Jarðskjálftayfirlit 30. viku - 24. - 30. júlí 2023
Um 840 jarðskjálftar mældust með SIL mælakerfi Veðurstofu Íslands í liðinni viku, þar af hafa um 610 verið handvirkt yfirfarnir. Af þeim 840 skjálftum sem mældust í vikunni voru rúmlega 280 skjálftar á Reykjanesi, en þeir voru nokkuð dreyfðir um skagann. Smáhrina hófst á Torfajökulssvæðinu þann 30.júlí og hafa um 75 skjálftar mælst á svæðinu. Stærsti skjálftinn mældist 30.júlí og reyndist hann 3.2 að stærð. Skjálftinn fannst í Hrauneyjum, Landmannalaugum og fleiri stöðum á Fjallabaki nyðra. Stærsti jarðskjálfti vikunnar mældist í Bárðarbungu þann 28.júlí og reyndist hann 3.6 að stærð. Áfram haldandi virkni var SA af Skjaldbreið og mældust tæplega 150 skjálftar þar í vikunni.
Nánar má skoða skjálftavirkni hér: SkjálftaLísa
Reykjanesskagi og Reykjaneshryggur.
Um 280 jarðskjálftar voru staðsettir á Reykjanesskaga í vikunni og hafa um 175 verið yfirfarnir. Skjálftarnir voru nokkuð dreyfðir um skagann en flestir röðuðu sér í grennd við kvikuganginn milli Litla Hrúts og Keilis, við Kleifarvatn og á Reykjanes tánni. Um 90 skjálftar mældust við kvikuganginn, flestir við Keili. Um 35 skjálftar mældust við Brennisteinsfjöll að Bláfjöllum. Rúmlega 80 skjálftar mældust við Reykjanestá og rétt utan við land. Um 16 skjálftar mældust á Reykjaneshrygg.
Suðurland
Rúmlega 40 jarðskjálftar mældust á Suðurlandi í vikunni sem er aðeins færri en í vikunni áður en þá mældust um 50 skjálftar. Þeir voru nokkuð dreyfðir um suðurlandsbrotabeltið. Sjö sjálftar mældust við Heklu, sá stærsti 1.6 að stærð.
Norðurland
Á Tjörnesbrotabeltinu mældust um 70 skjálftar sem er svipaður fjöldi og í síðustu viku. Um 50 skjálftar mældust á Grímseyjarbeltinu og rúmlega 16 á Eyjafjarðarálnum. Þrír skjálftar mældust út fyrir á Kolbeinseyjarhrygg og einn skjálfti í Skagafirði, rúmlega 25 km norður af Hofsós.
Um 15 skjálftar mældust á norðurgosbeltinu þar af tveir smáskjálftar norður af Húsavík.
Miðhálendið
Um 30 skjálftar mældust í Vatnajökli í vikunni þar af mældust rúmlega 15 í Bárðarbungu en þar var jafnframt stærsti skjálfti vikunnar en hann varð þann 28.júlí og mældist 3.6 að stærð. Þá mældist einn skjálfti við Grímsfjall og þrír skjálftar í kringum Skaftárkatlana.
Um 25 skjálftar mældust í Öskju, allir undir 2 að stærð. Um 30 skjálftar urðu við Herðubreið og næsta nágrenni.
Einn sjálfti mældist við Þórisvatn en hann var 1.2 að stærð.
Mýrdalsjökull
og Torfajökulssvæðið
Í
Mýrdalsjökli mældust tæplega
60
skjálftar, flestir innan öskjunnar en sá
stærsti
mældist
norðanlega í öskjunni þann 25.júlí og reyndist 1.5 að stærð.
Smáhrina hófst á Torfajökulssvæðinu þann 30.júlí og var stærsti skjálftinn 3.2 að stærð. Skjálftinn fannst fannst í Hrauneyjum, Landmannalaugum og fleiri stöðum á Fjallabaki nyðra.
Vesturgosbeltið
Áframhaldandi virkni var SA af Skjaldbreið í vikunni og mældust um 155 skjálftar, stærsti sjálftinn reyndist 2.9 að stærð þann 26.júlí.
Þrír skjálftar mældust við Grjótárvatn þann 30.júlí, stærsti skjálftinn mældist 2.2 að stærð.