radarsins hófst. Fyrra flóðið sem féll kl. 05:39 náði heldur meiri hraða en það síðara sem féll kl. 06:06. Flóðsnjór beggja flóðanna virðist hafa ferðast nánast á sama hraða sem bendir til þess að flóðsnjórinn hafi haft mikla samloðun og flóðin runnið sem samhangandi teppi eða lest.

Flóð sem streyma með meiri hraða einkennast af iðuköstum og þau hafa mun minni samloðun. Hraðamælingar á slíkum flóðum sýna breiðara hraðabil, þ.e. toppurinn á hraðamyndunum er þá breiðari en fyrir flóðin þann 13. janúar.

Hraði snjóflóðs úr Skollahvilft hefur áður mælst með radarnum en það var aðfaranótt 30. mars 2009. Það flóð rann niður með endilöngum garðinum og náði niður í lónið við veginn út á eyrina (sjá frétt og fróðleiksgrein). Flóðið 2009 rann um 5 m lóðrétt upp á garðinn sem er 15-20 m hár. Í febrúar 1999 féll talsvert stærra snjóflóð á sama stað og rann það um 13 m upp á garðinn. Flóðið 2009 náði mun meiri hraða en flóðið sem féll í janúar sl. Hámarkshraði þess mældist milli 50 og 60 m/s, eða um 200 km/klst.

Hraðamælingarnar á Flateyri eru hluti af rannsóknum til þess að meta áhrif varnargarða á flæði snjóflóða. Markmiðið er að bæta hönnun slíkra garða og öðlast betri skilning á örygginu sem þeir veita. Ofanflóðasjóður og fimmta rammaáætlun Evrópuráðsins fjármögnuðu mælitækin og rannsóknirnar.

Til baka
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica