Flóðakortlagning

Flóðakortlagning

Á Veðurstofu Íslands er verið að vinna verkefni um hættumat og áhættugreiningu vegna flóða í ám. Hluti verkefnisins snýr að viðhorfi íbúa til flóðahættu og skipulagsáætlana á flóðasvæðum. Verkefnið er að stórum hluta doktorsverkefni í samvinnu Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Greining flóðahættu er unnin í landfræðilegum upplýsingakerfum og bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að ekki sé hægt að nota rennslisgögn til að ákvarða stærð flóða heldur sé útbreiðsla flóða meginbreyta við greiningu hættu og skipulagsáætlana.

Flóðavöktunarmælar

Flóð í desember 2006 komu mönnum að óvörum. Einna mest voru þau á vatnasviði Hvítár í Árnessýslu, Hvítár í Borgarfirði, Héraðsvatna í Skagafirði og Skjálfandafljóts. Vatnamælingar Orkustofnunar, nú Veðurstofa Íslands, voru með vatnshæðarmæla á öllum þessum vatnasviðum. Einungis einn þeirra, í Skjálfandafljóti við Aldeyjarfoss, var gerður til að senda viðvaranir vegna flóða, en sá mælir á að fylgjast með hugsanlegum jökulhlaupum af eldvirkum svæðum undir norðanverðum Vatnajökli.

Í kjölfar flóðanna var stofnuninni falið að breyta vatnshæðarmælum ofarlega á vatnasviðum Hvítár í Árnessýslu, Norðurár í Borgarfirði og Héraðsvatna í Skaga firði þannig að mælarnir senda viðvörun ef vatnshæð fer yfir ákveðin mörk. Með þessu móti má fá viðvörun vegna hugsanlegra flóða með nokkrum fyrirvara. Einnig var ákveðið að setja upp nýja vatnshæðarmæla á flóðasvæðunum, bæði til að fylgjast með flóðum og gefa viðvaranir. Í þessu skyni voru settir upp þrír nýir mælar á flóðasvæðum við Hvítá í Árnessýslu og Ölfusá, einn mælir á flóðasvæði Norðurár og Hvítár í Borgarfirði, einn mælir í Eyjafjarðará og einn á flóðasvæði Skjálfandafljóts. Vatnshæðarmælir hefur verið rekinn lengi á flóðasvæði Héraðsvatna og nýtist hann til að fylgjast með flóðum í Skagafirði.

Gögn úr þessum vatnshæðarmælum og öðrum eru aðgengileg í vatnshæðarmælakerfi  Veðurstofu Íslands. Athugið að gögnin eru óyfirfarin og Veðurstofan tekur ekki ábyrgð á notkun þeirra.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica