Viðfangsefni

Viðfangsefni

Viðfangsefni Veðurstofu Íslands eru eðlisþættir jarðar, þ.e. loft, vatn, snjór og jöklar, jörð og haf. Unnið er að fjölbreyttum verkefnum sem tengjast meðal annars veðri, hafís, mengun, ofanflóðum, jarðskjálftum, eldvirkni, hniki á yfirborði jarðar, vatnafari, jöklabúskap, hlaupum og flóðum.

Loft

Veðurstofan annast rauntímavöktun á veðri með rekstri veðurathugunarkerfa, veðurlíkana og öflun fjar­könnunargagna (háloftamælinga, ratsjár- og gervihnattagagna). Hún gefur út veðurlýsingar, veðurspár og viðvaranir um ýmsa þætti veðurs, bæði á landi og sjó. Þá veitir stofnunin veðurþjónustu við flug innan íslenska flugstjórnarsvæðisins. Veðurstofan stundar rannsóknir á veðri, veðurspám og veðurfari landsins bæði til að bæta veðurþjónustuna, en einnig vegna langtímabreytinga á loftslagi. Loks fylgist hún með ósoni í lofthjúpi, geislunarbúskap jarðarinnar og mengun í lofti og úrkomu.

Vatn, snjór og jöklar

Veðurstofan safnar grundvallarupplýsingum og þekkingu um vatnafar landsins með rekstri vatnamælingakerfis og langtímarannsóknum. Hún stundar rannsóknir á vatnsauðlindinni í föstu og fljótandi formi, eðli hennar og skilyrðum til sjálfbærrar nýtingar. Veðurstofan sendir út viðvaranir vegna hættu á hlaupum og vatnsflóðum og gefur einnig út viðvaranir og metur ísingu á landi. Stofnunin annast verkefni á sviði ofanflóðavarna og vaktar staðbundna hættu á ofanflóðum í þéttbýli, ásamt því að senda út almennar viðvaranir vegna snjóflóða.

Jörð

Veðurstofan annast rauntímavöktun á jarðskjálftum, eldgosum, kvikuhreyfingum og jökul­hlaupum á Íslandi með rekstri landsnets jarðskjálfta- og GPS-mæla. Hún sendir út viðvaranir um þessa þætti. Hún safnar upplýsingum um jarðskjálfta, jarðsuð, ísskjálfta og hægar jarðskorpuhreyfingar, sem verða m.a. vegna landreks og farbreytinga jökla. Veðurstofan stundar jafnframt rannsóknir á öllum þessum þáttum til að efla vöktunargetu sína og hæfni til að gefa út viðvaranir. Ennfremur safnar stofnunin upplýsingum um öskufall frá yfirstandandi eldgosum þegar ástæða þykir til.

Haf

Veðurstofan vaktar og varðveitir upplýsingar um ýmsa eðlisþætti hafsins eins og hita, hafís, ísingu á sjó, breytingar á sjárvarstöðu, s.s. vegna loftlagsbreytinga og sjólags. Hún sendir út viðvaranir vegna hættu á sjávarflóðum, hafíss á siglingaleiðum og ísingar á skipum. Þá stundar stofnunin athuganir og rannsóknir á áhrifum vatnsfalla og aurburðar á strandsjó og sjávarlón.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica