Krapastífla í Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði
Stíflan nú jafnstór og fyrir fjórum árum
Mikil krapastífla hefur nú myndast í Jökulsá á Fjöllum við brú á þjóðvegi nærri Grímsstöðum (sjá frétt 20.1.2015. Sjá einnig fleiri ljósmyndir frá brúnni og loftmyndir úr eftirlitsflugi. Rétt ofan við brúna á þjóðveginum er vatnshæðarmælir Veðurstofunnar og má því fylgjast með breytingum á vatnshæð, nánast í rauntíma.
Bera fór á ístruflunum á þessum stað um miðjan desember 2014 en skömmu fyrir árslok dró mjög úr þeim. Frá 11. janúar 2015 hefur ís/krapa stíflan verið að byggjast upp. Ís- eða krapastíflur eru frekar algengar á þessum stað. Lofthiti, vindur og snjóalög eru afgerandi þættir við myndun ísstífla ásamt staðháttum þar sem stíflan myndast. Upphækkaðir vegir, brýr og varnargarðar geta haft mikil áhrif hvað þetta varðar.
Stórar krapastíflur í Jökulsá á Fjöllum myndast þegar mjög kalt er í veðri og skafrenningur. Vatnshiti lækkar þá hratt niður að frostmarki og verður jafnvel undirkældur í efri lögum en það fer eftir því hvort rennsli er jafnt eða iðukennt. Mikill krapaburður verður í ánni og við stefnubreytingu eða hindranir hrannast krapinn upp og byrjar að frjósa saman. Ískristallar í undirkældu vatninu setjast á botninn og það myndast grunnstingull sem vex við þessi skilyrði frá botni og upp og þrengir þar með að ánni. Þegar þrengir að ánni með þessum hætti hækkar vatnsborðið, það hægir á rennsli árinnar og ísstíflan þykknar. Í Jökulsá á Fjöllum getur þykkt stíflunnar náð svipaðri hæð og brúargólfið og vatn fer þá að renna yfir þjóðveginn. Eins og stendur teygir stíflan sig rúmlega 2,5 kílómetra niður fyrir brúna og um 3 km upp fyrir hana.
Ofarlega á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum rennur lindarvatn í ána, og finnur það sér oftast farveg undir ísnum og getur runnið þar óhindrað. Á móts við Upptyppinga er rennslið hátt í 60 m3/s síðla vetrar og það heitt að þar er lítill ís í farvegi. Neðar er áin á aurum og þar myndast skarir eða kvíslarnar leggur alveg. Vaxi í ánni lyftir vatnið undir skarirnar og þær brotna upp og fljóta af stað. Stundum brotna upp stórir flekar. Flekarnir berast á hindrun, beygju, grynnri farveg eða ísspöng og stranda. Síðan berast jakar og krapi að og stranda á þeim föstu og þannig byrjar ís að hrannast upp.
Ef rennsli eykst hinsvegar skyndilega vegna snarprar hlýnunar í veðri og hláku eða vegna jarðhitavirkni þá er töluverð hætta á ferðum. Áin getur þá rutt sig í þrepahlaupi með miklum látum.
Það sem oftast gerist þegar krapastífla myndast á þessum stað, og mun vonandi gerast í þessu tilviki líka, er að áin finnur sér farveg og bræðir af sér stífluna jafnt og þétt með hjálp vatnshitans sem getur verið 2 °C og jafnvel meiri ef milt er í veðri.
Höfundar:
Jón Ottó Gunnarsson
Matthew J. Roberts
Snorri Zóphóníasson
Oddur Sigurðsson