Um snjóflóðasprengingar
Tilraunir í vísindaskyni
Á Íslandi hafa sprengingar ekki verið notaðar markvisst til þess að koma af stað snjóflóðum. Því er öfugt farið víða erlendis þar sem sprengingar eru mikið notaðar við snjóflóðaeftirlit, einkum við skíðasvæði og vegi.
Tilgangur snjóflóðasprenginga er eftirfarandi:
- Með sprengingum er hægt að koma af stað snjóflóðum við aðstæður sem hægt er að hafa stjórn á. Þannig er hægt að sprengja af stað snjóflóð þegar enginn er á viðkomandi svæði og opna það síðan aftur eftir að snjóflóðið hefur fallið.
- Tíðar sprengingar sjá til þess að snjórinn kemur niður í mörgum minni flóðum fremur en einu stóru.
- Sprengingum er gjarnan beitt til að kanna stöðugleika snjóþekjunnar.
- Það að koma af stað snjóflóðum á þennan hátt hefur vísindalegt gildi þar sem það gefur færi á að gera ýmsar rannsóknir á flóði á ferð og ná góðum myndbandsupptökum.
Sprengiaðferðir
Sprengiefni eru notuð til að senda fjaðrandi (elastískar) þrýstibylgjur í gegnum snjóinn. Við það getur myndast skerbrot sem breiðist út í snjóþekjunni ef aðstæður eru réttar og þá fer flekaflóð af stað. Bestur árangur fæst með því að hitta á svokallaða veika bletti í snjónum, en það eru lítil svæði þar sem auðveldast er að koma af stað snjóflóði. Hugsanlega er spennan þar mest, eða flekinn yfir veika laginu þynnstur.
Best er að sprengja þegar stöðugleikinn er lítill vegna þess að litla viðbótarspennu þarf til að mynda brotlínu. Einnig er æskilegt að snjórinn yfir veika laginu hafi næga samloðun til þess að brot geti breiðst yfir stórt svæði og framkallað flekaflóð.
Við snjóflóðaeftirlit erlendis eru notaðar ýmsar gerðir af sprengjum. Handsprengjur eru gjarnan notaðar í litlum brekkum sem auðvelt er að komast að ofan frá. Fallbyssur geta náð til svæða sem ekki er hægt að komast að. Einnig eru stundum notaðir kláfar til að koma sprengiefni í upptakasvæðin. Þyrlur eru töluvert notaðar og eru þá notaðar ýmsar aðferðir m.a. gassprengibúnaður sem hangir neðan úr þyrlunum. Stundum er sprengiefni komið fyrir á yfirborði að hausti og einnig hafa verið þróaðar gassprengjur sem komið er fyrir í upptakasvæðum og hægt er að sprengja með fjarstýringu.
Tilraunaverkefni á Ísafirði
Haustið 2006 fór af stað samstarfsverkefni Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði og Helga Mar Friðrikssonar sprengjusérfræðings. Tilgangur verkefnisins er að gera tilraunir með að koma af stað snjóflóðum með sprengingum. Markmiðið er að kanna hvort hægt sé að koma af stað flóðum á þennan hátt á Íslandi og byggja upp reynslu af því við hvernig aðstæður best er að koma af stað flóðum og með hvaða sprengjuaðferðum. Notað var venjulegt dýnamít við tilraunirnar þar sem það er einfaldasta og ódýrasta aðferðin. Tilraunirnar voru gerðar í óbyggðum í nágrenni Bolungarvíkur.
Veturinn 2006-2007 voru gerðar tilraunir með að koma af stað snjóflóðum í frekar litlum og bröttum farvegum með yfirborðssprengingum. Notuð voru 3-5 kg af dýnamíti sem voru látin síga niður í upptakasvæðin og síðan sprengd. Veikt lag var viðloðandi í snjónum þennan vetur og við slíkar aðstæður reyndist auðvelt að setja af stað flóð á þennan hátt. Sett voru af stað tvö flekaflóð og einnig voru sprengdar niður hengjur.
Veturinn 2007-2008 var ákveðið að gera tilraunir með að sprengja af stað flóð neðan frá með stærri hleðslum en áður í stærri farvegum. Tilgangurinn var ekki síst að reyna að koma af stað stórum flóðum í vísindaskyni. Vel tókst til og tvisvar sinnum voru sett af stað stór snjóflóð. Í fyrra skiptið hafði flóðið einkenni vots snjóflóðs en í seinna skiptið var flóðið þurrt og fylgdi því mikið kóf. Til eru upptökur (.wmv) af þessum tveimur flóðum sem skoða má hér á vefsíðunni, bæði styttri útgáfa án hljóðs (6 mínútur) og lengri útgáfa með tali (17 mínútur) þar sem sagt er frá verkefninu og helstu einkennum snjóflóðanna.
Forsenda þess að geta horft á upptökurnar sem fylgja þessari grein er að hafa Windows Media Player eða sambærilegt forrit til að spila myndbönd í tölvu. Þetta eru Windows Media Video skrár. Almennum notanda hefur reynst auðveldast að ræsa myndböndin úr vafranum Internet Explorer.
Ítarleg greinargerð hefur verið skrifuð um þetta verkefni (pdf 2,0 Mb).