Afkomumælingar
Starfsmenn Veðurstofu Íslands fara árlega tvær ferðir á Hofsjökul og Drangajökul til þess að fylgjast með afkomu þessara jökla. Mæld er ákoma, leysing og ísskrið í 25 mælipunktum á Hofsjökli og 5 punktum á Drangajökli. Í vorferðum er vetrarákoma á jöklunum mæld með snjókjarnaborun niður að hausthvörfum, sem marka skil milli vetrarsnævar og eldra árlags.
Auk þykktar og eðlisþyngdar snjólagsins er hiti snævarins mældur og lagskipting hans skráð. Síðan er sett 6 m löng álstika sett í hverja borholu og skilin þar eftir til hausts. Þá er sumarleysing lesin af stikunni og afkoma ársins í heild síðan reiknuð. Við þessar mælingar er miðað við að jökulárið hefjist að hausti og standi til næsta hausts.
Árið 2008 var hleypt af stokkunum verkefni sem miðar að nákvæmri kortlagningu yfirborðs allra meginjökla á Íslandi og nokkurra smærri jökla. Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands standa sameiginlega að þessu verkefni með fulltingi íslensku heimskautaársnefndarinnar. Notast er við leysigeislamælitæki um borð í flugvél við mælingar og er ætlunin að útbúa reitskipt kort með 10x10 m upplausn og 1 m nákvæmni í hæðarmælingu. Í september 2008 var byrjað að mæla á Hofsjökli, Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli, Eiríksjökli og Snæfellsjökli. Stöku vefgreinar hafa verið skrifaðar um efnið:
Afkomumælingar á Hofsjökli vorið 2009