Veðurstofa Íslands 90 ára
loftmynd - flóð
Hlaup í Markarfljóti 14. apríl 2010.

Flóðavöktun og jökulhlaup - Eyjafjallajökull

Veðurstofa Íslands 90 ára

Oddur Sigurðsson 30.12.2010

Á Íslandi verða jökulhlaup oftar en annars staðar vegna sérstæðs samspils jökla og eldgosa. Stærstu Kötluhlaup eru mestu vatnavextir sem maðurinn hefur orðið vitni að. Í hámarki þeirra eru þau mestu vatnsföll jarðar með allt að tvöföldu rennsli Amazonfljóts, sem er fimmfalt vatnsmeira en næststærsta vatnsfall jarðar.

Íslendingar hafa lært að varast helstu farvegi jökulhlaupa sem eru Mýrdalssandur og Skeiðarársandur. Þar er nú ekki byggð. Öðru máli gegnir um Markarfljótsaura, Landeyjar og sanda fyrir botni Öxarfjarðar. Þar gæti byggð verið í hættu, enda hafa komið þar mikil jökulhlaup og munu eflaust koma aftur í fyllingu tímans.

Rík ástæða var til að koma upp viðvörunarkerfi, sem varar við vatnavöxtum, svo sem gert hefur verið á Veðurstofu Íslands. Um leið og vart verður óvenjulegrar vatnsborðshækkunar, óeðlilegs hita í vatni eða að rafleiðni vatns eykst til muna, hringja viðvörunarbjöllur. Þannig fæst nokkurra klukkustunda eða jafnvel meira en sólarhrings forskot til að bregðast við yfirvofandi vá.

Mikilvæg reynsla kom á viðvörunarkerfið við gos í Eyjafjallajökli 14. apríl 2010. Þar, sem og í Öræfum, eiga jökulhlaup styttri og brattari leið í byggð en annars staðar á landinu og var því þörf fumlausra viðbragða. Mælitæki og búnaður Veðurstofunnar og Landhelgisgæslunnar gegndu lykilhlutverki við að stýra viðbúnaði almannavarna og annarra yfirvalda við hættunni sem stóð af þessum hlaupum.

Markarfljót
Rennsli Markarfljóts (m3/s), mælt við gömlu brúna dagana 14. - 17. apríl 2010.

Jökulhlaup samfara gosinu voru sum með feikn af gjósku, jökum og krapi og komu mjög snögglega fram. Önnur voru að langmestu leyti vatn og brennheit. Sum runnu undir jöklinum alla leið frá eldstöðvunum og komu fram undan jökuljaðrinum en önnur brutu sér leið upp í gegnum jökulinn á leið niður hlíðar eldfjallsins og runnu ofan á jöklinum drjúgan hluta leiðar sinnar niður fjallið. Lítið og skammvinnt jökulhlaup til suðurs átti upptök í gosopi sem myndaðist sunnan toppgígs Eyjafjallajökuls og rann það ofan á jöklinum alla leið niður að jökuljaðri á Svaðbælisheiði og myndaði djúpa rás í jökulísinn.

Flóðasvæðin voru kortlögð nákvæmlega þegar hlaupin rénuðu svo að nýtast megi við rannsóknir og frekari varúð gegn slíkri hættu (stærra kort).

loftmynd

Höfundar

Oddur Sigurðsson, Gunnar Sigurðsson, Bogi B. Björnsson, Emmanuel P. Pagneux, Snorri Zóphóníasson, Bergur Einarsson, Óðinn Þórarinsson og Tómas Jóhannesson.

Ítarefni

Þetta er ágrip erindis sem flutt var á afmælisfundi Veðurstofunnar þann 14. desember 2010. Fleiri myndir og glærur sem til umfjöllunar voru má skoða á pdf-formi (5,8 Mb).

Lesa má fleiri greinar í málaflokknum Veðurstofa Íslands 90 ára.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica